Búnaðarbankinn var aðeins lítið brot af einkavæðingarferlinu

Salan á Búnaðarbankanum til S-hópsins var innan við 10% af einkavæðingarferlinu á árunum 1992-2007.

Einkavæðing Davíð Oddsson Halldór Ásgrímsson Stríðið um bankana Fréttablaðið Ráðherranefnd um einkavæðingu framkvæmdanefnd einkavæðingarnefnd
Ítrekað hefur verið fjallað um einkavæðingu ríkisfyrirtækja í fjölmiðlum. Hér má til að mynda sjá fyrstu grein í fréttaskýringaröð Fréttablaðsins í maílok 2005 þar sem fjallað var um einkavæðingu bankanna.

Á árunum 1992 – 2007 átti sér stað umfangsmikið einkavæðingarferli hér á landi. Alls voru 35 fyrirtæki seld til einkaaðila, ýmist að hluta til eða í heild sinni, á tímabilinu en óhætt er að segja að einkavæðingarferlinu hafi verið að mestu lokið 2007.

Einkavæðingarferlið var í takt við stefnu stjórnvalda hvers tíma, frá því að hin svokallaða Viðeyjarstjórn tók við völdum árið 1991 (Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur) og í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á árunum 1995-2007. Drifkrafturinn að baki einkavæðingarferli er í stuttu og einföldu máli sá að stjórnvöld hvers tíma telja að ákveðinn rekstur sé betur kominn í höndum einkaaðila en í höndum ríkisins. Samhliða því aflar sala á ríkiseignum hinu opinbera tekjur, sem hér á landi voru að mestu nýttar til að greiða niður skuldir ríkisins. Það er þó rétt að taka fram að Íslendingar voru nokkuð á eftir nágrannaþjóðum sínum í einkavæðingarferlinu, þá sérstaklega í einkavæðingu á fjármálafyrirtækjum. Enn er ýmiss konar rekstur í höndum ríkisins, svo sem sjúkrahús, orkufyrirtæki, áfengisverslun, flugstöðvar og flugvellir og fleira sem víða er í rekstri einkaaðila í löndunum sem við gjarnan berum okkur saman við.

Sem fyrr segir voru 35 ríkisfyrirtæki seld á tímabilinu 1992-2007. Þar má nefna fjármálafyrirtækin Fjárfestingarbanka atvinnulífsins (FBA), Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Þá má einnig nefna stór fyrirtæki á borð við Skýrr, Íslenska aðalverktaka, Þormóð Ramma, SR-Mjöl og loks Landssíma Íslands sem seldur var árið 2005 og er stærsta einstaka einkavæðing hér á landi.

Tekjur ríkisins á þessu tímabili námu um 165 milljörðum króna sé miðað við verðlag ársins 2007 þegar ferlinu lauk. Sem fyrr segir var Landssími Íslands stærsta einstaka einkavæðingin. Íslenska ríkið seldi tæplega 99% hlut sinn í félaginu á rúmlega 74 milljarða króna (m.v. verðlag 2007. Landssíminn var seldur fyrir 66,7 ma.kr. árið 2005).

Þær einkavæðingar sem hafa aftur á móti fengið hvað mesta athygli eru sölurnar á Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Árið 2002 seldi íslenska ríkið 45,8% hlut sinn í Landsbankanum til eignarhaldsfélagsins Samson fyrir um 12,3 ma.kr. (tæplega 15 ma.kr. á verðlagi ársins 2007). Það gerir um 9% af öllum tekjum ríkisins í einkavæðingarferlinu frá 1992. Áður hafði ríkið selt rúmlega 20% hlut í félaginu sama ár og sá hluti gekk kaupum og sölu í Kauphöllinni á sínum tíma. Miðað við gengi bankans í Kauphöllinni lítur út fyrir að Landsbankinn hafi verið seldur á undirverði til Samson. Nánar verður fjallað um það síðar.

Í byrjun árs 2003 seldi ríkið 45,8% hlut í Búnaðarbankanum til hins svokallaða S-hóps fyrir um 11,9 ma.kr. (14,2 ma.kr. á verðlagi 2007). Það gerir um 8,6% af öllum tekjum ríkisins í einkavæðingarferlinu frá árinu 1992. Þessi sala, sem er innan við 10% af öllu einkavæðingarferlinu, er eina salan sem hefur verið rannsökuð gaumgæfilega. Það má setja ákveðnar spurningar við ástæður þess og það er með margvíslegum hætti hægt að draga þá rannsókn í efa eins og ítrekað hefur verið fjallað um hér á þessum vef.