Ólafur: Skýra þarf reglur um sölu ríkiseigna

Stjórnarráðshúsið Lækjargata Reykjavík Ísland Iceland
Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu í Reykjavík. (Mynd/Google Maps)

Í ávarpi sínu hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis lagði Ólafur Ólafsson áherslu á það hversu mikilvægt það er að skýra reglur um sölu ríkiseigna. Árum saman hafa verið deilur uppi um sölu ríkiseigna og nefndi Ólafur í ávarpi sínu nokkur eldri dæmi um sölu ríkiseigna, t.d. söluna á hlut ríkisins í Þormóði Ramma, SR Mjöl, Íslenskum aðalverktökum, einkavæðingu Landsbankans, Búnaðarbankans og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Þá nefndi Ólafur nýrri dæmi, t.d. söluna á Borgun, sölu Seðlabankans á skuldabréfum í Kaupþingi, söluna á bönkunum eftir hrun og nú síðast söluna á Vífilstaðalandi sem tekist var á um á Alþingi í vor.

Ólafur ítrekaði að við kaup ríkisins á eignum og þjónustu væru skýrar reglur, sem til eru komnar vegna reglna Evrópusambandsins og vísaði þar í lög um opinber innkaup. Með þeim væri komið í veg fyrir pólitíska hagsmunagæslu, geðþóttaákvarðanir og spillingu.

Ólafur sagði að kaupendum og viðskiptaumhverfinu væri gert ókleift að vinna í umhverfi þar sem skortur er á reglum um sölu ríkiseigna.

„Ég vil ekki vera sá, sem situr aftur í þessum stól, eftir áratug til að svara fyrir einhverja sölu,“ sagði Ólafur.

„Það er miklu einfaldara að það liggi allar upplýsingar fyrir, þær séu öllum aðgengilegar, allir eigi sama rétt, allir sitji við sama borð, skilyrðin […] séu þá öllum ljós og upp á borðum og að almenningur hafi aðgang að öllum upplýsingum, söluferlinu, samningum og efndum. Þannig er girt fyrir þessa tortryggni sem að stjórnmálamenn sitja undir og kaupendur.“

Tilefni fundarins með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis var að fjalla með ítarlegum hætti um söluna á Búnaðarbankanum. Ólafur ítrekaði í ávarpinu sínu það sem áður hefur komið fram, að íslenska ríkið hefði fengið hæsta mögulega verð fyrir hlut sinn í bankanum, að staðið hafi verið við alla samninga og ríkið hafi verið upplýst um öll þau atriði sem óskað var eftir.

„Ríkið var hvorki blekkt né verr sett eftir aðkomu Hauck & Aufhauser,“ sagði Ólafur í ávarpi sínu. Í ávarpi sínu hér vef Söluferlis.is hafði Ólafur áður farið yfir sölu ríkisins á hlut sínum í Landsbankanum, þar sem ákveðið var að taka tilboði þess aðila sem bauð lægst í bankann. Sú ákvörðun var tekin af geðþótta stjórnmálamanna og leiddi m.a. til þess að Steingrímur Ari Arason sagði sig úr framkvæmdanefnd um einkavæðingu.