„Við buðum hæsta verð“

S-hópurinn bauð hæsta verðið í hlut ríkisins í Búnaðarbankanum

Landsbanki Íslands Austurstræti Reykjavík Ísland
S-hópurinn átti hæsta boð í Búnaðarbankann, ólíkt því sem gerðist þegar Landsbankinn var seldur Samson.

Á fundi Ólafs Ólafssonar með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis um miðjan maí sl. var Ólafur m.a. spurður um aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser þegar ríkið seldi um 46% hlut sinn í Búnaðarbankanum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þingmaður og varaformaður Framsóknarflokksins, spurði Ólaf ítarlega út í aðkomu bankans og hverjir hefðu notið fjárhagslegs ávinnings af viðskiptunum.

Ólafur rifjaði upp það sem áður hafði komið fram í ávarpi hans (sem birt var hér á síðunni), að Hauck & Aufhäuser hafi verið hluthafi í Eglu hf., að bankinn hefði skráð sig fyrir og greitt inn allt sitt hlutafé, að bankastjóri þýska bankans, Peter Gatti, hafi tekið sæti í stjórn Eglu og að bankinn hafi þannig tekið þátt í ákvarðanatöku og störfum Eglu. Þá sagði Ólafur jafnframt að sem hluthafi í Eglu hafi þýski bankinn borið réttindi og skyldur samkvæmt íslenskum lögum gagnvart Eglu, hann hafi átt rétt til arðs og farið með atkvæðisrétt í samræmi við hlutafjáreign sína.

Það liggur enginn vafi á því að Hauck & Aufhäuser var raunverulegur hluthafi í Eglu hf. og aðkoma hans að kaupum S-hópsins í Búnaðarbankanum var því raunveruleg en ekki til málamynda eins og haldið hefur verið fram.

Lilja Dögg benti í máli sínu á að S-hópurinn hefði haft hlutfallslega yfirburði yfir aðra (sem lýst höfðu áhuga á því að kaupa hlut í Búnaðarbankanum) með því að segjast hafa erlendan aðila með í hópnum.

„..Við buðum hæsta verð […] sem nokkur hafði boðið í bankann, í öllum eðlilegum viðskiptum skiptir það máli,“ svaraði Ólafur að bragði. Þetta er lykilatriði þegar fjallað er um sölu ríkisins á hlut sínum í Búnaðarbankanum; þ.e. hluturinn var seldur hæstbjóðenda ólíkt því sem gerðist með söluna á Landsbankanum árið áður.

Lilja Dögg spurði í framhaldinu hvort að þýski bankinn hefði notið fjárhagslegs ávinnings af viðskiptunum. Fram kom í máli Ólafs að bankinn hefði fengið í sinn hlut um eina milljón evra, eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það var í samræmi við samninga sem bankinn hafði áður gert. Síðar gerði bankinn samning við Kaupþing um fjármögnun, takmörkun á áhættu og fl. Þeir samningar voru á forræði og ábyrgð Kaupþings og Hauck & Aufhäuser.