Vísvitandi rangfærslur RNA

Öll aðkoma dómstóla að rannsókn á sölu Búnaðarbankans var að frumkvæði Ólafs Ólafssonar

Ólafur Ólafsson þingmenn stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingi
Á fundinum þar sem Ólafur Ólafsson svaraði spurningum þingmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. (Skjáskot/RÚV)

Því er ranglega haldið fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um sölu ríkisins á hlut sínum í Búnaðarbankanum, að Ólafur Ólafsson hafi neitað að mæta fyrir nefndina þegar eftir því var óskað. Hið rétta er að Ólafur óskaði sjálfur eftir því að gefa skýrslu fyrir dómi við rannsóknina, eins og fjallað er um HÉR.

Þessi rangfærsla, sem virðist vera vísvitandi sett fram af skýrsluhöfundum, var m.a. til umræðu á fundir Ólafs með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis um miðjan maí sl. Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG og einn nefndarmanna sagði á fundinum að henni fyndist skorta skýringar á því af hverju Ólafur hefði neitað „ítrekað“ að koma fyrir hina skipuðu rannsóknarnefnd. Þá sagði Svandís, ranglega, að það  hefði þurft að leita dómsúrskurðar til að fá Ólaf til að svara spurningum nefndarinnar.

Ólafur leiðrétti þetta og rifjaði upp, það sem áður hefur komið fram, að þann 21. nóvember sl. sendi hann tölvupóst til Kjartans Bjarna Björgvinssonar, formanns nefndarinnar, þar sem m.a. kom fram að hann óskaði eftir því að verða boðaður fyrir héraðsdóm til að gefa skýrslu.

„Það var […] mín eigin ósk um að gera það,“ sagði Ólafur á fundinum og bætti við: „Daginn eftir, sendi hann erindið til héraðsdóms og óskaði eftir að ég yrði kallaður fyrir, að minni beiðni, og ég mætti. Ég mætti. Þannig að ég neitaði ekki að mæta. Þetta er lykilatriði.“

Áður hafði Ólafur þó látið reyna á það fyrir dómi hvort nefndin hefði verið skipuð af réttmætu tilefni. Það á sér eðlilegar skýringar, enda mikilvægt að fá úr því skorið fyrir dómstólum, og hafði ekkert með það að gera hvort spurningum nefndarinnar yrði svarað eða ekki. Ein af meginröksemdum Ólafs var að raunverulegt rannsóknarefni væru gjörðir einkaaðila í viðskiptum, en ekki meðferð opinbers valds. Alþingi hefur aftur á móti eftirlit með meðferð opinbers valds, en eftirlit með gjörðum einstaklinga er í höndum annarra stofnana ríkisins.

Dómstólar féllust á þessa lagalegu greiningu hvað varðar eftirlitsheimildir Alþingis. Hæstiréttur taldi þó að skipan rannsóknarnefndarinnar væri réttmæt þannig að skýrsla hennar gæti orðið grundvöllur lærdóms stjórnvalda fyrir framtíðina.

Aftur hafði það ekkert að gera með vilja Ólafs til að svara spurningum nefndarinnar. Eftir að hafa sjálfur óskað eftir því að gefa skýrslu fyrir dómi mætti Ólafur og svaraði spurningum nefndarinnar eftir bestu getu. Þannig er rétt að halda því til haga að öll aðkoma dómstóla að þessu máli var að frumkvæði Ólafs, fyrst þegar hann rak mál til að fá úr því skorið hvort að skipan nefndarinnar væri lögum samkvæmt og síðan til að gefa skýrslu.