Aðdragandinn að sölu kjölfestuhlutar í bönkunum

Hlutverk og markmið einkavæðingarnefndar var skýrt í erindisbréfi

fáni sáðmaður Búnaðarbankinn
Sáðmaðurinn var einkennandi í merki Búnaðarbanka Íslands.

Í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 23. apríl 1995 er kveðið á um að leggja eigi fram áætlun um einkavæðingu á kjörtímabilinu. Í stjórnarsáttmála sömu flokka eftir kosningarnar 1999 er meiri mynd komin á stefnuna og eitt meginmarkmiða ríkisstjórnarinnar sagt að: „Að halda áfram einkavæðingu ríkisfyrirtækja, einkum þeirra sem eru í samkeppni við fyrirtæki í eigu einkaaðila. Hlutabréf í ríkisbönkunum verði seld með það að markmiði að ná fram hagræðingu á fjármagnsmarkaði en tryggja um leið virka samkeppni á markaðnum til að ná fram ódýrari þjónustu. Við söluna verði þess gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum. Hafinn verði undirbúningur að sölu Landssímans. Við sölu hans verði þess gætt að tryggja góða þjónustu á sem hagstæðustu verði við byggðir landsins og einnig að tryggja virka samkeppni á fjarskiptamarkaði. Stefnumörkun á sviði einkavæðingar fari fram í ráðherranefnd um einkavæðingu en undirbúningur og framkvæmd verkefna á þessu sviði verði í höndum framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Áður en sala einstakra ríkisfyrirtækja hefst verði lögð fram í ríkisstjórn áætlun um tímasetningu, fyrirkomulag og ráðstöfun andvirðis af sölu þeirra. Tekjunum verði varið til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, til að fjármagna sérstök verkefni í samgöngumálum og til að efla upplýsingasamfélagið.“

Sjá einnig erindisbréf framkvæmdanefndar um einkavæðingu frá því í febrúar 1996 og verklagsreglur um útboð og sölu ríkisfyrirtækja sem ríkisstjórnin samþykkti 9. febrúar sama ár.

Í mars 1997 var svo lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um stofnun hlutafélaga um Landsbankann og Búnaðarbankann og þeir svo í kjölfarið skráðir í Kauphöllina. 30. nóvember 1999 er lagt fram stjórnarfrumvarp um sölu á 15% hlut í Landsbankanum og Búnaðarbankanum í opnu útboði, en 15% í hvorum banka höfðu verið seld árinu áður.

Eftir söluna átti ríkið um 71% í hvorum banka. Sá hlutur átti eftir að færast niður fyrir 70 prósent í báðum bönkum í tengslum við hlutafjáraukningu hjá hvorum um sig, annars vegar vegna kaupa Landsbankans á Heritable Bank í Bretlandi og svo vegna stofnunar dótturfélags Búnaðarbankans í Lúxemborg (þá höfðu líka eignarleigufélagið Lýsing og fjárfestingafélagið Gilding sameinast Búnaðarbankanum).

Fimmta mars 2001 var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um sölu á hlut ríkisins í bönkunum tveimur og samþykkt sem lög 18. maí sama ár.

Upplýsingar um hlutverk og markmið einkavæðingarnefndar (framkvæmdanefndar um einkavæðingu, FNE) er að finna í verklagsreglum sem ríkisstjórnin samþykkti 9. febrúar 1996 og minnst er á hér að ofan, sem og í erindisbréfi nefndarinnar. Þá er að finna í auglýsingu eftir fjárfestum til viðræðna að finna frekari markmið um að efla bankana og samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði.

Fram kemur að yfirstjórn einkavæðingar sé í höndum ríkisstjórnar og fjögurra manna ráðherranefndar á hennar vegum. Framkvæmdanefndin fær hins vegar allnokkurt frelsi við mat á hvaða leið verður fyrir valinu hverju sinni (sjá 5. grein verklagsreglnanna), svo sem um hvort fram fari útboð eða leitað tilboða, líkt og raunin varð við söluna á bróðurparti hlutafjár Landsbankans og Búnaðarbankans.

Fjallað er um söluna sjálfa í 6. grein verklagsreglnanna og þar tekið fram að taka skuli því tilboði sem „gefi öruggustu greiðslurnar og hæst staðgreiðsluverðið“ þó að teknu tilliti til ákvæða 8. greinar þar sem tiltekin er heimild til að setja hámark á hlutafjárkaup hvers aðila til að dreifa eignarhaldi. Þá sé heimilt að hafna tilboðum ef sala til viðkomandi er líkleg til að draga úr virkri samkeppni á viðkomandi markaði, eða er líkleg til að skaða viðkomandi atvinnugrein.

Þá er jafnframt, í inngangi frumvarps til laga um breytingu á lögum nr.50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, með síðari breytingum, vísað til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 28. maí 1999 um að „hlutabréf í ríkisbönkunum verði seld með það að markmiði að ná fram hagræðingu á fjármagnsmarkaði en tryggja um leið virka samkeppni á markaðnum til að ná fram ódýrari þjónustu. Við söluna verði þess gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum.“

Í auglýsingu einkavæðingarnefndar á vef Kauphallar Íslands 10. júlí 2002 vegna einkavæðingar Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands er jafnframt tekið fram að leitað sé eftir „fjárfesti, innlendum eða erlendum, með það að markmiði að efla bankann og samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði“.

Samandregið mætti því segja að hlutverk einkavæðingarnefndar og markmið við sölu bankanna hafi verið að selja bankana á sem hæstu verði, en tryggja um leið aukna hagræðingu og virka samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði.