Samruni banka lá í loftinu vorið 2003

Samruni Kaupþings og Búnaðarbankans átti sér eðlilegan aðdraganda eftir þreifingar á fjármálamarkaði vorið 2003.

KB banki Kaupþing Kaupthing einkavæðing
Kúlupenni með merki KB banka.

Öllum þeim sem fylgdust með þjóðfélagsumræðu og viðskiptalífinu fyrstu árum síðasta áratugs mátti vera ljóst að fram undan væru vendingar í íslensku bankakerfi.

Fjárfestingarbanki Atvinnulífsins (FBA) hafði verið einkavæddur í skrefum rétt fyrir aldarmótin og loks sameinast rekstri Íslandsbanka. Árið 2000 var gerð tilraun til að sameina ríkisbankana tvo, Búnaðarbankann og Landsbankann, en Samkeppniseftirlitið hafnaði þeirri sameiningu þannig að eðli málsins samkvæmt rann hún út í sandinn. Þá stóð til að einkavæða báða bankana og gekk það eftir þegar Landsbankinn var seldur í lok árs 2002 og Búnaðarbankinn í byrjun árs 2003.

Að sama skapi mátt öllum vera ljóst að nauðsynlegt yrði að hefja ákveðið hagræðingarferli innan bankakerfisins, hvort sem það væri innan bankanna sjálfra, með sameiningu fjármálafyrirtækja eða öðrum breytingum á starfsemi þeirra.

Fyrsti aðalfundur Búnaðarbankans eftir að bankinn var seldur fór fram í lok mars 2003. Nýir eigendur tóku þá formlega við stjórn bankans og Hjörleifur Jakobsson var kjörinn formaður bankaráðs. Að fundi loknum sagði Hjörleifur í samtali við fjölmiðla að á meðal fjármálafyrirtækja væri mikill áhugi á hagræðingu með samruna og að Búnaðarbankinn myndi skoða þau tækifæri sem væru þar til staðar.

Á fyrsta stjórnarfundi hins nýja bankaráðs var rætt um ýmsa kosti í þeim málum og vitað var að Kaupþing hefði áhuga á því að sameinast Landsbankanum eða Búnaðarbankanum, eins og fram kemur í ritgerð Heiðars Lind Hanssonar sagnfræðings, sem birt var fyrr á þessu ári. Stuttu síðar barst bankaráðinu bréf frá Kaupþingi þar sem óskað var eftir viðræðum um „um nánara samstarf, sameiningu eða samruna bankanna“ eins og það var orðað. Ákveðið var að taka boði Kaupþings um viðræður.

Öll þessi atburðarrás stríðir gegn kenningunni um að aðkoma þýska bankans Hauck & Aufhäuser hafi aðeins verið til málamynda eins og reynt er að halda fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um söluna á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

Samruni Kaupþings og Búnaðarbankans átti sér eðlilegan aðdraganda og var í takt við þróun fjármálageirans á þeim tíma. Eftir að ríkisbankarnir þrír (FBA, Landsbankinn og Búnaðarbankinn) komust í eigu einkaaðila var við því að búast að þá færi af stað eðlilegt umrót í bankageiranum þar sem eigendur og stjórnendur bankanna legðu grundvöll að framtíðarstarfsemi þeirra. Það var ljóst að stjórnendur Kaupþings hefðu meðal annars þreifað fyrir sér um sameiningu við hefðbundinn viðskiptabanka og eftir að Íslandsbanki og FBA runnu saman lá beint við að kanna möguleikann á samruna við Landsbankann eða Búnaðarbankann.

Á sama tíma var mönnum einnig ljóst að það yrði til lítils að reyna að sameina Landsbankann og Búnaðarbankann í ljósi fyrri afstöðu Samkeppniseftirlitsins. Þá var um tíma einnig horft til þess að sameina Íslandsbanka og Búnaðarbankann, en í ljósi fyrrnefndrar afstöðu Samkeppniseftirlitsins um sameiningu Búnaðarbankans og Landsbankans var frá því horfið. Kaupþing var því eini mögulegi sameiningarkosturinn í stöðunni.

Seinna um vorið gekk samruni Kaupþings og Búnaðarbankans í gegn. Bankinn var skráður í Kauphöll Íslands og í Kauphöllina í Stokkhólmi í Svíþjóð. Sameiginlegt markaðsverðmæti nýs banka varð tæpur 61 milljarður sem gerði hann að stærsta fyrirtæki íslensku kauphallarinnar og um leið að stærsta banka landsins. Sameinaður banki fékk nafnið Kaupþing Búnaðarbanki hf. og nafninu var síðar breytt í KB banki.

Í stuttu máli: Samruni Kaupþings og Búnaðarbankans átti sér eðlilegan aðdraganda. Miklar þreifingar höfðu átt sér stað innan fjármálageirans um hvernig hægt væri að ná fram hagræðingu, stærðarhagkvæmni og leggja þannig grunn að öflugum fjármálafyrirtækjum. Þetta varð ein niðurstaða þeirra þreifinga. Að mörgu leyti má líkja samruna Kaupþings og Búnaðarbankans við samruna FBA og Íslandsbanka nokkrum árum áður.