Aðkoma Hauck & Aufhäuser

Hauck & Aufhäuser átti helminginn í Eglu sem var hluti af S-hópnum sem keypti 48,5% hlut í Búnaðarbanka Íslands af ríkinu

skjáskot screenshot
Forsíða vefs þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers.

Forsvarsmenn S-hópsins lögðu áherslu á að hafa með í fjárfestahópnum erlenda fjármálastofnun, þótt slík aðkoma hafi ekki verið meðal skilyrða sem einkavæðingarnefnd setti fyrir kaupum í bankanum, að því er fram kemur í ritgerð Heiðars Lind Hanssonar um einkavæðingu Búnaðarbankans. Vitað var að stjórnvöld höfðu áhuga á að fá hingað erlenda banka í eigendahóp þeirra íslensku, svo sem vegna tilrauna til þess að bjóða erlendum bönkum hlut í Landsbankanum árið 2001 og vegna ákvæða í stefnumótun stjórnvalda frá 1998.

Fjallað er um kynningu Finns Ingólfssonar viðskiptaráðherra á stefnumótun stjórnvalda um sölu ríkisbankanna í frétt í Morgunblaðinu 29. ágúst 1998, en þá höfðu verið blásnar af viðræður um möguleg kaup SEB-bankans sænska á Landsbankanum. Þar kemur fram að stjórnvöld hafi talið „nauðsynlegt íslenskum fjármagnsmarkaði að erlendir fjárfestar séu á meðal þátttakenda“. Með samstarfi við erlend fyrirtæki sem sýnt hafi árangur við hagræðingu fyrirtækja væri hægt að tryggja greiðan aðgang að þróun tækniþekkingar og viðhorfum á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði, auk þess sem erlend eignaraðild myndi dýpka og þróa íslenskan hlutabréfamarkað. „Þó ekki hafi reynst tímabært að svo stöddu að fá erlendan kjölfestufjárfesti að Landsbankanum leggur ríkisstjórnin áherslu á að hugað verði að aðild erlendra kjölfestufjárfesta þegar sala á hlutafé ríkissjóðs í Landsbanka og Búnaðarbanka verður ákveðin.“

Áhuga á aðkomu erlendrar fjármálastofnunar að málefnum Landsbankans er einnig getið í skráningarlýsingu bréfa bankans í Kauphöll í septemberbyrjun 1998, en þó tekið fram að stefnan sé enn í mótun hjá stjórnvöldum. Í umfjöllun í kafla um breytt umhverfi á fjármálamarkaði er bent á að með þátttöku Íslands í evrópska efnahagssvæðinu hafi í auknum mæli verið opnað fyrir samkeppni frá erlendum fjármálastofnunum. Íslenskir bankar þurfi að bregðast við með aukinni samvinnu eða samruna, bæði milli innlendra banka í stærri verkefnum og með samstarfi við erlend fjármálafyrirtæki. „Hluthafar Landsbanka Íslands hf. mega búast við að bankaráð muni vinna að tillögum um aukið samstarf við innlenda eða erlenda aðila, jafnvel með eignaraðild í huga og þá eftir atvikum gagnkvæma eignaraðild,“ segir í skráningarlýsingunni, en tiltekið í kafla um áhættuþætti á síðu 53 að stefna ríkisstjórnarinnar að þessu leyti sé þá enn í mótun.

Á fyrstu stigum var franski bankinn Société Générale, sem þá var í hópi stærstu og þekktustu banka Evrópu, ráðgjafi S-hópsins og svo um tíma mögulegur þátttakandi í kaupunum á kjölfestuhlutnum í Búnaðarbankanum. „Frá því að Société Générale var einkavæddur hafði hann fært út kvíarnar með kaupum og yfirtökum á bönkum í Mið- og Austur Evrópu. Því var vitað að hann hafði augastað á frekari vaxtarmöguleikum í Evrópu,“ segir í ritgerð Heiðars Lind og haft eftir Guðmundi Hjaltasyni, starfsmanni S-hópsins, að bankinn hafi sýnt verkefninu áhuga nánast frá upphafi. Í kjölfar heimsóknar fulltrúa Société Générale, dr. Michael Sautter og Ralf Darpe, hingað til lands haustið 2002 hafi þeir ákveðið að taka að sér ráðgjafarstörf fyrir S-hópinn vegna kaupanna á Landsbankanum, en það ferli var á þeim tíma langt komið.

