Hagsmunir settir í samhengi

Hagsmunir ríkisins voru tryggðir við sölu Búnaðarbankans.

Kjartan Bjarni Björgvinsson kynningarfundur rannsóknarskýrslu RNA vegna Búnaðarbanka. Arion banki innfelldur.
Samsett mynd.

Þegar rannsóknarskýrsla nefndar um sölu Búnaðarbankans var kynnt fyrir rúmu ári síðan var flest annað fyrirferðarmikið í umræðunni en staðreyndir málsins. Staðreyndir á borð við að aðkoma erlends fjármálafyrirtækis var engin grundvallarforsenda fyrir sölu ríkisins á hlut í bankanum, að þýski bankinn var raunverulegur og lögformlegur eigandi í Búnaðarbankanum eftir kaup sín í honum ásamt öðrum, að pólitísk íhlutun í ferlinu hafði áhrif á atburðarrásina, að staðið var við alla samninga við ríkið og hluturinn greiddur að fullu, að upplýst var um öll atriði sem spurt var um og að ríkið var hvorki betur né verr sett vegna aðkomu þýska bankans. Hagsmunir ríkisins voru tryggðir.

Velta má því fyrir sér hvort umfang þessara viðskipta hafi verið af þeirri stærðargráðu að kalli á vangaveltur og afbakanir á ferlinu sem staðið hafa meira eða minna í 15 ár? Í því samhengi er nærtækt að bera viðskiptin við nýafstaðin bankaviðskipti, til að leiða í ljós hversu miklir hagsmunir voru undir í samhengi nútímans.

Svipuð upphæð og sala á hlut ríkisins í Arion banka nú

Umsamið kaupverð Búnaðarbankans miðaði við meðalgengi hlutabréfa upp á 4,81. Kaupverðið, rúmlega 11,9 milljarðar króna, átti að greiðast í tvennu lagi, við undirritun sem stefnt var að fyrir 20. desember 2002 og það sem eftir stóð fyrir 20. desember árið eftir. Alls myndi hópurinn sem að kaupunum stóð eignast 45,8% hlutfjár í Búnaðarbankanum.

Á verðlagi dagsins í dag eru þetta um 24 milljarðar króna sem greiddir voru fyrir þennan tæplega helmingshlut í bankanum. Upphæðina fékk ríkið greidda að fullu. Þetta er nánast sama upphæð og 13% hlutur ríkisins í Arion, arftaka Kaupþings, var seldur fyrir fyrr á þessu ári, 23,4 milljarðar króna.

Hluturinn í Búnaðarbankanum var seldur á 174% af bókfærðu virði hans á sínum tíma. Búnaðarbankinn sameinaðist síðar Kaupþingi og úr varð stórt og öflugt, en líka verðmætt fyrirtæki. Í dag er verið að selja hlut í arftaka þess fyrirtækis fyrir mun lægra hlutfall af bókfærðu virði.

Söluferli Búnaðarbankans var opið. Upplýst hefur verið um alla þá skilmála sem ríkið setti og hvernig staðið var við þá. Hlutur ríkisins í Arion banka var seldur árið 2018 eftir að fjármálaráðherra hafði haft samráð við ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins og ríkisstjórn, og í framhaldinu fallist á tillögu Bankasýslu ríkisins um sölu á hlutunum til Kaupskila ehf. (dótturfélags Kaupþings ehf.).

Fyrra ferlið var gagnsætt, farið var að öllum skilmálum af hálfu seljenda, sem gekk að hæsta tilboði. Söluverðmætið í þessum bankasölum tveimur varpar ljósi á líkindin þótt aðferðirnar við söluna séu ólíkar. Hvort seinni salan kemur líka til með að geta af sér 15 ár af vangaveltum og endurskoðun verður tíminn að leiða í ljós.