Ólafur óskaði sjálfur eftir því að gefa skýrslu

Neitaði aldrei að sinna boðum rannsóknarnefndar Alþingis

Skýrsla rannsóknarnefndar í forgrunni. Á skjá sést Ólafur Ólafsson á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Skýrsla rannsóknarnefndar í forgrunni. Á skjá sést Ólafur Ólafsson á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Ólafur Ólafsson óskaði sjálfur eftir því að gefa skýrslu fyrir dómi við rannsókn á sölu Búnaðarbankans. Það er því rangt sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að Ólafur hafi neitað því að sinna boðum nefndarinnar. Þvert á móti sinnti Ólafur öllum þeim boðum sem rannsóknarnefndin lagði fyrir hann.

Það er rétt að ítreka þetta þar sem um þetta hefur verið töluvert fjallað. Þá hefur formaður rannsóknarnefndarinnar ítrekað haldið því fram á opinberum vettvangi að Ólafur hafi neitað að sinna vara nefndinni. Formaður nefndarinnar fer þar viljandi með rangt mál. Það er lágmarkskrafa að þeir aðilar sem fara með opinbert vald, eins og formaður nefndarinnar gerir í þessu tilviki, fari með rétt mál og noti ekki stöðu sína til að koma höggi á þá sem rannsókn sæta.

Eins og fram kom í ávarpi Ólafs Ólafssonar á þessum vef sinnti hann öllum boðum nefndarinnar og hafði í nokkur skipti frumkvæði að samskiptum við hana. Aftur á móti treysti Ólafur því ekki að hann fengi réttláta málsmeðferð hjá nefndinni. Yfirlýsingar formanns nefndarinnar eftir að skýrslan kom út renna stoðum undir þá skoðun Ólafs. Þá er vert að minnast þess að Ólafur rekur nú mál fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu þar sem fjallað er um réttláta málsmeðferð íslenska réttarkerfisins. Það er því full ástæða fyrir Ólaf til að hafa varann á og reyna eftir fremsta megni að tryggja það að hann hljóti réttláta málsferð við rannsókn mála.

Þann 21. nóvember sl. sendi Ólafur tölvupóst til Kjartans Bjarna Björgvinssonar, formanns nefndarinnar, þar sem m.a. kom fram að hann óskaði eftir því að verða boðaður fyrir héraðsdóm til að gefa skýrslu.

Í ávarpi sínu hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ítrekaði Ólafur að hann hefði engin gögn fengið um málið og því ekki haft tækifæri til að undirbúa sig fyrir skýrslutökuna.

„Ég held ég sé ekkert öðruvísi en þið. Ég bara get ekki treyst mér til þess að muna fyrir framan dómara allt sem gerðist í smáatriðum, án undirbúnings, fyrir 15 árum síðan,“ sagði Ólafur í ávarpi sínu.

„Við óskuðum eftir aðgang að gögnum, við óskuðum eftir að fá að vita hvað ætti að spyrja okkur um, við óskuðum eftir að fá að koma efnislegum svörum til nefndarinnar. Við fengum engin gögn.“

Ólafur minnti á að lögmaður hans hefði sent rannsóknarnefndinni bréf og tölvupósta þar sem óskað var eftir gögnum málsins. Þeim erindum var aldrei svarað. Það er mörgum umhugað um réttarkerfið og stöðu þess þessa dagana. Einn af grundvallarþáttum réttarkerfisins er að þeir sem sæta rannsókn hafi aðgang að gögnum málsins, þannig að þeir hafi tækifæri á að skýra mál sitt eða taka, eftir atvikum, til varna.

Að lokum fékk Ólafur bréf frá rannsóknarnefndinni þar sem honum voru fengnir þrír dagar til að svara frekari spurningum nefndarinnar. Þrátt fyrir skamman tíma, og neitun um frest, svaraði hann nefndinni og þau svör eru að finna í skýrslu nefndarinnar.

Þessi afgreiðsla fer gegn öllum grundvallar mannréttindum til réttlátrar málsmeðferðar.