Jón Þór og lærdómurinn sem má draga

Leikreglur þurfa að vera skýrar og koma þarf í veg fyrir bein pólitísk afskipti

Ólafur Ólafsson þingmenn stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingi Vilhjálmur Bjarnason Jón Þór Ólafson Birgitta Jónsdóttir fjölmiðlafólk
Á fundinum þar sem Ólafur Ólafsson svaraði spurningum þingmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Hér eru Vilhjálmur Bjarnason, Jón Þór Ólafson og Birgitta Jónsdóttir, og fjölmiðlafólk fyrir aftan. (Skjáskot/RÚV)

Nú þegar búið er að skila skýrslu um svokallaða rannsókn á sölu Búnaðarbankans í janúar 2003 hlýtur það að vera meginmarkmið stjórnmálamanna að átta sig á því hvaða lærdóm megi draga af slíku ferli. Um þetta var meðal annars fjallað á fundi Ólafs Ólafsson með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis um miðjan maí sl.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, var einn þeirra nefndarmanna sem lagði áherslu á hvaða lærdóm mætti draga af sölunni. Jón Þór spurði Ólaf meðal annars að því hvort hann myndi veita rannsóknarnefndum liðsinni ef til þess kæmi að frekari rannsóknir á einkavæðingarferli ríkisbankanna yrði gerð. Ólafur svaraði því að sjálfsögðu játandi og sagði „ég mun svo sannarlega leggja mig fram um að leggja öll gögn fram. Og […]tryggja að við leggjum allt okkar fram.“

Í framhaldi af því var rætt um það hvort fara ætti í slíka rannsókn. Þó svo að Ólafur og Jón Þór hafi ekki verið sammála um það tiltekna atriði þá fóru umræðurnar fram á málefnalegum og sanngjörnum nótum. Það var ekki annað að heyra á Jóni Þór en að hann vildi að dreginn yrði lærdómur af málinu í heild sinni.

Aðspurður um það hvort fara ætti í slíka rannsókn eða ekki svaraði Ólafur:

„… er ég að svara því innilega, […] þetta er ekki pólitískt svar, þetta er innilegt svar. Ég sit með kaleikinn, ég sit með alla öskupokana hengda á bakið. Það væri eðlilegt að ég myndi óska eftir því að allt væri rannsakað, til að koma pokum á aðra. En mitt innilega svar er, það er tilgangslaust […] Þið eigið að hugsa um framtíðina. Þið eigið að byggja upp betra land, þið eigið að byggja upp betri farveg til að tryggja að þetta gerist ekki aftur.“

Jón Þór skaut þá inn í að þá þyrfti frekari rannsóknir til að þær hefðu fordæmisgildi fyrir framtíðina. Undir það má taka að hluta, en fram kom í máli Ólafs fyrir nefndinni, sem og ávarpi hans hér á síðunni, að mikilvægast væri að búa þannig um hnútana að fyrir lægju skýrar reglur um sölu ríkiseigna, líkt og fjallað er um HÉR. Ólafur hefur áður gagnrýnt söluna á Landsbankanum, þar sem ákveðið var að ganga til viðræðna við þá aðila sem boðið höfðu lægsta verð í bankann. Það er Ólafi óviðkomandi hvort að farið verði í rannsókn á einkavæðingu annarra banka, en hann hefur í ræðu og riti hvatt til þess að horft verði fram á veginn, að búnar verði til skýrar leikreglur og að komið verði í veg fyrir bein pólitísk afskipti af sölu ríkiseigna í framtíðinni. Það er stærsti lærdómurinn sem má draga, ekki bara af sölu Búnaðarbankans heldur af einkavæðingarferlinu í heild sinni.