„Ég tek mína ábyrgð“

Ólafur Ólafsson tók undir með Hildi Sverrisdóttur þegar hún lýsti yfir áhyggjum af stöðu réttarkerfisins

Hildur Sverrisdóttir Nichole Leigh Mosty þingmenn Alþingi Ólafur Ólafsson
Hildur Sverrisdóttir og Nichole Leigh Mosty, ásamt Ólafi Ólafssyni á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. (Skjáskot/Vísir-Stöð2)

Réttarríkið, réttlát málsmeðferð og fleira var til umræðu á fundi Ólafs Ólafssonar með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis um miðjan maí sl. Eins og áður hefur komið fram telur Ólafur ýmsa vankanta á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um sölu ríkisins á hlut sínum í Búnaðarbankanum í byrjun árs 2003.

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, fjallaði meðal annars um þetta samhliða því sem hún spurði Ólaf um ýmis atriði verðandi kaup S-hópsins svokallaða á hlut í Búnaðarbankanum.

„… ég sé að bæði þú, konan þín og aðrir aðilar hafa rætt mikið um […] réttmæti og mikilvægi réttarríkisins og málsmeðferð að öðru leyti í jafnvel öðrum málum sem þér tengjast. Og mig langar að taka fram að ég deili þeirri skoðun. Í réttarríki er […] mikilvægt að allt svona sé eins skýrt og gegnsætt og umvafið eins miklu trausti og hægt er,“ sagði Hildur á fundinum.

Hildur bætti því við að hún teldi að um mikilvægan gjörning að ræða, þ.e. sölu ríkisins á hlut sínum í Búnaðarbankanum, því það væri hennar skoðun að bankakerfið væri ekki í höndum ríkisins. Þá vísaði Hildur í fyrri orð Ólafs þar sem hann hafði ítrekað að íslenska ríkið hefði ekki tapað fjármunum með því að selja hlut sinn í Búnaðarbankanum heldur þvert á móti fengið allt sitt greitt, að staðið hefði verið við alla samninga við ríkið og að bankinn hafi verið seldur hæstbjóðanda. Hildur tók fram að ekki væri hægt að rengja þau orð en bætti því við að hún teldi engu að síður, burtséð frá fjármagni, að ríkið íslenska ríkið hefði tapað „því að við sitjum núna eftir öll þessi ár og erum umlukin vantrausti, við erum skeptísk gagnvart svona gjörningum og ég held að það sé […] mikið áhyggjuefni…“ svo vísað sé til orða Hildar.

Ólafur tók undir þessi orð Hildar og bætti við;

„Ég tek alveg mína ábyrgð. Ég veit hvað til míns friðar heyrir. Ég held að það sé miklu einfaldara fyrir mig og fyrir aðra að vera opnir, leggja gögnin fram. Við getum lært eins lengi og við lifum og ég hef lært ákveðna hluti af þessu. Og það er ekki bara upp á ríkið að sakast, síður en svo. Eina sem ég óskaði eftir er gegnsæjum, skýrum, klárum reglum,“ sagði Ólafur.

Ólafur hefur tekið undir með fleiri nefndarmönnum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sem telja að draga eigi lærdóm af söluferlinu á Búnaðarbankanum. Um það er m.a. fjallað HÉR.