Óvönduð málsmeðferð harðlega gagnrýnd

Lög um rannsóknarnefndir skýra vel réttarstöðu þeirra sem sæta rannsókn. Í tilfelli Ólafs Ólafssonar voru þau lög virt að vettugi

Kjartan Bjarni Björgvinsson kynningarfundur RNA Iðnó Reykjavík
Kjartan Bjarni Björgvinsson á blaðamannafundi rannsóknarnefndar Alþingis í Iðnó í Reykjavík.

Rannsóknarnefnd um aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum á tæplega 46% hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands, braut ítrekað á rétti Ólafs Ólafssonar við störf sín. Þá virti hún að vettugi hefðbundin stjórnsýslulög og jafnframt sérstök lög sem sett voru um rannsóknarnefndir árið 2011. Erindum Ólafs og lögmanns hans var ekki svarað og eftir að nefndin hafði lokið störfum sagði formaður nefndarinnar ósatt um samskipti Ólafs við nefndina. Þrátt fyrir fyrirliggjandi gögn hefur formaður nefndarinnar, héraðsdómarinn Kjartan Bjarni Björgvinsson, ekki séð ástæðu til að leiðrétta rangfærslur sínar, sem nánar er fjallað um HÉR og HÉR.

Það er réttur allra manna að njóta réttlátrar málsmeðferðar í samskiptum við hið opinbera. Þess réttar naut Ólafur hins vegar ekki í störfum nefndarinnar. Það lá leynt og ljóst fyrir að nefndin hefði fyrir fram gefnar skoðanir á málinu og hún var í takt við niðurstöðuna.

Minni réttindi en fyrir dómstólum

Gísli Guðni Hall, hrl. skrifaði grein um störf nefndarinnar sem birtist í Morgunblaðinu þann 16. maí sl. Þar bendir Gísli Guðni á að samkvæmt stjórnsýslulögum sem sett voru árið 1993 sé að finna almennar reglur um rannsókn og málsmeðferð í stjórnsýslunni, svo sem reglur um rétt málsaðila til aðgangs að gögnum máls, andmælarétt og rannsóknarregluna. Það skal tekið fram að Gísli Guðni var lögmaður Ólafs í málinu.

„Allt eru þetta grundvallarreglur er snerta réttaröryggi borgaranna og þær hafa innbyrðis tengsl. Aðgangur að gögnum er forsenda fyrir andmælarétti, og mál getur ekki talist nægilega upplýst samkvæmt rannsóknarreglu án þess að sjónarmið málsaðila liggi skýr fyrir,“ segir Gísli Guðni í greininni.

Þá segir Gísli Guðni að meginmarkmið stjórnsýslulaganna hefði verið að koma „á festu í stjórnsýsluframkvæmd og treysta réttaröryggi þeirra, sem þurfa að reiða sig á stjórnvöld. Ennfremur að veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald með skýrum málsmeðferðarreglum. Vönduð stjórnsýsla er til þess fallin að leiða til upplýstra og vel ígrundaðra ákvarðana.“

Gísli Guðni segir einnig að ákveðin fylgni sé milli geðþóttaákvarðana og skeytingarleysis um vandaða málsmeðferð. Augljós brot gegn málsmeðferðarreglum séu vísbending um ómálefnalega stjórnsýslu.

Hér á þessum vef hefur áður verið vakið máls á því að rannsóknarnefndin sinnti í raun hlutverki rannsakenda, ákæruvalds og dómstóls, þó ekki sé um efnislega ákæru eða dóm að ræða. Nefndin hafði því tækifæri, og nýtti það tækifæri, til að sverta mannorð þeirra einstaklinga sem hún tók til rannsóknar án þess að gefa þeim færi á að halda uppi vörnum. Þegar mál einstaklinga fara fyrir dómstóla og þeir sakaðir um refsiverða háttsemi eiga þeir einstaklingar rétt á réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óhlutdrægum dómstóli. Þeir sem teknir voru fyrir í skýrslu rannsóknarnefndar nutu engra slíkra réttinda.

Pólitískur skrípaleikur

Gísli Guðni rifjar einnig upp að árið 2011 voru sett lög um rannsóknarnefndir sem fela í sér heimild Alþingis til að setja á fót rannsóknarnefnd til að rannsaka tiltekin mál. Í tíundu grein laganna er fjallað sérstaklega um réttarstöðu einstaklinga fyrir nefndinni. Þar kemur skýrt fram að sá sem tekinn er til rannsóknar eigi rétt á aðstoðarmanni og að hann skuli jafnframt eiga aðgang að gögnum málsins. Þá kemur einnig skýrt fram að þeim aðila skuli gert kleift að tjá sig um þá málavexti og lagatúlkun sem rannsóknarnefnd íhugar að fjalla um í skýrslu sinni.

Héraðsdómarinn Kjartan Bjarni þekkir þessi lög en kaus að fara ekki eftir þeim.

„Í tilvikinu sem hér er til umfjöllunar var réttaröryggi Ólafs ekki tryggt með nokkrum hætti, þrátt fyrir að hagsmunir hans af því hvernig um hann yrði skrifað hafi verið augljósir. Svona málsmeðferð verður ekki lýst öðruvísi en sem pólitískum skrípaleik, sem skrifa verður bæði á ófullkomna lagasetningu og afstöðu þess sem fór með rannsóknarvaldið í umrætt sinn,“ segir Gísli Guðni í lok greinar sinnar.

Gísli Guðni lagði ítrekað fram ítrekuð erindi f.h. Ólafs Ólafssonar til rannsóknarnefndar Alþingis meðan skýrslugerðin stóð yfir. Þeim erindum var í flestum tilvikum ekki svarað. Það verður í besta falli að kallast dónaskapur, en lýsir þó viðhorfi nefndarmanna til þeirra sem til rannsóknar eru.

Það var, og er enn, full ástæða fyrir Ólaf Ólafsson til að draga það í efa að hann hlyti sanngjarna málsmeðferð hjá nefndinni. Einnig sætir furðu að einstaka þingmenn, svo sem Birgitta Jónsdóttir, hafi þegar lýst því yfir að nefndin njóti fulls trausts og nánast gefið í skyn að hún sé yfir gagnrýni hafin.