Í ritgerð Heiðars Lind er vitnað til tölvupósts sem einn af ráðgjöfum HSBC hjá einkavæðingarnefnd, Anders Alfredson, skrifaði Skarphéðni Berg Steinarssyni, starfsmanni einkavæðingarnefndar. Alfredson hafði rætt við Sautter um hlutverk Société Générale innan S-hópsins 6. september, sama dag og frestur til að skila inn ítarlegri greinargerð vegna Landsbankakaupanna rann út. Í bréfinu til Skarphéðins hafði Alfredson eftir Sautter að Société Générale myndi ekki koma að kaupunum á Landsbankanum sem fjárfestir þar sem það myndi skarast á við ráðgjafarhlutverk þeirra. „Hins vegar hafi sá möguleiki verið ræddur innan bankans að útvega S-hópnum hefðbundna kaupfjármögnun í tengslum við kaupin. Þannig hafi fjármögnunardeild bankans tekið jákvætt í erindið út frá þeim opinberu upplýsingum um Landsbankann sem hefðu verið fulltrúum hans aðgengilegar.“

Tæpum mánuði síðar var bankinn orðinn áhugasamur um að taka þátt í kaupunum á S-hópnum og nefndur sem hluti af S-hópnum í greinargerðinni sem hópurinn skilaði til einkavæðingarnefndar 31. október 2002, að því er fram kemur í ritgerð Heiðars Lind. „Þátttökuna  staðfesti Sautter fyrir hönd bankans í bréfi til Edward Williams, annars ráðgjafa HSBC bankans hjá einkavæðingarnefnd, hinn 4. nóvember. Í bréfinu [sjá meðfylgjandi] sagði Sautter að bankinn væri áhugasamur um að skrifa sig fyrir fjárfestingu með eigin fé samkvæmt þeim forsendum sem komu fram í greinargerð S-hópsins. Að auki nefndi Sautter í bréfinu að ónefndur norrænn banki, sem Société Générale ætti í viðræðum við, hefði mikinn áhuga á að eiga hlutdeild í kaupunum. Société Générale myndi aukinheldur hafa hug á að taka þátt með norræna bankanum í fjárfestingunni yrði sá valkostur ofan á.“

Á endanum fór það samt svo að Société Générale féll frá áformum um að taka þátt í kaupunum á Búnaðarbankanum með S-hópnum. Í ritgerð Heiðars Lind er ástæðan sögð að bankinn hafi orðið undir í samkeppni við franska bankann Crédit Agricole um kaup á franska stórbankanum Crédit Lyonnais. Í ritgerð Heiðars Lind kemur fram að mat stjórnenda bankans hafi verið að það myndi skaða ímynd bankans að ganga á þessum tímapunkti frá kaupum á íslenskum smábanka með svipaða tengingu við landbúnað og Crédit Agricole. „Önnur ástæða sem vó þungt hjá Société Générale í ákvörðun sinni voru stjórnmálalegs eðlis og réði þar mestu að umræða um bankasöluna var orðin einum of pólitísk hér á landi. Ekki vildi bankinn bendla sig við slíka umræðu og segir Guðmundur Hjaltason, sem var mest í tengslum við þá Sautter og [Darpe], að þar hafi bankinn verið markaður af viðlíka umræðu í Frakklandi nokkrum árum áður,“ segir í ritgerð Heiðars.

Skjáskot af greininni Credit where it’s due á vef The Economist.

Hægt er að lesa umfjöllun The Economist um vandræðagang franskra banka sem átti sinn þátt í því að Société Générale hætti við þátttöku í kaupum á Búnaðarbanka Íslands á vef blaðsins, Farmers’ Folly og Credit Where It’s Due.

Þrátt fyrir ákvörðun sína skuldbatt Société Générale sig til að hafa milligöngu um að útvega annan erlendan fjárfesti í sinn stað. Það myndi hins vegar taka tíma og því fóru forsvarsmenn S-hópsins fram á frestun á undirskrift kaupsamnings til 13. janúar 2003, líkt og kemur fram í fundargerð einkavæðingarnefndar 13. desember 2002. „Fram kom að ekki væri hægt að tilkynna um erlendan aðila fyrr en við undirskrift,“ segir í fundargerðinni.

