Fullyrðingar Vilhjálms löngu hraktar

Gagnrýni Vilhjálms Bjarnasonar á aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupum í Búnaðarbankanum hefur ítrekað verið hrakin.

Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason

Það að eignarhlutur þýska bankans Hauck & Aufhäuser í Búnaðarbankanum hafi ekki færður sérstaklega í ársreikning bankans á sér eðlilegar skýringar. Þrátt fyrir það hefur þetta tiltekna atriði verið lagt til grundvallar í gagnrýni Vilhjálms Bjarnasonar, nú alþingismanns, á söluferli Búnaðarbankans og aðkomu þýska bankans að kaupunum.

Um þetta er meðal annars fjallað í ritgerð Heiðars Lind Hanssonar, Aðeins meira um einkavæðingu Búnaðarbankans, sem unnin var í byrjun þessa árs.

Í ritgerðinni kemur fram að skömmu eftir brotthvarf Hauck & Aufhäuser úr hluthafahópi Eglu fór að bera á gagnrýnisröddum um söluferlið. Þar hafi Vilhjálmur Bjarnason, þáverandi aðjúnkt við Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta, verið fremstur í flokki. Hann hafi sett fram harða gagnrýni á aðkomu þýska bankans að Eglu og Búnaðarbankanum sem fékk mikla athygli í fjölmiðlum á þeim tíma.

Eins og flestum er kunnugt fólst gagnrýnin aðallega í því að bankinn hafi ekki verið raunverulegur eigandi hlutabréfa sinna í Eglu vegna þess að hann gaf ekki bréfin upp í ársreikningum sínum.

„Sama dag og greint var frá gagnrýni Vilhjálms sendu Hauck & Aufhäuser og Egla frá sér fréttatilkynningu til fjölmiðla þar sem gagnrýninni var alfarið hafnað. Tæpu hálfu ári síðar taldi Vilhjálmur sig hafa frekari gögn til til að styðja mál sitt og gerði hann grein fyrir þeim í þættinum Silfri Egils á sjónvarpsstöðinni NFS 19. febrúar 2006. Í framhaldinu fór hann á fund hjá Ríkisendurskoðun þar sem hann afhenti embættinu gögnin. Embættið hafði gefið út tilkynningu eftir þáttinn að því væri ókunnugt um hinar nýju upplýsingar Vilhjálms,“ segir í ritgerð Heiðars Lind. Meðal gagnanna sem um ræðir voru m.a. ársreikningur Hauck & Aufhäuser fyrir árið 2003.

Heiðar Lind rifjar upp að til þess að kanna hvað hæft væri í fullyrðingum Vilhjálms hafi ríkisendurskoðun unnið samantekt sem síðar var send til fjárlaganefndar Alþingis vegna umfjöllunar þingsins um málið. Meðal þeirra gagna sem embættið aflaði var álit Stefáns Svavarssonar, löggilts endurskoðanda og dósents við Háskólann í Reykjavík, á því hvort unnt væri að fullyrða út frá ársreikningum Hauck & Aufhäuser að bankinn hafi ekki keypt hlutabréf í Eglu.

Stefán komst að þeirri niðurstöðu að fjárfesting þýska bankans hafi „rúmast vel“ innan efnahagsreikningsins í ársreikningnum. Að sama skapi hafi sala bankans á hlutabréfunum í Eglu rúmast vel innan tekjuliða ársreiknings bankans söluárið 2004. Þó tók Stefán fram að hið gagnstæða ætti raunar við því ekki væri með „beinum hætti“ nefnt að bankinn ætti í Eglu. Ekki var hins vegar skylda í reglum um reikningsskil banka að gera grein fyrir einstökum fjárfestingum í hlutabréfum og því hafði Hauck & Aufhäuser fulla heimild að mati Stefáns til haga frágangi ársreiknings síns með þeim hætti sem raun bar vitni.

Ríkisendurskoðun aflaði sér einnig staðfestingu bankans á að hafa átt hlutabréfin í Eglu og staðfestingu KPMG í Þýskalandi, endurskoðanda bankans, um að hlutabréfin umræddu hafi verið færð til bókar eins og þýsk lög sögðu til um. Niðurstaða Ríkisendurskoðunar var sú að ekkert gæfi tilefni til þess að gagnrýni Vilhjálms ætti við rök að styðjast. Þetta var í samræmi við niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins tveimur árum áður sem einnig hafði kannað aðkomu þýska bankans að S-hópnum. Þýski bankinn var því samkvæmt þessu eigandi bréfa sinna í Eglu.

Sjálfur sagði Peter Gatti í viðtali við Markaðinn, viðskiptablað Fréttablaðsins, í kjölfar ummæla Vilhjálms að hlutabréf bankans hefðu verið færð til bókar í veltubók bankans samkvæmt þýskum lagafyrirmælum um reikningsskil. Í viðtalinu ítrekaði hann einnig að bankinn hafi sjálfur átt bréfin sín í Eglu.