Ný gögn og túlkun eldri gagna

Hluta gagna sem lögð voru fram á fundi með þingnefnd var ekki að finna í nýlegri skýrslu RNA um sölu Búnaðarbankans

Fundargerð framkvæmdanefndar um einkavæðingu (einkavæðingarnefndar) frá því 28. ágúst 2002
Fundargerð framkvæmdanefndar um einkavæðingu (einkavæðingarnefndar) frá því 28. ágúst 2002.

Skortur á nýjum gögnum var eitt af því sem einkenndi umræðuna eftir fund Ólafs Ólafssonar með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis um miðjan maí sl. Það mátti heyra á einstaka nefndarmönnum og ekki síður á sumum fjölmiðlamönnum og álitsgjöfum að á fundinum hefðu engin gögn verið lögð fram sem varpað hefðu nýju ljósi á atburðarrásina sem átti sér stað í aðdraganda sölu íslenska ríkisins á hlut sínum í Búnaðarbankanum í janúar 2003. Sumir gengu svo langt að segja að fundurinn hefði í sjálfu sér verið tilgangslaus í ljósi þessa.

Það var þó ekki niðurstaða fundarins. Hafa verður í huga að hluti þeirra gagna sem lögð voru fram á fundinum var ekki að finna í nýlegri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um sölu Búnaðarbankans. Þá ber sérstaklega að nefna tölvupóst frá fyrrum starfsmanni einkavæðingarnefndar þar sem staðfest er að aðkoma erlendrar fjármálastofnunar hafi ekki verið ein af lykilforsendum nefndarinnar. Það er mikilvægt atriði enda er því ítrekað haldið fram í skýrslu rannsóknarnefndar að svo hafi verið, þó sú kenning hafi nú þegar verið hrakin með gögnum. Nánar er fjallað um þetta mikilvæga atriði HÉR.

Það er ljóst að meginþorri þeirra gagna sem lögð hafa verið fram í málinu eru gömul í þeim skilningi, enda eru liðin 15 ár frá söluferlinu. Þá er þó mikilvægt að hafa það í huga hvernig gögn eru túlkuð. Dæmi um þetta er fundargerð einkavæðingarnefndar frá 28. ágúst 2002. Sem fyrr segir heldur rannsóknarnefnd Alþingis (sem skipuð er einum manni) því fram að aðkoma erlendra fjárfesta hafi verið lykilforsenda í söluferlinu. Fyrrnefnd fundargerð, ásamt fleiri gögnum, renna stoðum undir þá staðreynd að svo var ekki. Fulltrúi rannsóknarnefndarinnar kýs því að túlka 15 ára gögn með öðrum hætti án þess að rökstyðja það frekar. Þess vegna var mikilvægt fyrir Ólaf að funda með þingnefndinni, ekki bara til að leggja fram ný gögn heldur fara nánar yfir önnur gögn sem lögð hafa verið fram í málinu, útskýra eftir bestu getu tilefni þeirra, segja sína hlið málsins eftir því kostur var á og síðast en ekki síst til að svara í eigin persónu þeim spurningum sem brunnu á nefndarmönnum.

Það er eðlilegur og sjálfsagður hlutur í vestrænu réttarríki að fá tækifæri til að leggja fram gögn til að styðja við eða eftir tilvikum hrekja til baka túlkun þess aðila sem fer með rannsókn mála, í þessu tilviki eins manns rannsóknarnefndar. Rannsóknarnefndin var skipuð af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Ólafi Ólafssyni varð fljótt ljóst að hann myndi ekki njóta sannmælis og sanngirni í störfum rannsóknarnefndarinnar og það lá því beinast við að funda með þingnefndinni af fyrrnefndum ástæðum. Þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnmálamanna og einstakra álitsgjafa um tilgangsleysi fundarins telur Ólafur að það hafi einmitt verið fullt tilefni til að halda fundinn.

Þá er rétt að hafa í huga þegnar eiga rétt til góðrar stjórnsýslu samkvæmt 41. grein sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarmannréttindi. En þar segir:

Sérhver maður á rétt á að fjallað sé um mál hans af óhlutdrægni, sanngirni og innan hæfilegs tíma hjá stofnunum, aðilum, skrifstofum og sérstofnunum Sambandsins.

Í þessum rétti er meðal annars fólgið:

  1. að sérhver maður á rétt á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en gripið er til einhverrar þeirrar ráðstöfunar sem væri honum í óhag;
  2. að sérhver maður á rétt til aðgangs að skjölum sem hann varða, að teknu tilliti til réttmætra ástæðna er varða trúnað, þagnarskyldu og viðskiptaleynd;
  3. að stjórnsýslustofnanir verða að rökstyðja ákvarðanir sínar.

Það er mikilvægt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis efni þessar skyldur gagnvart þegnum landsins.