Aðeins meira um einkavæðinguna

Ritgerð: Aðeins meira um einkavæðingu Búnaðarbankans. Höfundur: Heiðar Lind Hansson
Heiðar Lind Hansson sagnfræðingur hefur skrifað ítarlega ritgerð um einkavæðingu Búnaðarbankans.

Ritgerð Heiðars Lind Hanssonar sagnfræðings, Aðeins meira um einkavæðingu Búnaðarbankans, er í fyrsta sinn birt opinberlega hér á vefnum Söluferli.is. Áður hafði hún verið send þingmönnum og völdum fjölmiðlum, en ritgerðin var unnin á árunum 2012 til 2014 að því er fram kemur í inngangi Heiðars Lind. Ritgerðina er hægt að nálgast hér.

Heiðar segir að rekja megi aðdragandann að gerð ritgerðarinnar til ársins 2011 þegar hann óskaði fyrst eftir aðgangi að gögnum S-hópsins sem snertu kaup hans á kjölfestuhlut í Búnaðarbankanum. Þetta var liður í stærri gagnaöflun um aðdraganda bankahrunsins 2008 og þróun íslensks viðskiptalífs eftir 1980 sem ég hef haft áhuga á að skoða, einkum eftir að hrunið dundi yfir,“ segir hann í innganginum.

Útgáfa skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis árið 2010 hafi ýtt við honum varðandi skrif um einkavæðinguna sem og umfjallanir sem birst hafi um málið undanfarin ár. „Einkavæðingin verðskuldar nánari skoðun, en eins og rakið er í ritgerðinni vantaði vitnisburð og gögn frá S-hópnum sjálfum í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem og í þeim skrifum sem birst hafa um hana.“

Heiðar Lind fékk árið 2012 aðgang að gögnum frá S-hópnum og hóf um leið frekari gagnaöflun, meðal annars úr gagnasafni framkvæmdanefndar um einkavæðingu í forsætisráðuneytinu.

Upphaflega segist hann hafa ætlað rannsókn sína til birtingar á fræðilegum vettvangi, eða sem kafla í bók um þróun íslensks viðskiptalífs eftir 1980. „Ekki vannst hins vegar tími til að búa efnið til slíkrar birtingar sökum anna, en ég hef unnið að því meðfram vinnu,“ segir Heiðar. Því hafi hann þekkst boð um að fá ritgerðina birta á vefnum Söluferli.is, með öðrum gögnum um einkavæðingu Búnaðarbankans.

Viðbót 31.3.2017: Rétt er að taka fram að ritgerð Heiðars Lind er unnin áður en Umboðsmaður Alþingis fær ábendingu um að til kunni að vera gögn sem varpi nýju ljósi á aðkomu Hauck & Aufhäuser að sölu 45,8% hlutar í Búnaðarbankanum í ársbyrjun 2003. Í kynningu á skýrslu Rannsóknarnefndarinnar kom fram að nefndin hefði fengið aðgang að nýjum gögnum sem hvergi hefðu komið fram eða verið aðgengileg áður, svo sem við fyrri rannsóknir Ríkisendurskoðunar á aðkomu þýska bankans.