Samantekt: Umfjöllun síðustu mánaða

Búið er að leiðrétta ýmsar rangfærslur sem fram koma í skýrslu RNA og í umræðunni um söluna á Búnaðarbankanum. Auk þess er búið að benda á ýmis önnur mikilvæg atriði sem snúa að málinu.

Rannsóknarnefnd Alþingis (RNA), sem skipuð var samkvæmt ályktun Alþingis 2. júní 2016, skilaði skýrslu um söluna á 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbankanum í lok mars síðastliðins. Niðurstaða nefndarinnar var meðal annars að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser hafi í reynd aldrei verið fjárfestir í Búnaðarbankanum þegar bankinn var seldur og að aðkoma bankans hafi aðeins verið til málamynda. Þetta hefur verið hrakið.

Þann 17. maí kom Ólafur Ólafsson fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Sama dag birti hann ávarp þar sem hann ítrekaði meðal annars það sem áður hefur komið fram, að íslenska ríkið hafði fengið hæsta mögulega verð fyrir hlut sinn í bankanum, að staðið hafi verið við alla samninga og ríkið hafi verið upplýst um öll þau atriði sem óskað var eftir.

Tilefni fundarins með þingnefndinni var í raun tvíþætt; annars vegar taldi Ólafur að RNA hefði ekki uppfyllt sjálfsagðar reglur um réttláta málsmeðferð, þar sem honum var ekki gefið færi á því að meta gögn og svara spurningum nefndarinnar, og hins vegar taldi Ólafur rétt að koma fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í ljósi þess að sama nefnd skipaði rannsóknarnefndina og tók við skýrslu hennar eftir að hinni svokölluðu rannsókn var lokið. Því til viðbótar má nefna að á fundinum lýsti Ólafur því yfir að hann tæki ábyrgð á fyrri gjörðum.

Á undanförnum mánuðum hefur reynst nauðsynlegt að leiðrétta ýmis atriði sem farið var rangt með í skýrslu RNA auk þess sem ástæða var til að skerpa á öðrum atriðum sem snúa að málinu. Hér verður farið yfir það helsta sem fjallað hefur verið um á þessum vef síðustu mánuði.

Rangfærslur um skýrslutöku

Ólafur Ólafsson óskaði sjálfur eftir því að gefa skýrslu fyrir dómi við rannsókn á sölu Búnaðarbankans. Það er því rangt sem fram kemur í skýrslu RNA að Ólafur hafi neitað því að sinna boðum nefndarinnar. Þá hélt formaður nefndarinnar, Kjartan Bjarni Björgvinsson, því ranglega fram að Ólafur hafi neitað að mæta fyrir nefndina, sem eru hrein ósannindi. Hið rétt er að Ólafur sinnti öllum þeim boðum sem rannsóknarnefndin lagði fyrir hann. Formaður nefndarinnar hefur hvorki dregið til baka né beðist afsökunar á þessum rangfærslum. Þessar rangfærslur Kjartans Bjarna rötuðu meðal annars inn í umræðu á fyrrnefndum fundi með þingnefnd, en voru leiðréttar þar.

Óvönduð málsmeðferð við rannsókn

RNA braut ítrekað á rétti Ólafs Ólafssonar við störf sín. Þá virti hún að vettugi hefðbundin stjórnsýslulög og jafnframt sérstök lög sem sett voru um rannsóknarnefndir árið 2011. Erindum Ólafs og lögmanns hans var ekki svarað og eftir að nefndin hafði lokið störfum sagði formaður nefndarinnar ósatt um samskipti Ólafs við nefndina. Rannsóknarnefndin sinnti í raun hlutverki rannsakenda, ákæruvalds og dómstóls, þó ekki sé um efnislega ákæru eða dóm að ræða. Nefndin hafði því tækifæri, og nýtti það tækifæri, til að sverta mannorð þeirra einstaklinga sem hún tók til rannsóknar án þess að gefa þeim færi á að halda uppi vörnum.

Það er réttur allra manna að njóta réttlátrar málsmeðferðar í samskiptum við hið opinbera. Þess réttar naut Ólafur hins vegar ekki í störfum nefndarinnar. Það lá leynt og ljóst fyrir að nefndin hefði fyrir fram gefnar skoðanir á málinu og hún var í takt við niðurstöðuna.

Það var, og er enn, full ástæða fyrir Ólaf Ólafsson til að draga það í efa að hann hlyti sanngjarna málsmeðferð hjá nefndinni.

