Ríkið upplýst um Hauck & Aufhäuser daginn fyrir kaupin

Ríkið gerða enga áreiðanleikakönnun á Hauck & Aufhäuser enda var ekki gerð krafa um þátttöku erlendra aðila við sölu Búnaðarbankans árið 2003.

Fréttablaðið fjallaði um einkavæðingu bankanna og aðra sölu ríkisfyrirtækja í fréttaskýringu í janúarlok 2003.
Fréttablaðið fjallaði um einkavæðingu bankanna og aðra sölu ríkisfyrirtækja í fréttaskýringu í janúarlok 2003.

Einn helsti þráður rannsóknarnefndar Alþingis um sölu ríkisins á 45,8% hlut í Búnaðarbankanum árið 2003 er sá að fjárfestahópur undir forystu Ólafs Ólafssonar hafi með einhverjum hætti blekkt ríkið í söluferlinu. Þessu hefur Ólafur Ólafsson ítrekað hafnað og stutt mál sitt með fyrirliggjandi gögnum. Þannig hefur meðal annars verið fjallað um málið hér, hér, hér og hér.

Það er þó ástæða til að benda á fleiri atriði sem renna stoðum undir rökstuðning Ólafs í málinu. Þannig má halda því til haga að það var ekki fyrr en degi fyrir undirritun kaupsamninga, þann 16. janúar 2003, sem ríkið – seljandinn – var upplýst um hver erlendi aðilinn sem kæmi að kaupunum væri. Það var sem kunnugt er þýski bankinn Hauck & Aufhäuser.

Fyrir því eru nokkrar ástæður sem vert er að halda til haga. Helsta ástæðan er auðvitað sú, eins og áður hefur verið bent á, að það var ekki krafa af hálfu ríkisins að erlendur aðili kæmi að kaupunum. Söluferlið sjálft og viðræður milli fjárfesta og einkavæðingarnefndar höfðu átt sér stað og haldið áfram þó ekkert lægi fyrir um það hvort og þá hvaða erlenda fjármálastofnun kæmi að kaupunum – enda var sem fyrr segir engin krafa um slíkt. Ríkið hafði þegar verið upplýst um það að franski bankinn Société Générale hefði áður dregið sig út úr fjárfestahópnum en væri honum þó áfram til ráðgjafar.

Það fór því aldrei fram áreiðanleikakönnun né aðrar kannanir af hálfu íslenska ríkisins á Hauck & Aufhäuser. Það liggur í augum uppi, að hafi þátttaka þessa banka verið grundvallaratriði og forsenda fyrir sölunni, þá hefði farið fram áreiðanleikakönnun á honum. Jafnframt hlyti þá að hafa legið fyrir einhver efnislegur rökstuðningur fyrir því af hverju þessi tiltekni banki skipti máli, en svo var ekki.

Það var ekki um neitt slíkt að ræða, einfaldlega vegna þess að þetta var ekki grundvallaratriði af hálfu seljandans. Þetta skipti seljandann ekki máli.

„Í svona stórum viðskiptum ganga samningsaðilar, hvor fyrir sig, úr skugga um að öll atriði sem skipta máli og varða hagsmuni þeirra séu frágengin í samningi þannig að hagsmunir þeirra séu tryggðir,“ sagði Ólafur Ólafsson í ávarpi sínu sem birt var hér um miðjan maí síðastliðinn.

„Það var her sérfræðinga og einn stærsti og virtasti banki heims, HSBC, sem var ríkinu til ráðgjafar í þessari sölu. Það voru þessir aðilar sem stýrðu söluferlinu frá A-Ö og þeir héldu á pennanum í samningsgerðinni sjálfri. Þeir voru í fullkominni aðstöðu til að setja öll sín skilyrði skýrt fram og fá allar þær upplýsingar sem þeir óskuðu. Það er því ljóst að ákveðnum grundvallaratriðum er sleppt í þessari rannsóknarskýrslu, þar sem þau ríma ekki við niðurstöðuna. Staðreyndum hefur ekki verið haldið til haga og þeim snúið á hvolf.“