Staðið var við alla samninga vegna sölu Búnaðarbankans

Ólafur Ólafsson
Ólafur Ólafsson

Vegna umfjöllunar vefmiðilsins Kjarnans í dag þar sem kaupendur Búnaðarbankans eru sakaðir um blekkingar er nauðsynlegt að árétta eftirfarandi:

Engum blekkingum var beitt varðandi aðkomu erlends banka enda var tilboð S-hópsins metið hagstæðast jafnvel án aðkomu erlends banka sbr. fundargerðir Framkvæmdanefndar um einkavæðingu. (Sjá HÉR og HÉR). Í fundargerðunum kemur fram að „frekar væri gefinn plús fyrir erlenda peninga“. Aldrei var gerð krafa um aðkomu erlends banka og því gat ekki verið um neinar blekkingar að ræða.

Hauck & Aufhäuser var hluthafi í Eglu hf. enda samrýmdist það eigin markmiðum S-hópsins. Erlendi bankinn gekkst undir skuldbindingar sem því tengdist. Fjármögnun hlutarins breytti engu um þær skuldbindingar og hvernig þær voru inntar af hendi enda var staðið við alla samninga gagnvart ríkinu.

Þeim sem skoða málið óhlutdrægt ætti að vera ljóst að pólitískur vilji breyttist í kjölfar eignasölu ríkisins. Í 15 ár höfum við orðið vitni að atburðarrás þar sem reynt er að breyta skilyrðum bankasölunnar eftir á. Ábyrgðin á sölunni hvílir á herðum stjórnvalda, sem tóku hæsta tilboði og fengu að fullu greitt. Kaupendur geta aldrei mætt skilyrðum sem sett eru eftirá. Eina blekkingin er því sú að halda því fram að sett hafi verið skilyrði fyrirfram um aðkomu erlends banka af stjórnvöldum.

Tilefni umfjöllunarinnar er að skattrannsóknarstjóri fær ekki upplýsingar um eigendur félags sem heitir Dekhill Advisors. Eins og ég hef áður áréttað þá hef ég engar upplýsingar um það félag og hvorki átt það né haft fjárhagslegan ávinning af því.

Það er hvergi véfengt að greitt hafi verið að fullu fyrir bankann. Gögn sýna ennfremur að staðið var við alla samninga. Vilji fólk kynna sér gögn málsins frá fyrstu hendi má skoða www.soluferli.is en á vefnum hafa verið lagðar fram allar tiltækar upplýsingar um hvernig staðið var að sölu á Búnaðarbankanum.

Ólafur Ólafsson