Krafa um aðkomu erlenda aðila

Í skýrslu RNA er látið að því liggja að það hafi verð krafa ríkisins að erlendir aðilar kæmu að kaupunum í Búnaðarbankanum (þó þannig hafi það ekki verið þegar Landsbankinn var seldur). Sú röksemdarfærsla er nýtt til að halda því fram að aðkoma þýska bankans Hauck & Aufhäuser hafi aðeins verið til málamynda. Þetta er í öllum atriðum rangt, enda voru það kaupendur (S-hópurinn) sem höfðu frumkvæði að því að fá erlendan aðila að viðskiptunum. Nánar er farið yfir aðkomu Hauck & Aufhäuser HÉR.

Það fór því aldrei fram áreiðanleikakönnun né aðrar kannanir af hálfu íslenska ríkisins á Hauck & Aufhäuser. Það liggur í augum uppi, að hafi þátttaka þessa banka verið grundvallaratriði og forsenda fyrir sölunni, þá hefði farið fram áreiðanleikakönnun á honum. Jafnframt hlyti þá að hafa legið fyrir einhver efnislegur rökstuðningur fyrir því af hverju þessi tiltekni banki skipti máli, en svo var ekki.

S-hópurinn var metinn hæfastur og átti hæsta tilboðið

Einn mikilvægasti þáttur einkavæðingarferlis ríkisfyrirtækja er að meta verðmæti þeirra fyrirtækja sem einkavæða skal og í framhaldinu að tryggja það að rétt verð fáist fyrir fyrirtækið þegar gengið er til samninga um einkavæðingu. Þegar virðismat bankans er skoðað kemur í ljós að líklega hefur virði bankans verið ofmetið við sölu hans.

Það er einkum tvennt sem er mikilvægt að hafa í huga þegar fjallað er um kaup S-hópsins á Búnaðarbankanum; Hópurinn var metinn hæfastur af þeim sem buðu í bankann og hann átti hæsta tilboðið í bankann.

Hæfi S-hópsins var metið nokkuð hærra en fjárfestingahópsins Kaldbaks í aðdraganda sölunnar á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum í janúar 2003. Það var breski bankinn HSBC sem framkvæmdi matið en hann var íslenskum stjórnvöldum til ráðgjafar í söluferlinu. Rétt er að hafa í huga að HSBC mat S-hópinn hæfari burtséð frá því hvort að erlendur aðili yrði þátttakandi í kaupunum eða ekki.

Samruni lá í loftinu – Aðkoma Kaupþings

Loks mátti öllum þeim sem fylgdust með þjóðfélagsumræðu og viðskiptalífinu fyrstu árum síðasta áratugs vera ljóst að fram undan væru vendingar í íslensku bankakerfi. Samruni Búnaðarbankans og Kaupþings kom þannig ekkert á óvart. Miklar þreifingar höfðu átt sér stað innan fjármálageirans um hvernig hægt væri að ná fram hagræðingu, stærðarhagkvæmni og leggja þannig grunn að öflugum fjármálafyrirtækjum. Þetta varð ein niðurstaða þeirra þreifinga. Að mörgu leyti má líkja samruna Kaupþings og Búnaðarbankans við samruna FBA og Íslandsbanka nokkrum árum áður.

Þegar bankar, hvers lenskir sem þeir eru, fara út í fjárfestingar á borð við þá sem hér um ræðir nota þeir til þess ýmsar fjármögnunarleiðir. Það er rétt að rugla því ekki saman við fjárfestinguna sjálfa, líkt og gert hefur verið í tilfelli Hauck & Aufhäuser. Bankinn gerði samninga við Kaupþing um fjármögnun, takmörkun á áhættu, o.s.frv. Þeir samningar voru ríkinu óviðkomandi og höfðu engin áhrif á söluferlið á Búnaðarbankanum. Þeir samningar urðu heldur ekki til þess að skaða hagsmuni ríkisins eða almennings, sem var eigandi bankans. Það var gagnkvæmur vilji hjá Hauck & Aufhauser og Kaupþingi að eiga viðskipti sín í milli. Öll samskipti milli þeirra voru bein og milliliðalaus og þeir gengu sjálfir frá samningum sín á milli.

Önnur einkavæðing á árunum 1992-2007

Þegar fjallað er um söluna á Búnaðarbankanum er tilefni til að fjalla um einkavæðingu í víðara samhengi. Á árunum 1992 til 2007 átti sér stað umfangsmikið einkavæðingarferli, þar sem 35 fyrirtæki voru seld til einkaaðila, ýmist að hluta til eða í heild sinni. Vegna þessa námu tekjur ríkisins á þessu tímabili um 165 milljörðum króna sé miðað við verðlag ársins 2007 þegar ferlinu lauk. Búnaðarbankinn var í raun aðeins lítill hluti af því ferli, en andvirði sölunnar á bankanum var um 8,6% af öllum tekjum ríkisins í einkavæðingarferlinu.

