Mótsögn um aðkomu Hauck & Aufhäuser

Hauck & Aufhäuser og Búnaðarbankinn könnuðu grundvöll að frekara samstarfi bankanna eftir að Búnaðarbankinn var einkavæddur.

Hauck & Aufhäuser einkabanki Fosun
Mynd af vef þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser, sem í fyrra komst í meirihlutaeigu kínverska fjárfestingarsjóðsins Fosun. Mynd/H&A

Nokkrum vikum eftir að hinn svokallaði S-hópur eignaðist 45,8% hlut í Búnaðarbankanum í byrjun árs 2003 tók Michael Sautter, sérfræðingur hjá franska bankanum Société Générale, sæti í bankaráði Búnaðarbankans sem fulltrúi S-hópsins. Eftir að Búnaðarbankinn og Kaupþing sameinuðust vorið 2003 tók Peter Gatti, framkvæmdastjóri og einn eigenda þýska bankans Hauck & Aufhäuser, sæti í bankaráði hins sameinaða banka. Hauck & Aufhäuser var sem kunnugt er einn eiganda Eglu sem var hluti af S-hópnum.

Gatti sat í bankaráði fram að aðalfundi bankans vorið 2005 og hafði í millitíðinni, eða árið 2004, tekið sæti í stjórn Eglu. Enn og aftur er ástæða til að minna á hversu mikilvægt hlutverk Hauck & Aufhäuser var sem einn eiganda Eglu og aðkomu þýska bankans að kaupunum í Búnaðarbankanum, líkt og gert hefur verið HÉR.

Það sem einnig er mikilvægt að hafa í huga er að Hauck & Aufhäuser og Búnaðarbankinn könnuðu samstarfsfleti skömmu eftir undirritun kaupsamningsins. Í ritgerð Heiðars Lind Hanssonar sagnfræðings, sem birt var fyrr á þessu ári, er meðal annars fjallað um þetta atriði. Þar kemur fram að Gatti átti samtöl við stjórnendur Búnaðarbankans meðan hann var hér á landi vegna undirritunar kaupsamnings á Búnaðarbankanum og var ákveðið að fulltrúar bankanna myndu hittast í framhaldinu til að kanna frekari samstarfsmöguleika.

Skömmu eftir að S-hópurinn keypti 45,8% hlut í Búnaðarbankanum fóru fulltrúar Búnaðarbankans í ferð til starfsstöðvar Hauck & Aufhäuser í München og hittu þar fyrir Gatti og fleiri starfsmenn þýska bankans. Fundurinn leiddi í ljós að möguleikar á samstarfi bankana voru einkum þríþættir: þjónusta við fyrirtæki, eignastýring og loks rannsóknir og greiningarvinna. Þá fundaði bankaráð Búnaðarbankans einnig með fulltrúum Hauck & Aufhäuser til að ræða frekara samstarf bankanna.

Í ritgerð Heiðars Lind kemur fram að ekkert hafi orðið af frekara samstarfi vegna samruna Búnaðarbankans og Kaupþings vorið 2003, en þá varð sú stefna ofan á að fylgja þeirri uppbyggingu sem Kaupþing hafði staðið fyrir í viðskiptum sínum erlendis árin á undan. Þetta staðfesti Sigurður Einarsson, fv. starfandi stjórnarformaður Kaupþings, við höfund ritgerðarinnar.

Töluvert hefur verið fjallað um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum í Búnaðarbankanum á sínum tíma og einstaka aðilar hafa haldið því fram að þau kaup hafi aðeins verið til málamynda. Þau rök hafa ítrekað verið hrakin.

Þá skýtur skökku við að bankaráð og aðrir starfsmenn Búnaðarbankans hafi varið tíma sínum, sem og tíma starfsmanna Hauck & Aufhäuser, í að kanna grundvöll fyrir frekari samstarfi bankanna ef kaup þýska bankans voru aðeins til málamynda.