Haldið til haga

Hagstæðasta boði var tekið við einkavæðingu Búnaðarbankans

Fréttablaðið fjallaði um einkavæðingu bankanna og aðra sölu ríkisfyrirtækja í fréttaskýringu í janúarlok 2003.
Fréttablaðið fjallaði um einkavæðingu bankanna og aðra sölu ríkisfyrirtækja í fréttaskýringu í janúarlok 2003.

Vegna umræðu um aðkomu Hauck & Aufhäuser að einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands í ársbyrjun 2003 skal haldið til haga að óumdeilt er að íslenska ríkið gekk til samninga við hæstbjóðendur í ferlinu og fékk kaupverðið að fullu greitt og raunar sem á endanum var hærra en upphaflegt kauptilboð hljóðaði upp á. Ríkið bar ekki skertan hlut frá borði, eins og einhver kynni að álykta af umræðum um málið.

Þá hefur því lítill gaumur verið gefinn í umfjöllun um aðkomu þýska bankans að hún réði ekki úrslitum um þá ákvörðun ríkisins að ganga til samninga við S-hópinn um sölu á hlutnum í Búnaðarbankanum, fljótlega eftir að seldur hafði verið kjölfestuhlutur í Landsbanka Íslands til Samson-hópsins. Í hvorugri sölunni var gerð krafa um aðkomu erlends fjárfestis, þótt vissulega hafi komið fram að slík aðkoma hafi þótt æskileg af hálfu ríkisins og þeir sem að S-hópnum komu hafi lagt á það áherslu að hafa erlenda fjármálastofnun í hópnum.

Mat breska fjárfestingarbankans HSBC, sem var íslenska ríkinu til ráðgjafar í einkavæðingarferlinu, var að tilboð S-hópsins væri hagstæðara en Kaldbaks, sem einnig var valinn til viðræðna um Búnaðarbankahlutinn, burtséð frá mögulegri aðkomu erlends fjárfestis.

Hvað sem líður fjármögnun á kaupum Hauck & Aufhäuser í Búnaðarbankanum þá hefur ekki verið sýnt fram á annað en að bankinn hafi staðið sína plikt sem hluthafi í Eglu, með þeim réttindum og skyldum sem sú staða hafði í för með sér, meðal annars samkvæmt hluthafasamkomulagi og með stjórnarsetu bæði í Eglu og Búnaðarbankanum/Kaupþingi-Búnaðarbanka.