Af hverju var kjölfestuhlutur í Landsbankanum og Búnaðarbankanum seldur?
Sala Landsbankans og Búnaðarbankans 2002 til 2003 var hluti af stefnumörkun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokks um sölu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Bönkunum hafði verið breytt í hlutafélög árið 1997 og í tvígang áður búið að selja í þeim 15 prósenta hlut í opnum útboðum.

Hver annaðist söluna á bönkunum?
Framkvæmdanefnd um einkavæðingu (oft kölluð einkavæðingarnefnd) sem starfaði í umboði Ráðherranefndar um einkavæðingu. Ráðgjafi einkavæðingarnefndar við sölu bankanna var breski fjárfestingarbankinn HSBC.

Hvað seldi ríkið stóran hlut í bönkunum til kjölfestufjárfestis?
Í upphaflegri auglýsingu Framkvæmdanefndar um einkavæðingu var kallað eftir fjárfestum sem áhugasamir væru um að kaupa að minnsta kosti 25% hlut í annað hvort Landsbankanum eða Búnaðarbankanum. Að endingu var svo seldur 45,8% hlutur í hvorum banka fyrir sig.

Hverjir keyptu hlut ríkisins í bönkunum?
Samson, fjárfestingarfélag Björgólfs Guðmundssonar, Björgólfs Thors Björgólfssonar og Magnúsar Þorsteinssonar, keypti hlut ríkisins í Landsbankanum, en svonefndur S-hópur keypti hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Sala Búnaðarbankans fór fram 2002 en skrifað var undir endanlegan samning um söluna rétt eftir áramótin 2003.

Hvað er S-hópurinn?
S-hópurinn er það nafn sem gefið var fjárfestahópnum sem átti besta boð og keypti á endanum kjölfestuhlut ríkisins í Búnaðarbankanum 2002. Þegar S-hópurinn lýsti fyrst áhuga á kaupum í öðrum hvorum bankanna voru í honum Eignarhaldsfélagið Andvaka, Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar, Fiskiðjan Skagfirðingur hf., Kaupfélag Skagfirðinga svf., Ker hf., Samskip hf. og Samvinnulífeyrissjóðurinn. Nokkrar breytingar urðu svo á samsetningu hópsins. S-hópurinn sem festi kaup á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum samanstóð af Eglu hf. (sem var með 71,2% hlutdeild í hópnum), Vátryggingafélag Íslands (með 12,7%), Samvinnulífeyrissjóðurinn (með 8,5%) og Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar (með 7,6%).

Hvaðan kemur nafn S-hópsins?
Nafn S-hópsins var fyrst notað í fréttaskýringu Agnesar Bragadóttur blaðamanns í Morgunblaðinu 21. mars 2001 um átök í eigendahópi Vátryggingafélags Íslands (VÍS). „Þegar Samvinnutryggingar sf. og Brunabótafélag Íslands hf. runnu saman árið 1989 undir merkjum VÍS varð til tvenns konar nafngift á eigendunum, B-hópur, (eigendur Brunabótar) og S-hópur, (eigendur Samvinnutrygginga). Í þessari umfjöllun verður stuðst við nafngiftina S-hópurinn, þegar fjallað er um eigendur og stjórnendur og stjórnarmenn fyrrum Sambandsfyrirtækja,“ segir í fréttaskýringu Agnesar.

Hvað er Egla hf.?
Egla var hlutafélag sem stofnað var utan um kaup og eignarhald á hlut í Búnaðarbanka Íslands. Þegar hlutur í bankanum var seldur S-hópi voru eigendur Eglu þýski einkabankinn Hauck & Aufhäuser KGaA (sem átti 50% í félaginu), Ker hf. (með 49,4%) og Vátryggingafélag Íslands (með 0,6%).

Hvað áttu félögin sem að S-hópnum stóðu stóran hlut í Búnaðarbankanum eftir kaupin á 48,5% hlut ríkisins?
Hauck & Aufhäuser átti tæp 16,3%, Ker átti 16,1%, samanlagður hlutur VÍS var 6,0%, Samvinnulífeyrissjóðurinn átti 3,9% og Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar 3,5%.

Hver var þáttur Ólafs Ólafssonar við einkavæðingu bankanna 2002?
Ólafur Ólafsson leiddi fjárfestahópinn sem fékk nafnið S-hópurinn og átti frumkvæði að þátttöku hans í keppni fjárfesta um kaup á kjölfestuhlut í öðrum hvorum bankanna. Ólafur var á þessum tíma forstjóri Samskipa hf. og stjórnarmaður í Keri hf. (sem á þessum tíma var umsvifamikið í íslensku viðskiptalífi), en fjárfestingarfélag Ólafs, Kjalar hf., átti 10,3% hlut í Keri.

Var gerð krafa um að erlendur banki eða fjármálafyrirtæki kæmi að fjárfestahópnum sem fengi að kaupa hlut ríkisins í bönkunum?
Nei, sömu reglur og vinnulag var viðhaft við söluna á bæði Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Hjá Samson var ekki um að ræða slíka aðild. Fyrir lá hins vegar að stjórnvöld höfðu haft áhuga á því að erlendur banki yrði í eigendahópi íslensku bankanna, en tilraunir til að selja erlendum bönkum hlut höfðu runnið út í sandinn.