Það má halda því fram með sanngjörnum rökum að salan á Landsíma Íslands árið 2005 hafi að mörgu leyti verið best heppnaða einkavæðingin, enda var hún með þeim síðustu í fyrrnefndu einkavæðingarferli. Ríkið hafði, samkvæmt ráðgjöf og í samstarfi við erlenda ráðgjafa, þróað með sér vinnuferli sem var í senn bæði sanngjarnt og gegnsætt. Þeir sem metnir voru hæfir fengu að lokum að gera tilboð í félagið og að lokum voru það hæstbjóðendur sem fengu að kaupa félagið. Sömu markmiðum var þó náð við söluna á Búnaðarbankanum nokkrum árum áður, þar sem hæstbjóðendur keyptu bankann og ríkið náði þannig að hámarka hlut sinn í bankanum.

Því miður er ekki hægt að halda því sama fram þegar fjallað er um söluna á Landsbankanum í lok árs 2002 þegar Samson hópurinn, sem hafði boðið lægsta tilboð, keypti bankann. Því til viðbótar fékk hópurinn 700 milljóna króna afslátt af umsömdu verði eftir að búið var að skrifa undir samninga. Ekkert bendir til þess að íslensk stjórnvöld þess tíma hafi haft áhuga á því að hámarka það verð sem hægt var að fá fyrir bankann. Þess í stað hafi verið tekin pólitísk ákvörðun um það hverjir fengju að kaupa bankann. Þannig urðu eigendur bankans, skattgreiðendur, af umtalsverðu fjármagni, og færa má fyrir því rök að gengið hafi verið á hlut þeirra sem þegar höfðu gerst hluthafar í bankanum, en á þessum tíma var hann skráður á markað.

Stjórnvöld þess tíma reyndu einnig að íhlutast til um söluna á Búnaðarbankanum, en höfðu ekki erindi sem erfiði.

Í ljósi alls þessa hefur Ólafur Ólafsson ítrekað fjallað um mikilvægi þess að lagður séu fram skýrar reglur um einkavæðingu ríkiseigna og að reynsla fyrri ára sé nýtt til hins betra. Því miður er ekki hægt að draga mikinn lærdóm af skýrslu RNA. Nú eru tveir stórir bankar í eigu ríkisins (Landsbankinn og Íslandsbanki) auk þess sem ríkið á stóran hlut í Arion banka. Það er stjórnmálamanna að ákveða hvort og þá hvernig þessar eignir verða seldar. Reynslan af einkavæðingarferlinu sem átti sér stað á árunum 1991-2007 ætti að nýtast vel.

Framhaldið

Í kjölfar skýrslu RNA stóð til að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis mundi taka skýrsluna til efnislegrar umfjöllunar. Í ljósi stjórnarslita og komandi alþingiskosninga má vænta þess að nokkur bið verði á þeirri vinnu. Fjallað hefur verið um ummæli nokkurra nefndarmanna, bæði frá fyrrnefndum fundi sem haldinn var þann 17. maí sl. og í fjölmiðlum eftir fundinn. Auk þess hefur tilteknum fjölmiðlamönnum verið svarað þegar ljóst er að þeir fara með rangt mál eða byggja mál sitt á rangfærslum, til að mynda frá formanni RNA.

Hvað sem því líður þá hlýtur það að vera krafa þeirra sem eru til umfjöllunar í nefndum Alþingis að nefndarmenn fari með rétt mál, styðji fullyrðingar sínar með rökum og gögnum og falli ekki í þá gryfju að setja rannsóknaraðila, sem orðið hafa uppvísir af rangfærslum, á of háan stall á kostnað almennings. Það á ekki einungis við um þetta einstaka mál, heldur almennt. Það er ljóst að meginþorri þeirra gagna sem lögð hafa verið fram í málinu eru gömul í þeim skilningi, enda eru liðin 15 ár frá söluferlinu. Mikilvægt er að hafa það í huga hvernig gögn eru túlkuð þegar taka á efnislega afstöðu til málsins.

Að lokum

Aðkoma Hauck & Aufhäuser var eins raunveruleg og hugsast getur. Bankinn var virkur hluthafi í Eglu hf. (sem var hluti af S-hópnum), hann greiddi allt sitt hlutafé og skipaði sína menn í stjórn, fór með atkvæðisrétt og bar sem hluthafi réttindi og skyldur samkvæmt því. Öll gögn um þetta liggja fyrir og fásinna að halda öðru fram.

Það sem er þó mikilvægast að hafa í huga þegar fjallað er um sölu ríkisins á hlut sínum í Búnaðarbankanum eru eftirfarandi staðreyndir;

  • Bankinn var seldur hæstbjóðanda
  • Bankinn var seldur þeim sem metinn var hæfastur
  • Ríkið fékk greitt fullt verð fyrir hlut sinn í bankanum
  • Markmið einkavæðingarnefndar gengu eftir
  • Staðið var við alla samninga sem gerðir voru

Þetta er það sem raunverulega skiptir máli.