Tilkynnt var um frest í auglýsingu einkavæðingarnefndar í Kauphöllinni 16. desember 2002. Í henni var vísað til þess að áformað hafi verið að ganga frá kaupsamningi fyrir lok ársins og að staðfesta hafi átt aðild einnar eða fleiri erlendra fjármálastofnana að kaupunum í síðasta lagi 13. desember. „Vinnu við áreiðanleikakönnun á Búnaðarbanka, sem endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers ehf. hefur framkvæmt, er því sem næst lokið. Gerð kaupsamnings hefur tekið lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir. Vegna þessa hefur undirskrift kaupsamnings og tilkynningu um þátttöku einnar eða fleiri erlendrar fjármálastofnunar í kaupunum verið frestað fram yfir jól og áramót eða til 21. janúar nk.,“ segir í auglýsingunni.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um Aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði er fjallað um einkavæðingu bankanna og aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupum í Búnaðarbankanum. Á síðu 257 í fyrsta bindi kemur fram að á meðal gagna rannsóknarnefndar liggi fyrir afrit af tölvubréfi dagsettu 13. desember 2002, frá Edward Williams, sem sá um ráðgjöf gagnvart einkavæðingarnefnd fyrir HSBC, til starfsmanns einkavæðingarnefndar. Þar eru fjórir bankar sagðir koma til greina til að fylla skarð Société Générale, en einn þeirra var Hauck & Aufhäuser. Nöfn bankanna koma hins vegar hvergi fram.

Í ritgerð Heiðars Lind Hanssonar kemur fram að S-hópsmenn hafi skömmu eftir áramótin verið upplýstir um að Hauck & Aufhäuser hefði áhuga á að koma að kaupunum, en ákveðið hafi verið af hálfu hópsins að bíða með að tilkynna einkavæðingarnefnd hver bankinn væri þar til þátttaka hans hefði verið endanlega staðfest. Haft er eftir Ólafi Ólafssyni í S-hópnum að reynslan hafi sýnt að flestar upplýsingar sem kæmu til stjórnarráðsins lækju út með einhverjum hætti og fulltrúar S-hópsins hafi óttast að slíkur leki kynni að fæla erlenda fjárfesta frá verkefninu og setja það í enn frekara uppnám. „Við þessu varð einkavæðingarnefnd en fór þó fram á að ráðgjafi sinn hjá HSBC yrði upplýstur um bankann til að meta burði hans til kaupanna og var það gert. Ráðgjafinn taldi bankann góðan fjárfesti og „vel ásættanlegan fyrir íslensk stjórnvöld“ þrátt fyrir að „óveruleg tengsl“ væru á milli hans og annarra aðila í S-hópnum,“ segir í ritgerðinni og vitnað til fundargerðar einkavæðingarnefndar frá 9. janúar 2003.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku Hauck & Aufhäuser í marslok 2017 er jafnframt að finna nánari upplýsingar um aðkomu þýska bankans og hún sögð bara hafa verið að nafninu til. Bankanum  var tryggt skaðleysi af viðskiptunum, en fyrir þátttökuna fékk hann greidda eina milljón evra.

Fjármögnunin á aðkomu þýska bankans á kaupunum í Búnaðarbankanum var í gegn um aflandsfélag, en aðstandendur þess nutu mögulegs ágóða í viðskiptunum, en Kaupþing bar áhættuna vegna fjárfestinarinnar, að því er fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Ágóði skiptist til helminga á milli aflandsfélags í eigu Ólafs Ólafssonar, sem leiddi viðskiptin fyrir hönd S-hópsins og félags sem skýrsluhöfundar töldu líklegt að væri í eigu Kaupþings, líkt og fram kemur í umfjöllun um fundinn.

Stjórnvöld voru svo upplýst um þýska bankann daginn fyrir undirskrift kaupsamningsins, líkt og kom fram viðtali Kastljóss Sjónvarpsins við Valgerði Sverrisdóttur, fyrrverandi viðskiptaráðherra 13. apríl 2010.

Hauck & Aufhäuser kom fram með S-hópnum sem eigandi 50% hlutafjár í Eglu og skráður fyrir um 16,25% hlutar í Búnaðarbankanum. (Sjá tilkynningu til Hagstofu Íslands um stofnun Eglu og samþykktir félagsins frá 10. janúar 2003, umboð þýska bankans til Peters Gatti, framkvæmdastjóra og eins eigenda bankans, frá 14. janúar 2003, kaupsamning Hauck & Aufhäuser í Eglu frá 15. janúar 2003, samkomulag um kostnaðarskiptingu innan S-hópsins frá sama degi, fréttatilkynningu um söluna á kjölfestuhlut í Búnaðarbankanum frá 16. janúar 2003 og fundargerð hluthafafundar Eglu sama dag.)