Var aðkoma erlends fjármálafyrirtækis lykilatriði í því að stjórnvöld gengu til samninga við S-hópinn við söluna á Búnaðarbankanum?
Nei, í samanburði HSBC, ráðgjafa stjórnvalda við söluna á bankanum, á tilboðum S-hópsins og Kaldbaks, hins fjárfestahópsins sem kom til greina, er sérstaklega tekið fram að tilboð S-hópsins sé álitlegra, jafnvel þótt ekki kæmi til þess að erlend fjármálastofnun tæki þátt í kaupunum. Í mati HSBC fékk tilboð S-hópsins 66-74 stig af 100 mögulegum, en tilboð Kaldbaks 64 stig.

Af hverju stóðust ekki upphaflegar áætlanir um að franski stórbankinn Société Générale yrði meðal fjárfesta í S-hópnum?
Société Générale hætti við fjárfestingu í Búnaðarbanka Íslands eftir að hafa orðið undir í samkeppni við Crédit Agricole um kaup á franska stórbankanum Crédit Lyonnais. Talið var að það myndi skaða ímynd bankans að taka á þessum tímapunkti þátt í kaupum á íslenskum smábanka með svipaða tengingu við landbúnað og Crédit Agricole. Þá óttaðist bankinn líka hve umræða um bankasöluna á Íslandi var orðin pólitísk, en bankinn hafði brennt sig á slíkri umræðu í Frakklandi nokkrum árum áður.

Af hverju voru stjórnvöld ekki upplýst um hvaða erlenda fjármálastofnun kom að S-hópnum fyrr en daginn fyrir undirritun kaupsamnings?
Société Générale hafði milligöngu um að finna aðra erlenda fjármálastofnun í sinn stað, eftir að bankinn ákvað á síðustu metrum kaupferilsins að hætta við þátttöku. Innan S-hópsins voru uppi áhyggjur af því að umræða um þátttöku bankans áður en að undirskrift kæmi kynnu að fæla hann frá ferlinu og tefja söluna enn frekar, en undirritun var frestað þegar Société Générale hætti við. Einkavæðingarnefnd féllst á þetta gegn því að HSBC, ráðgjafi stjórnvalda, fengi að vita um hvaða banka væri að ræða.

Hvað er Hauck & Aufhäuser?
Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA er þýskur einkabanki stofnaður árið 1796 og var á þeim tíma er kaupin á Búnaðarbankanum gengu í gegn að 70% í eigu einstaklinga og 30% eigu stofnanafjárfesta. Bankinn var sagður einn virtasti banki Þýskalands í einkaeigu og með starfsemi í Sviss og Lúxemborg meðal annarra staða. Bankinn sérhæfði sig í sjóða­ og eignastýringu fyrir stofnanir og einkaaðila, umsjón verðbréfa fyrir sjóði og fjármálastjórn fyrirtækja og einstaklinga. Heimasíða bankans.

Af hverju komu Ólafur Ólafsson og Guðmundur Hjaltason ekki strax í yfirheyrslu hjá Rannsóknarnefnd Alþingis sem skipuð var sumarið 2016?
Mat Ólafs og Guðmundar var að stofnað hafi til rannsóknarinnar á aðkomu Hauck & Aufhäuser með ólögmætum hætti. Verið væri að rannsaka hluti sem margskoðaðir hafi verið áður og vörðuðu ekki meðferð opinbers valds, líkt og rannsóknarnefndum Alþingis sé ætlað að skoða, heldur málefni einstaklinga, þar sem brot væru fyrnd ef um slíkt hefði verið að ræða. Þá bæri málatilbúnaðurinn með sér að stjórnmálamenn að beina sjónum sínum að þessum afmarkaða hluta til að skjóta sér undan víðtækari rannsókn á einkavæðingu bankanna. Þeir treystu ekki málsmeðferðinni og fóru því fremur fram á að fá að bera vitni fyrir dómi.

Hvernig tóku dómstólar á málinu?
Álitamál um hvort réttindi vitna væru fyrir borð borin hjá rannsóknarnefndinni voru borin bæði undir forseta Alþingis og Dómstóla. Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði að brotalamir væru á málsmeðferðinni, en með dómi Hæstaréttar var þeim úrskurði snúið við. Í kjölfarið voru skýrslur gefnar fyrir dómi.

Um hvað snerust yfirheyrslur rannsóknarnefndarinnar?
Spurt var út í gamlar fundargerðir og umfjallanir fjölmiðla. Ekki var spurt út í ný gögn eða hluti sem ekki höfðu verið rannsakaðir eða fjallað um áður. Eftir að vitnaleiðslum lauk fengu vitni sendar bréfleiðis viðbótarspurningar um gögn sem rannsóknarnefndin hefði undir höndum og sýndu að Kaupþing hefði í gegn um aflandsfélag komið að fjármögnun Hauck & Aufhäuser á kaupunum í Búnaðarbanka og í raun tryggt þýska bankanum skaðleysi af viðskiptunum.

SENDU FYRIRSPURN