Reynsla fyrri ára mun nýtast

Einkavæðing fer ekki fram nema pólitískur vilji sé þar að baki. Það er margt hægt að læra af einkavæðingu fyrri ára.

Ráðuneyti Davíðs Oddssonar: 30. apríl 1991 - 23. apríl 1995.
Ráðuneyti Davíðs Oddssonar: 30. apríl 1991 - 23. apríl 1995. Mynd: stjr.is

Þegar samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks (svokölluð Viðeyjarstjórn) tók við völdum vorið 1991 voru lögð skref að því einkavæðingarferli sem stóð allt til ársins 2007. Eins og áður hefur komið fram var Ísland nokkuð á eftir öðrum ríkjum er kom að einkavæðingu og í raun má segja að málið hafi verið sett í nokkurn forgang þegar Viðeyjarstjórnin tók við völdum.

Í stefnu og starfsáætlun Viðeyjarstjórnarinnar er fjallað um einkavæðingu í kaflanum Ráðdeild í ríkisrekstri og þar segir um tilgang og tilhögun einkavæðingar:

,,Ríkisstjórnin mun selja ríkisfyrirtæki og fela einkaaðilum verkefni og þjónustu að undangengnum útboðum auk þess sem hagrætt verður í rekstri hins opinbera. Sérstakt kapp verður lagt á að selja þau ríkisfyrirtæki sem notið hafa óeðlilegrar samkeppnisstöðu í samanburði við annað atvinnulíf í landinu.“

Og við þetta er síðan bætt:

,,Sölunni verður þannig hagað að ekki komi til röskunar á íslenskum fjármagnsmarkaði […] Þá hefur ríkisstjórnin einsett sér að breyta ýmsum opinberum stofnunum og fyrirtækjum í hlutafélög er verði, a.m.k. fyrst um sinn, í eigu ríkisvaldsins, en hlutabréf í þeim verði síðan seld.“

Þá er einnig tekið fram í stefnu- og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar að þess verði gætt að einkafyrirtækjum verði ekki afhent einokunarstaða á markaði en í lok kaflans segir:

,,Markmið þessara ráðstafana er að breyta hagkerfi okkar í nútímahorf og losa það úr viðjum pólitískrar ofstjórnar. Þær miða einkum að því að farið sé vel með það fé sem þjóðin leggur í sameiginlegan sjóð. Þannig veitist stjórnvöldum raunverulegt svigrúm til að sinna af kostgæfni þeim félagslegu markmiðum sem þau setja sér.“

Á árunum 1995 – 2007 mynduðu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur samsteypustjórn og það var á þeim tíma sem stærstu þættir einkavæðingarinnar fóru fram, svo sem salan á Landsbankanum, Búnaðarbankanum, FBA og Landssímanum.

Sala hlutabréfa í ríkisfyrirtækjum (einkavæðing) er pólitísk ákvörðun. Stjórnvöld hverju sinni taka ákvörðun um það hvort að ríkið ætli sér að stunda atvinnurekstur á ákveðnum sviðum eða ekki. Til að taka eitthvað úr eigu ríkisins og selja einkaaðilum þarf að liggja fyrir ákvörðun þeirra stjórnmálamanna sem fara með völdin hverju sinni og þar þarf að liggja markviss stefna að baki.

Einkavæðingarferli getur hins vegar verið flókið á köflum og það eru mun fleiri þættir sem hafa áhrif á ferlið heldur en það verð sem mögulega fæst fyrir þau hlutabréf sem eru í eigu hins opinbera. Pólitísk umræða og önnur mál verða oft til þess að hægja á ferlinu en þess utan geta pólitísk inngrip haft töluverð áhrif, líkt og gerðist í tilviki Landsbankans sem ekki var seldur hæstbjóðenda eins og áður hefur verið rifjað upp og þegar stjórnmálamenn reyndu að hafa áhrif á það hverjir keyptu hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

Stjórnmálaviðhorfið hverju sinni getur því haft áhrif á ferlið á öllum stigum. Nú hefur komið í ljós að stjórnmálaviðhorfið getur einnig haft áhrif mörgum árum eftir að einkavæðingu er lokið, sbr. rannsókn á einkavæðingu Búnaðarbankans. Þrátt fyrir að sú einkavæðing væri aðeins brot af einkavæðingarferlinu í heild sinni var tekin ákvörðun um að rannsaka hana sérstaklega og fyrr á þessu ári var birt skýrsla þar sem niðurstöður rannsóknarnefndarinnar, sem skipuð var einum manni, var kynnt.

Niðurstöður skýrslunnar hafa ítrekað verið hraktar hér á þessari síðu. Burtséð frá því þá er ástæða til að vera vel vakandi fyrir því hvernig einkavæðingu næstu ára verður háttað. Nú eru tveir stórir bankar í eigu ríkisins (Landsbankinn og Íslandsbanki) auk þess sem ríkið á stóran hlut í Arion banka. Það er stjórnmálamanna að ákveða hvort og þá hvernig þessar eignir verða seldar. Reynslan af einkavæðingarferlinu sem átti sér stað á árunum 1991-2007 ætti að nýtast vel. Verklagið í því ferli varð þó ekki almennilegt fyrir en árið 2005 þegar salan á Landssímanum fór fram, enda var það ferli opið og gegnsætt. Þar hefði verið erfitt fyrir stjórnmálamenn að grípa inn í ferlið með óeðlilegum hætti.