Almenningur snuðaður við óvandaða sölu Landsbankans

Búnaðarbankinn og Landssími Íslands eru ágætis dæmi um ríkisfyrirtæki sem seld voru hæstbjóðendum.

Landsbankinn Landsbanki Íslands S-hópur S-hópurinn Vátryggingafélag Íslands Landsbanki Landsbankinn VÍS SÍS Sambandið frétt Morgunblaðið Agnes Bragadóttir RNA www.soluferli.is einkavæðing Búnaðarbanki Íslands Ólafur Ólafsson Rannsóknarnefnd Alþingis Alþingi
Höfuðstöðvar Landsbankans í Austurstræti í Reykjavík. Samson hópurinn, Magnús Þorsteinsson, Björgólfur Thor Björgólfsson Björgólfur Guðmundsson, urðu fyrir valinu þegar bankinn var einkavæddur. (Mynd/Google Maps)

Á níunda og tíunda áratug síðustu aldar átti sér stað umfangsmikil einkavæðing ríkisfyrirtækja á Vesturlöndum – og í raun um heim allan. Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um einkavæðingu á Íslandi á árunum 1992 – 2003, sem unnin var fyrir forsætisráðuneytið, er rifjað upp að um 100 lönd hafi einkavætt opinber fyrirtæki og að tekjur af þeirri einkavæðingu hafi náð hámarki á árunum 1997 – 1999 þegar þær námu yfir 140 milljörðum Bandaríkjadala. Uppsafnaðar tekjur fram að því námu um 1.200 milljörðum Bandaríkjadala frá árinu 1990.

Eins og áður hefur komið fram hér á þessum vef eru markmið hins opinbera með einkavæðingu margþætt. Þau felast meðal annars í því að afla hinu opinbera tekna, auka rekstrarhagkvæmni fyrirtækja, minnka afskipti hins opinbera af atvinnulífinu, draga hið opinbera út úr samkeppnisrekstri við einkaaðila og fleira.

Mörg þeirra ríkisfyrirtækja sem áður voru starfrækt voru ýmis konar iðnaðarfyrirtæki, fjármálafyrirtæki og fjarskiptafyrirtæki. Það átti við hér á landi en ekki síður víða erlendis, þar sem flest þessara fyrirtækja voru stofnuð á þeim tíma sem markaðsbrestur ríkti í umræddum geirum og einkaaðilar höfðu ekki enn bolmagn til að starfrækja slík fyrirtæki.

Uppsetning fjarskiptakerfa er ágætt dæmi um slíka þróun og hið sama mætti segja um margs konar iðnaðarfyrirtæki, svo sem verksmiðjur, samgöngufyrirtæki og ýmis konar framleiðslufyrirtæki. Önnur fyrirtæki voru ýmist sett á fót af hinu opinbera eða tekin yfir með einum eða öðrum hætti, til að mynda fjármálafyrirtæki – jafnvel þau svo að þau væru í samkeppni við vel burðug einkafyrirtæki.

Án þess að orðlengja það frekar þá er niðurstaðan sú að á fyrrnefndu tímabili undir lok síðustu aldar og í byrjunar þessarar aldar ríkti víðast hvar þverpólitísk samstaða um að flest allur almennur rekstur væri betur kominn í höndum einkaaðila en hins opinbera. Það átti sérstaklega við um greinar þar sem einkaaðilar höfðu haslað sér völl og voru komnir í samkeppni við ríkisrekin fyrirtæki.

Hér á Íslandi voru mörg slík fyrirtæki seld einkaaðilum á tíunda áratugnum. Má þar nefna Áburðarverksmiðjuna, Jarðboranir, SR-Mjöl, Þörungaverksmiðjuna, Prentsmiðjuna Gutenberg og fleiri. Síðar kom að fyrirtækjum á borð við Íslenska aðalverktaka, Steinullarverksmiðjuna, Þormóð Ramma og loks að bönkunum og Landssíma Íslands.

Það er út af fyrir sig jákvætt þegar stjórnmálamenn aðhyllast þá kenningu að rekstur fyrirtækja sé betur kominn í höndum einkaaðila en hins opinbera. Á meðan þau eru í eigu hins opinbera skapa þau ójafnan grundvöll með tilliti til samkeppnisaðstæðna auk þess sem þau verða alltaf háð duttlungum stjórnvalda hverju sinni. Þess utan geta þau skapað stórhættu fyrir ríkissjóð, og þar með skattgreiðendur, ef rekstur þeirra gengur illa.

Það er hins vegar á ábyrgð stjórnmálamanna hverju sinni að hámarka söluverð ríkisfyrirtækja þegar þau eru einkavædd. Hægt er að leggja fyrirtæki niður og leggja starfsemi þeirra af, sem sjaldan er gert. Þá er hægt að dreifa hlutabréfum félagsins jafnt á alla landsmenn, sem gert hefur verið í undantekningartilvikum erlendis.

Í flestum tilvikum hér á landi hafa fyrirtækin verið auglýst til sölu og seld, þó með mismunandi aðferðum. Hvað stærri fyrirtækin varðar þá eru aðeins tvö tilvik þar sem hægt er að sýna fram á að þau hafi verið seld hæstbjóðenda. Það er annars vegar í tilviki Landssímans sem seldur var árið 2005 og hins vegar þegar S-hópurinn svonefndi keypti 45,8% hlut í Búnaðarbankanum í byrjun árs 2003.

Önnur félög hafa verið keypt eftir krókaleiðum, til að mynda Fjárfestingarbanki atvinnulífsins (FBA) árið 1998 eða eftir pólitískum boðum eins og gerðist þegar Landsbanki Íslands var seldur til Samson eignarhaldsfélags í lok árs 2002. Samson átti lægsta tilboðið í bankann og því ljóst að ríkissjóður, það er  skattgreiðendur, urðu af umtalsverðum fjármunum.