Auglýst var eftir áhugasömum fjárfestum

S-hópurinn skiluðu inn yfirlýsingu um áhuga á kaupum í annað hvort Landsbanka eða Búnaðarbanka sama dag og tilskilinn frestur einkavæðingarnefndar rann út

auglýsing einkavæðingarnefnd Björgólfur Thor Björgólfsson Magnús Þorsteinsson Björgólfur Guðmundsson Samson S-hópur Kaldbakur
Auglýsing einkavæðingarnefndar þar sem fram kemur hvaða hópar fjárfesta hafi lýst áhuga sínum á viðræðum um kaup á kjölfestuhlut í annað hvort Landsbanka Íslands eða Búnaðarbanka Íslands.

Þegar kom að sölu stjórnvalda á kjölfestuhlut í annað hvort Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands skilaði S-hópurinn inn þátttökutilkynningu 25. júlí 2002, sama dag rann út fresturinn sem einkavæðingarnefnd hafði gefið fjárfestum til að gefa sig fram. S-hópurinn lýsti sig reiðubúinn að kaupa að minnsta kosti 25% hlut í öðrum hvorum bankanum. Kaupverð skyldi vera markaðsverð hlutanna þann daginn auk „hæfilegs álags með hliðsjón af því hversu stór hluti verður seldur“. Kaupin kvaðst hópurinn ætla að fjármagna með eigin fé, sölu eigna og lántöku.

Við tóku viðræður einkavæðingarnefndar við fjárfestahópana þrjá sem fyrir valinu urðu. Á fundi einkavæðingarnefndar með hópunum 28. ágúst 2002 kom fram á fundinum með fulltrúum S-hópsins að tveir erlendir bankar hefðu sýnt áhuga á að koma að málum, annað hvort sem ráðgjafar eða fjárfestar. „Spurt hvort það breyti stöðu hópsins ef breytingar verða á skipan hópsins með þeim hætti. ÓD [Ólafur Davíðsson, formaður nefndarinnar] sagði svo ekki vera. Frekar væri gefinn plús fyrir erlenda peninga, eins og það var orðað,“ segir í fundargerðinni.

Í fundargerð einkavæðingarnefndar frá 9. september 2002 kemur fram að ákveðið hafi verið að velja Samson til áframhaldandi viðræðna um kaup á Landsbankanum og tilkynna Kaldbaki og S-hópnum bréflega um það. Um leið er rætt um að hefja undirbúning á sölu Búnaðarbankans í samræmi við ákvörðun ráðherranefndar um einkavæðingu. Samson fékk hæsta einkunn í samanburði HSBC á tilboðum hópanna þriggja, en samanburðurinn og einkunnagjöfin er birt í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna. Samson fékk 70 til 75 stig (af 100), á meðan einkunn S-hópsins var 66 stig og Kaldbaks 61.

21. október 2002, tæpum tveimur mánuðum eftir að formlegar viðræður stjórnvalda og Samson um Landsbankann hófust, komst sala kjölfestuhlutar í Búnaðarbankanum aftur á dagskrá. Skipan S-hópsins hafði breyst lítillega en inn í hópinn bættist tryggingafélagið VÍS. „Þar sem S-hópurinn og Kaldbakur voru einu hóparnir sem stóðu eftir í söluferlinu var þeim boðið að gera tilboð í hlutinn sem þeir og gerðu,“ segir í áður óbirtri ritgerð Heiðars Lind Hanssonar, Aðeins meira um einkavæðingu Búnaðarbankans.

Sama fyrirkomulag var á ferlinu og áður og hópunum, S-hópnum og Kaldbaki, gert að gera grein fyrir fjármögnun kaupanna, mögulegu kaupverði og stærð eignarhlutar, framtíðarsýn og reynslu sinni af fjármálamörkuðum. Greinargerðum skiluðu hóparnir fyrir tilsettan frest 31. október.

Samanburð og einkunnagjöf á tilboðum hópanna er að finna í áliti HSBC, ráðgjafa stjórnvalda, frá 4. nóvember 2002. Þar kemur fram að tilboð S-hópsins þyki álitlegra, jafnvel þótt á endanum yrði ekki með í hópnum erlendur banki, líkt og þó væri stefnt að. S-hópurinn fékk 66-74 stig af 100 mögulegum hjá HSBC, en Kaldbakur 64 stig.

Þrír lykilþættir voru taldir ráða niðurstöðunni að mati HSBC. Aðkoma erlends fjárfestis (á þessum tíma var Société Générale í myndinni) var sögð styrkja S-hópinn, sem þó væri hæfari jafnvel þótt erlend fjármálastofnun yrði ekki með í honum. S-hópurinn bauð hærra verð fyrir hvern hlut og svo var skipulag hópsins með stofnun sérstaks eignarhaldsfélags um hina keyptu hluti talið mæta betur kröfum stjórnvalda um meðferð kjölfestuhlutarins. (Sjá hluthafasamkomulag S-hópsins eins og frá því var á endanum gengið, ásamt samkomulagi hópsins um skiptingu kostnaðar.)