Kjarnaflétta um söguna

Af vef Kjarnans. Þórður Snær Júlíusson og Þórunn Elísabet Bogadóttir ræða við Kjartan Bjarna Björgvinsson
Af vef Kjarnans. Þórður Snær Júlíusson og Þórunn Elísabet Bogadóttir ræða við Kjartan Bjarna Björgvinsson.

Á vef Kjarnans birtist nýlega pistill eftir ritstjóra síðunnar. Pistillinn er skrifaður í kjölfar þess að Kjartan Bjarni Björgvinsson, sem einn stýrði rannsóknarnefnd um söluna á Búnaðarbankanum, var í einkaviðtali við báða starfsmenn Kjarnans. Þar er farið um víðan völl og hér verður ekki gerð tilraun til að svara pistlinum lið fyrir lið. Fyrirsögn pistilsins ber þess merki að vera upptalning staðreynda á því sem pistlahöfundur kallar fléttu og blekkingar, en er í raun gróf söguskýring á ferlinu og upprifjun á því sem áður hefur komið fram í máli þeirra sem vilja gera söluferlið tortryggilegt.

Ástæða er til að hnekkja á nokkrum atriðum sem fjallað er um í pistlinum.

Þar segir að í  tilkynningu framkvæmdanefndar um einkavæðingu um einkaviðræður við S-hópinn hafi komið skýrt fram að lykilforsenda fyrir þeim væri aðkoma erlendrar fjármálastofnunar. Ólafur Ólafsson, sem leiddi kaup S-hópsins, hefur með vísan til gagna hafnað þeirri túlkun. Engin krafa var gerð um aðkomu erlendra aðila við sölu Landsbankans nokkrum mánuðum áður og það hefur áður komið fram að fv. formaður einkavæðingarnefndar hefur einnig hafnað þeirri túlkun.

Hins vegar var það markmið kaupendahópsins, sem gjarnan er nefndur S-hópurinn, að fá erlenda aðila að borði við kaupin á Búnaðarbankanum. Franski bankinn hafði sýnt verkefninu áhuga en dró sig út í miðju ferli. Það voru tvær meginástæður fyrir því að Société Générale dró sig út úr ferlinu. Annars vegar hafði bankinn orðið undir í samkeppni við franska bankann Crédit Agricole um kaup á franska stórbankanum Crédit Lyonnais. Stjórnendur bankans mátu það þannig að það myndi skaða ímynd bankans að ganga á þessum tímapunkti frá kaupum á íslenskum smábanka með svipaða tengingu við landbúnað og Crédit Agricole. Hins vegar voru stjórnendur bankans efins um heilindi íslenskra stjórnvalda eftir að hafa fylgst með því hvernig salan á Landsbankanum fór fram nokkrum mánuðum áður, þegar bankinn var með handafli seldur til þeirra sem áttu lægsta boð í bankann.

Eftir að franski bankinn dró sig út úr ferlinu hófst leit að nýjum erlendum aðila. Sú leit var að frumkvæði S-hópsins en ekki byggð á kröfu frá einkavæðingarnefnd eða stjórnvöldum, enda var sú krafa ekki fyrir hendi. Eftir þá leit kom þýski bankinn  Hauck & Aufhäuser að verkefninu. Ráðgjafi íslenskra stjórnvalda í ferlinu, sem var sérfræðingur á vegum breska bankans HSBC, var upplýstur um mögulega aðkomu Hauck & Aufhäuser. Á fundi með einkavæðingarnefnd þann 9. janúar 2003 upplýsti ráðgjafinn að hann teldi þýska bankann góðan fjárfesti og „vel ásættanlegan fyrir íslensk stjórnvöld“ þrátt fyrir að „óveruleg tengsl“ væru á milli hans og annarra aðila í S-hópnum.“

Ólafur Ólafsson upplýsti á fundi sínum með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis um miðjan maí að honum hefði borist tölvupóstur frá fyrrverandi starfsmanni einkavæðingarnefndar, þar sem staðfest er að aðkoma erlendrar fjármálastofnunar hafi ekki verið ein af forsendum við val á samningsaðilum við sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Ritstjóri Kjarnans kýs að afgreiða þann tölvupóst þannig að sá sem hann sendi afpláni nú dóm fyrir efnahagsbrot. Það er ódýr afgreiðsla og heitir í daglegu tali að fara í manninn en ekki boltann.

Þau sem enn hafa áhuga á sölu Búnaðarbankans og vilja kynna sér söluferlið þurfa að meta út frá gögnum hvor túlkunin sé líklegri, Kjarnans eða S-hópsins. Hvort er líklegra, að samskipti þau sem hér er vísað í hafi á sínum tíma verið túlkuð þannig að aðkoma erlends banka hafi ekki verið grundvallarforsenda, eins og allir þeir sem að málinu komu á sínum tíma halda fram, eða að það hafi skipt meginmáli eins og þeir aðilar halda fram sem aldrei komu að málinu og kynntu sér það að auki fyrr en 15 árum síðar?

Nánar er farið yfir aðkomu Hauck & Aufhäuser að ferlinu HÉR.