Lilju Dögg svarað

Lilja Dögg Alfreðsdóttir byggir skoðanir sínar á rangfærslum í skýrslu RNA

Stundin viðtal Lilja Alfreðsdóttir þingmaður þingkona Framsóknarflokkurinn
Viðtal Stundarinnar við Lilju Dögg Alfreðsdóttur, þingkonu og varaformann Framsóknarflokksins.

Í viðtali við Stundina í dag fjallar Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þingmaður og varaformaður Framsóknarflokksins, m.a. lítillega um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um söluna á Búnaðarbankanum og fund Ólafs Ólafsson með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hvar Lilja á sæti í nefndinni.

Lilja er einn stjórnmálamanna sem nýtur mikils trausts í samfélaginu og orð hennar hafa eftir tilvikum meiri vigt en annarra. Það er því ástæða til að leiðrétta eftir því sem kostur er þegar farið er með rangt mál um skýrsluna, aðkomu Ólafs og fl.

Hér verður stiklað á nokkrum atriðum úr viðtalinu við Lilju Dögg:

Tengslin við Framsóknarflokkinn

Í inngangi þess kafla þar sem fjallað er um skýrsluna og fundinn kemur fram að Lilja hafi mætt Ólafi af festu og efast um málflutnings hans (á fundinum með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd). Það þætti merkilegt í ljósi þess að Ólafur hefði gjarnan verið tengdur flokki Lilju Daggar, Framsóknarflokknum.

Hið rétta er þó að Ólafur er ekki flokkspólitískur og hefur aldrei verið.

„Ég hef aldrei tekið þátt í starfi nokkurs stjórnmálaflokks eða verið meðlimur í nokkrum stjórnmálaflokki. Það er rétt, sem Valgerður Sverrisdóttir hefur nýlega sagt opinberlega, að ég hef aldrei verið framsóknarmaður,“ sagði Ólafur í ávarpi sínu sem birt var hér á þessum vef og til stóð að flytja þingnefndinni.

Hjartað eða sannleikurinn

„Þessi skýrsla var gríðarlega vel unnin af Kjartani og Finni. Þeir lögðu hjarta sitt í verkefnið. Mér fannst það vera mín skylda að halda hinu rétta til haga,“ sagði Lilja Dögg í viðtalinu.

Það hefur nú þegar verið bent á ýmsar rangfærslur í skýrslunni sem þessir tveir aðilar lögðu „hjarta sitt í“, m.a. viljandi rangfærslum um samskipti nefndarinnar við Ólaf, rangri túlkun gagna, vanvirðingu í garð þeirra sem voru til rannsóknar og útilokun gagna sem mögulega hefðu ekki stutt við fyrirfram ákveðna niðurstöðu þeirra sem skýrsluna skrifuðu. Hlutverk þingmanna er ekki að standa vörð um „kerfið“ (þ.m.t. rannsóknarnefndir) heldur að gæta hagsmuna alls almennings. Réttlát málsmeðferð er hluti af því og það verður seint sagt að þeir sem stýrðu fyrrnefndri rannsókn hafi viðhaft þannig að vinnubrögð.

Ósk um fund felur ekki í sér skipun

„Eins og þetta blasti við mér ætlaði Ólafur að beita blekkingum með því að kaffæra þingnefndina í pappírum. […] Hann gerði þetta rétt fyrir páskahelgina, á miðvikudegi, og vildi þannig taka sér hið svokallaða dagskrárvald. Það fauk í mig. Það var ekki sjálfsagt að hann fengi fund með nefndinni nema til að greina frá nýjum upplýsingum,“ sagði Lilja Dögg jafnframt.

Rétt að taka fram að Ólafur hafði ekkert um það að segja hvort og þá hvenær fundurinn með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd yrði haldinn. Þann 12. apríl sl. (miðvikudagur fyrir páska) sendi Ólafur tilkynningu á fjölmiðla um að hann hefði óskað eftir fundi með nefndinni. Þá voru aðeins liðnar um tvær vikur frá því að skýrslan kom út. Ólafur gerði sér aftur á móti grein fyrir því að ekkert lægi fyrir um það hvort og hvenær slíkur fundur yrði haldinn.

Reynslumikill einstaklingur, sem Lilja Dögg er, gerir sér grein fyrir því að í réttarríki þurfa þeir sem sæta rannsókn að eiga þess kost að geta tekið til varna. Það var stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins sem stofnaði til þessarar rannsóknar og það lá því beinast við að óska eftir fundi með nefndinni til að taka til varna og útskýra fyrir þing og þjóð. Rannsóknarnefndinni var ekki falið bæði rannsóknar- og dómsvald og hún beitti ósanngjörnum aðferðum í samskiptum sínum við þá sem til rannsóknar voru. Loks er rétt að minna á að á fundinum með nefndinni voru lögð fram ný gögn eins og fjallað er um hér.

Ólafur óskaði sjálfur eftir að gefa skýrslu

Þá er einnig haft eftir Lilju Dögg (í óbeinni ræðu) að Ólafur hafi ekki svarað rannsóknarnefndinni og dómstólar orðið að kalla hann til.

Þarna fer Lilja Dögg með rangt mál. Það er í sjálfu sér ekki við hana að sakast, enda kusu höfundar skýrslunnar að fara viljandi með rangt mál varðandi þetta atriði og misnota sér aðstöðu sína til að koma höggi á Ólaf Ólafsson í opinberri umræðu. Þeim virðist hafa tekist það ætlunarverk sitt, í bili.

Hið rétta er að það var Ólafur sem óskaði sjálfur eftir því að gefa skýrslu við Héraðsdóm. Að öðru leyti sinnti hann öllum boðum nefndarinnar. Nánar er fjallað um það hér.

Gæti réttar almennings, ekki kerfisins

Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að stjórnmálamenn hafi skoðanir á málum og einstaklingum. En þeir þurfa þó að gæta þess að fara með rétt mál, styðja fullyrðingar sínar með rökum og gögnum og falla ekki í þá gryfju að setja rannsóknaraðila, sem orðið hafa uppvísir af rangfærslum, á of háan stall á kostnað almennings. Það á ekki einungis við um þetta einstaka mál, heldur almennt.