Var sala Landssímans besta einkavæðingin?

Verklagið við söluna á Landssímanum var að mörgu leyti ákjósanlegt – en verklagið við sölu Búnaðarbankans var það líka.

Fréttablaðið fjallar um sölu Símans vorið 2005.
Umfjöllun Fréttablaðsins um sölu Símans í aprílbyrjun 2005.

Á árunum 1992 til 2007 átti sér stað umfangsmikið einkavæðingarferli, þar sem 35 fyrirtæki voru seld til einkaaðila, ýmist að hluta til eða í heild sinni. Vegna þessa námu tekjur ríkisins á þessu tímabili um 165 milljörðum króna sé miðað við verðlag ársins 2007 þegar ferlinu lauk.

Salan á Landssíma Íslands var stærsta einstaka einkavæðingin. Íslenska ríkið seldi tæplega 99% hlut sinn í félaginu á 66,7 milljarða króna árið 2005 (rúmlega 74 milljarða króna m.v. verðlag 2007). Andvirði Landssímans var því um 45% af öllum tekjum ríkisins í einkavæðingarferlinu á fyrrnefndu tímabili sé miðað við verðlag ársins 2007.

Eðli málsins samkvæmt þróaðist verklagið við einkavæðingu nokkuð með árunum, iðulega til hins betra. Flestir eru sammála um að verklagið sem viðhaft var við sölu Landssímans hafi að allflestu leyti verið ákjósanlegt. Þá hafði myndast ákveðin þekking og reynsla sem ekki var til staðar fyrr í ferlinu, til að mynda við söluna á bönkunum þremur, FBA, Landsbankanum og Búnaðarbankanum.

Í stuttu máli var ferlið við sölu Landssímans þannig að þeir sem lýst höfðu áhuga á því að kaupa félagið voru metnir út frá ýmiss konar þáttum, svo sem fjárhagslegum burðum og getu, hæfni til að reka fyrirtækið, framtíðaráætlunum og fleiru. Bandaríski fjárfestingarbankinn Morgan Stanley var ríkinu til ráðgjafar í ferlinu. Þau félög eða fjárfestingarhópar sem uppfylltu þau skilyrði sem sett voru fengu síðan að bjóða í félagið, það er skila inn bindandi tilboðum. Áður höfðu þeir fengið viðeigandi gögn um félagið, viðtöl við helstu stjórnendur og aðgang að tilboðsgögnum. Gerð voru drög að samningi, hvernig greiðslufyrirkomulagi yrði háttað og svo framvegis. Tilboðsgjafar fengu að gera athugasemdir og úr varð samningur sem allir aðilar máls urðu að lokum sáttir við, söluaðilinn (ríkið) og tilboðsgjafar.

Loks skiluðu bjóðendur tilboða samningnum í lokuðu umslagi til nefndarinnar. Samningarnir voru eðli málsins samkvæmt allir eins nema að bjóðendurnir fylltu sjálfir út töluna sem fól í sér kaupverðið. Fjölmiðlar voru síðan kallaðir til og umslögin opnuð að þeim viðstöddum. Fjárfestingahópur sem bar nafnið Skipti átti hæsta tilboðið og fékk því að kaupa félagið.

Öll markmið með sölunni á Búnaðarbankanum gengu eftir

Það verklag sem notað var við sölu ríkisins á 45,8% hlut sínum í Búnaðarbankanum var vissulega ekki jafn þróað og það verklag sem notað var við söluna á Landssímanum, enda fór sú sala fram tæpum þremur árum fyrr. Þá er eðlilegt að velta þeirri spurningu upp hvort að verklagið við sölu Búnaðarbankans hafi að einhverju leyti verið gallað eða vanþróað. Það er ekki með sanngjörnum rökum hægt að segja að svo hafi verið, þó vissulega megi halda því fram að verklagið við söluna á Landssímanum hafi verið betra.

Til að skoða það nánar má velta því upp hvort að markmið með sölunni á Búnaðarbankanum hafi gengið eftir. Þau gerðu það að öllu leyti. Til að stikla á stóru má rifja upp eftirfarandi;

  • Einn tilgangur einkavæðingar Búnaðarbankans var að afla ríkinu tekna. Það gekk eftir, ríkið fékk allt sitt greitt og söluverð Búnaðarbankans gaf réttmæta mynd af virði bankans og gott betur.
  • Bankinn var seldur hæstbjóðenda, sem er ekki síður mikilvægt þegar hagsmunir seljandans (ríkisins) eru hafðir í huga.
  • Annar tilgangur var að minnka áhrif og völd stjórnmálamanna í atvinnulífinu. Það gekk eftir, í það minnsta hvað Búnaðarbankann varðar, þó svo að salan á Landsbankanum hafi misheppnast vegna pólitískra inngripa á síðustu stundu.
  • Ráðgjafi ríkisins í söluferlinu (breski bankinn HSBC) mat S-hópinn svokallaða hæfari en fjárfestingarhópinn Kaldbak sem einnig gerði tilboð í bankann. Sérstaklega var tekið fram að hæfi S-hópsins væri óháð því hvort að erlendur aðili yrði þátttakandi í kaupunum eða ekki.

Í stuttu máli; Búnaðarbankinn var seldur þeim sem hvort í senn voru metnir hæfastir og buðu hæsta verðið í bankann, hópi sem uppfyllti öll skilyrði þess að fara með eignarhlut í bankanum og stóð við alla samninga um greiðslur. Að halda öðru fram er ósanngjarnt og að baki slíkum fullyrðingum hljóta að liggja annarleg sjónarmið. Hér á þessari síðu hefur nokkrum sinnum verið farið yfir annarleg sjónarmið hinnar svokölluðu rannsóknarnefndar Alþingis, sem skipuð var einum manni, og skilaði skýrslu um meinta rannsókn sína á sölunni fyrr á þessu ári. Lesa má nánar um það hér og hér.

Staðreyndirnar sem hér var fjallað um tala þó sínu máli. Aftur á móti má með málefnalegum hætti halda því fram að ríkið geti lært af einkavæðingarferli síðustu ára, líkt og Ólafur Ólafsson hefur bent á, til dæmis hér og hér.