S-hópurinn var metinn hæfari burtséð frá erlendri þátttöku

Fjárfestingarbanki HSBC London
Höfuðstöðvar breska fjárfestingarbankans HSBC í Lundúnum. Mynd/HSBC

Hæfi S-hópsins svokallaða var metið nokkuð hærra en fjárfestingahópsins Kaldbaks í aðdraganda sölunnar á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum í janúar 2003. Það var breski bankinn HSBC sem framkvæmdi matið en hann var íslenskum stjórnvöldum til ráðgjafar í söluferlinu. Rétt er að hafa í huga að HSBC mat S-hópinn hæfari burtséð frá því hvort að erlendur aðili yrði þátttakandi í kaupunum eða ekki.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um söluna á Búnaðarbankanum er lítið hirt um þetta mikilvæga atriði þó svo að það hafi vegið þungt þegar íslensk stjórnvöld ákváðu að ganga til viðræðna við S-hópinn um kaup á hlut í bankanum.

Um þetta var þó lítillega fjallað á fundi Ólafs Ólafssonar með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis um miðjan maí sl. Nichole Leigh Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar og nefndarmaður í nefndinni vakti máls á því á fundinum að hún teldi mikilvægt að nýta fundinn til að byggja upp traust til framtíðar. Hún ítrekaði í spurningum sínum til Ólafs að hún teldi að hann þyrfti að svara skýrar um það hvort að þátttaka erlendra aðila hefðu verið skilyrði eða kostur í aðdraganda sölunnar.

Ólafur rifjaði upp samanburðarlíkan sem HSBC gerði á fjárfestingarhópunum tveimur, Kaldbaki og S-hópnum.

„Í því mati kemur fram að S-hópurinn sé metinn að stigafjölda 66-74 stig meðan Kaldbakur er metinn á 64 stig. Og S-hópurinn er metinn betri hvort sem erlendur aðilar eru þátttakendur eða ekki. Og mér finnst það vera dálítill grundvallarpunktur,“ sagði Ólafur.

Samanburðarlíkan HSBC má nálgast HÉR. Í því er eru hóparnir tveir metnir að stigum eftir ólíkum þáttum, s.s. fjármögnun, þekkingu á fjármálamörkuðum, mögulegu eignarhaldi o.s.frv. Í líkaninu er gerður mjög skýr fyrirvari um þátttöku erlendra aðila í S-hópnum. Fyrirvarinn er í lauslegri þýðingu þannig að mat á hæfi S-hópsins „endurspegli núverandi óvissu um það hvort að Société Générale annar alþjóðlegur samstarfsaðili verði meðfjárfestir“ í eigninni. Þrátt fyrir þessa óvissu var S-hópurinn metinn hæfari af sérfræðingum HSBC.