Pólitík og salan á Landsbankanum

Íslensk stjórnvöld reyndu ekki að hámarka virði eignar sinnar í Landsbankanum. Þess í stað var bankinn seldur lægstbjóðanda.

Samson hópurinn, Magnús Þorsteinsson, Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson
Samson hópurinn, Magnús Þorsteinsson, Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson.

Á gamlársdag 2002 var undirritaður samningur um sölu á 45,8% hlut íslenska ríkisins í Landsbanka Íslands til eignarhaldsfélagsins Samson ehf. Að baki Samson voru feðgarnir Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson ásamt Magnúsi Þorsteinssyni. Þessi hópur hafði hagnast nokkuð af sölu rússnesku Bravo bjórverksmiðjunnar til Heineken árið áður.

Salan átti sér ekki langan aðdraganda. Ríkið hafði selt hluta af bankanum á innlendum markaði í gegnum viðskiptakerfi Kauphallar Íslands. Um miðjan júní voru auglýst til sölu 20% hlutafjár í Landsbankanum á genginu 3,5 (það gengi átti að halda í þrjá daga). Gert hafði verið ráð fyrir því að útboðið myndi standa í mánuð en bréfin seldust upp á stundarfjórðungi og var söluandvirði hlutarins um 4,7 milljarðar króna. Áður hafði ríkið selt um 15% hlutafjár í bankanum fyrir um 3,2 milljarða í lok árs 1999. Þá fór fram það sem kallað er í daglegu tali kennitölusöfnun, en tilboð frá 28 þúsund aðilum bárust í hlutabréf bankans. Meðalgengi samþykktra tilboða var þá 4,34.

Eftir söluna til Samson ehf. var eignarhlutur ríkissjóðs í bankanum um 2,5%, en sá hlutur var seldur í almennu útboði í lok febrúar 2003. Gengi bréfa var fyrirfram ákveðið 3,73. Eðli málsins samkvæmt var mikil ásókn í bréfin sem seldust upp á nokkrum mínútum. Þar með lauk einkavæðingu Landsbanka Íslands.

Sem fyrr segir hafði salan á stórum hlut í bankanum ekki átt sér langan aðdraganda. Sumarið 2002 birtist auglýsing þar sem hlutir ríkisins í Landsbankanum og Búnaðarbankanum voru auglýstir til sölu. Þrír hópar gerðu tilboð í bankann, fyrrnefndur Samson hópur, S-hópurinn svokallaði og loks Kaldbakur, sem tengdist Kaupfélagi Eyfirðinga á Akureyri. Stjórnarformaður Kaldbaks var jafnframt fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins.

Samson átti lægsta boðið

Það er hins vegar vert að hafa í huga að af þessum þremur hópum átti Kaldbakur hæsta tilboðið í bankann. S-hópurinn átti næst hæsta tilboðið en Samson lægsta tilboðið. Hluti Landsbankans var á þessum tíma skráður í Kauphöll Íslands og gengi bréfa þar gaf því ágætis mynd af verðmæti bankans. Spurningar hafa vaknað um hvort klíkuskapur og vinatengsl hafi ráðið því hverjir fengu að kaupa bankann.

Í skýrslutöku fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis um fall bankanna greindi Björgólfur Guðmundsson frá því að áhugi Samson hópsins hefði kviknað þegar þremenningarnir hefðu hitt starfsmann breska bankans HSBC í kokteilboði í London. Þar hafi hann í óformlegum samræðum upplýst þá um að til stæði að selja Landsbankann. Hópurinn setti sig í framhaldinu í samband við Ólaf Davíðsson, þáverandi formann einkavæðingarnefndar, og eins og fram kemur í rannsóknarskýrslunni voru þeir í stöðugu sambandi við Ólaf áður en þeir sendu framkvæmdanefnd um einkavæðingu formlegt erindi. Þá átti hópurinn einnig fund með Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra, til að lýsa yfir áhuga sínum á bankanum.

Í september sama ár var Samson hópurinn valinn til einkaviðræðna um kaupin og eftirmálar þess þekktir.

Sem fyrr segir átti Samson hópurinn lægsta tilboðið í bankann, en því til viðbótar fékk hann 700 milljóna króna afslátt af umsömdu verði eftir að búið var að skrifa undir samninga. Ekkert bendir til þess að íslensk stjórnvöld þess tíma hafi haft áhuga á því að hámarka það verð sem hægt var að fá fyrir bankann. Þess í stað hafi verið tekin pólitísk ákvörðun um það hverjir fengju að kaupa bankann. Álitamál hlýtur að vera hvort að þessi vinnubrögð standist skoðun, þegar hagur annarra hluthafa, sem keypt höfðu hlut í bankanum á fyrri stigum, er hafður í huga.

Þann 10. september 2002 sagði Steingrímur Ari Arason sig úr framkvæmdanefnd um einkavæðingu þar sem honum ofbauð vinnubrögð stjórnmálamanna. Aldrei hefur farið fram alvöru rannsókn á þessu ferli.

„Með handstýrðri sölu Landsbankans gaf ríkið tóninn fyrir viðskiptaumhverfi næstu ára sem litaðist af örvæntingafullum tilraunum stjórnvalda til að viðhalda pólitískum ítökum í atvinnulífinu, þrátt fyrir fögur fyrirheit um aukið frjálsræði í viðskiptum,“ sagði Ólafur Ólafsson í ávarpi sínu um miðjan maí síðastliðinn, þar sem meðal annars er fjallað um söluna á Landsbankanum til handvalinna aðila.

Þess ber að geta að þegar ríkið seldi 45,8% hlut sinn í Búnaðarbankanum í janúar 2003 var bankinn seldur hæstbjóðanda, S-hópnum. Sá hópur hafði jafnframt verið metinn hæfastur til að fara með hlut í bankanum.