Að samrunum var stefnt

Samruni þurfti samþykki tveggja þriðju hluthafa beggja banka auk blessunar Fjármálaeftirlitsins

Viðskiptablaðið frétt Kaupþing í sigtinu Ólafur Ólafsson Ker Jón Helgi Guðmundsson Byko
Umfjöllun Viðskiptablaðsins 15. janúar 2003.

Í tengslum við einkavæðingarferli Búnaðarbankans 2003 hefur í gegn um tíðina verið haldið á lofti kenningum um að fyrir fram hafi verið búið að ganga frá leynilegu samkomulagi um samruna Búnaðarbankans og fjárfestingabankans Kaupþings. Samruninn gekk í gegn tæpu hálfu ári eftir að stjórnvöld seldu kjölfestuhlutinn í Búnaðarbankanum.

Vafasamt verður hins vegar að teljast að slíkt hefði verið hægt að fastnegla fyrirfram í ljósi þess að til að af samruna gæti orðið þurfti samþykki að minnsta kosti tveggja þriðju á hluthafafundi Kaupþings, auk samsvarandi samþykkis Búnaðarbankamegin. Við bætist svo að samþykki Fjármálaeftirlitsins þurfti fyrir samrunanum.

Um leið er vitað að leynt og ljóst hafði verið stefnt og unnið að auknum samruna á íslenskum fjármálamarkaði, svo sem með tilraun til að sameina Búnaðarbankann og Landsbankann, en þeim samruna hafnaði Samkeppnisráð árið 2000. Þá kemur fram í ritgerð Heiðars Linds Hanssonar, Aðeins meira um einkavæðingu Búnaðarbankans, að þreifingar hafi átt sér stað um mögulegan samruna Kaupþings við bæði Landsbankann og Búnaðarbankann, eftir söluna á kjölfestuhlut í bönkunum í ársbyrjun 2003 til Samsonar annars vegar og S-hópsins hins vegar.

„Forsvarsmenn Kaupþings biðu ekki boðana eftir að nýir eigendur höfðu tekið við stjórnartaumunum í Búnaðarbankanum og sendu ósk um samrunaviðræður einungis fáeinum dögum eftir aðalfund Búnaðarbankans hinn 22. mars 2003, en þá tók S-hópurinn við stjórnartaumunum í bankanum. Fram að þessu höfðu þreifingar átt sér stað með óformlegum hætti um mögulega bankasamruna á Íslandi og má sjá af heimildum að þar ræddust við stjórnendur stærstu íslensku bankanna: Landsbankans, Búnaðarbankans, Íslandsbanka og Kaupþings,“ segir í ritgerðinni.

„Úrskurðir samkeppnisyfirvalda höfðu markað hvaða sameiningarkostir voru í raun og veru í boði og voru þeir tveir, annars vegar samruni Kaupþings og Landsbankans og hins vegar samruna Kaupþings og Búnaðarbankans – samruni viðskiptabanka og fjárfestingabanka.“

Vegna þessa var Kaupþing í lykilstöðu þegar kom að samruna og gárungar í fjármálaheiminum vísuðu á þessum tíma til bankans sem „vinsælustu stelpunnar í bænum“ líkt og kemur fram í umfjöllun Viðskiptablaðsins um miðjan janúar 2003 og Fréttablaðsins undir lok mánaðarins.

„Að endingu kusu forsvarsmenn Kaupþings að freista þess að ganga í eina sæng með Búnaðarbankanum og réði þar mestu hvort að nýir eigendur Búnaðarbankans myndu sætta sig við þá grundvallarforsendu að stjórnendur Kaupþings yrðu ráðandi aðilinn í stjórn sameinaðs banka. Slíkt var úrslitaatriði frá sjónarhóli Kaupþings og á það féllst S-hópurinn í snörpum viðræðum sem fóru fram snemma vors 2003,“ segir í ritgerð Heiðars Lind.

Viðbót 31. mars 2017: Þótt ekki hafi verið hægt að fastnegla samruna Búnaðarbankans og Kaupþings fyrirfram þá kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu Hauck & Aufhäuser að Kaupþings fjármagnaði kaupin á hlut þýska bankans.