Alþingi skipar rannsóknarnefnd

Alþingi Austurvöllur Reykjavík Ísland logo Búnaðarbanki Íslands samsett mynd
Alþingi samþykkti í júníbyrjun 2016 þingsályktun um rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% hlut í Búnaðarbanka Íslands. Í kjölfarið var Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari skipaður til að stýra rannsókninni.

Í kjölfarið á bréfaskriftum umboðsmanns til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis 19. maí 2016 var samþykkt þingsályktunartillaga um rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf.

Í bréfinu greindi umboðsmaður nefndinni frá því að honum hefðu borist upplýsingar og ábendingar um hvernig leiða mætti í ljós hver hefði í raun verið þátttaka þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á eignarhluta íslenska ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. á árinu 2003, með aðild hans að Eglu hf. „Þessum upplýsingum var komið til mín undir þeim formerkjum að ég gætti trúnaðar um uppruna þeirra,“ sagði hann jafnframt.

Í þingsályktuninni er tilgangurinn sagður að leiða í ljós hver hafi í raun verið þátttaka þýska bankans í kaupunum „og jafnframt að skapa grundvöll fyrir nánari afmörkun á ályktun Alþingis frá 7. nóvember 2012, um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., sbr. ákvæði laga um rannsóknarnefndir með síðari breytingum.“

Rétt rúmum mánuði eftir samþykkt þingsályktunartillögunnar, 7. júlí 2016, skipaði forseti Alþingis á þeim tíma, Einar K. Guðfinnsson, að höfðu samráði við stjórnskipunar og eftirlitsnefnd þingsins, Kjartan Bjarna Björgvinsson héraðsdómara til að stýra rannsókninni og var ætlað að henni lyki fyrir árslok.

„Á grundvelli niðurstöðu rannsóknarinnar og að lokinni yfirferð sinni mun stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leggja mat á hvort hún geri tillögu um frekari rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., sbr. fyrrgreinda ályktun frá 7. nóvember 2012 þar um,“ segir jafnframt í tilkynningu Alþingis um skipan Kjartans Bjarna.

Ellefta nóvember skrifar Kjartan Bjarni vitnum svo boðunarbréf í skýrslutöku sem fara átti fram fimm dögum síðar. Í bréfinu er tekið fram að nefndin geti óskað þess að héraðsdómari kveði þá fyrir dóm til að bera vitni, kjósi menn að verða ekki við boðuninni. Um leið er vísað til þess að lagaákvæði sem tryggja vitnum lögfræðiráðgjöf, vitneskju um rannsóknarefni og spurningar eða andmælarétt eigi ekki við um skýrslutökuna.

Ólafur Ólafsson, sem leiddi kaup S-hópsins á Búnaðarbankanum á sínum tíma, sætti sig ekki við málatilbúnað og umgjörð rannsóknarinnar og fór fram á að skorið yrði úr um hvort virða mætti með þessum hætti að vettugi réttindi vitna og þá sér í lagi með tilliti til vitneskju um þá þætti sem væru til rannsóknar og eins andmælarétt.

Kom málið til kasta dómstóla eftir að Kjartan Bjarni Björgvinsson rannsóknardómari og forseti Alþingis túlkuðu heimild vitna til að styðjast við lögfræðiráðgjöf í skýrslutökunni með sitthvorum hætti.

Ljós var orðið að rannsókninni myndi ekki ljúka innan settra tímamarka og á Alþingi kom 12. desember 2012 fram þingsályktun um að starf rannsóknarnefndarinnar myndi tefjist fram yfir áramót vegna þess að vitni hafi hafnað, eða ekki sinnt því að koma til skýrslutöku hjá nefndinni.

Lyktir urðu þær að Ólafur bar vitni fyrir dómi 30. janúar 2017 og svaraði spurningum. Í tilkynningu eftir yfirheyrsluna rifjaði Ólafur upp að stofnað hafi verið til rannsóknarinnar á þátttöku þýska bankans með vísan til nýrra gagna. „Því vekur það furðu að rannsóknin virðist hafa tekið á sig mynd blaðaúrklippurannsóknar þar sem spurt er út í afstöðu mína til fréttaskrifa fyrir meira en tíu árum. Engin ný gögn voru lögð á borðið eins og boðað var,“ sagði hann.

Eftir að vitnaleiðslum lauk fékk hluti vina sendar frekari spurningar í ljósi gagna sem bentu til þess að hlutur Hauck og Aufhäuser í Eglu hf. hafi verið fjármagnaður í gegnum aflandsfélag á vegum Kaupþings. Þeim spurningum svaraði Ólafur Ólafsson með bréfi dagsettu 20. mars 2017 og áréttaði í svari sínu að S-hópurinn hefði boðið hæsta verðið í hlutaféð í Búnaðarbankanum og að ríkið hafi fengið kaupverðið að fullu greitt. „Tilboð S–hópsins var umtalsvert hærra en annarra,“ segir þar um leið og minnt er á að ekki hafi verið áskilið að erlendir aðilar kæmu að viðskiptunum, þótt vilji forsvarsmanna S-hópsins hafi staðið til þess.

„Eftir því sem undirritaður kemst næst annaðist Michael Sautter [innsk. starfsmaður Société Générale og ráðgjafi S-hópsins] öll samskipti fyrir hönd Hauck & Aufhäuser gagnvart Kaupþingi. Undirritaður tók ekki þátt í samningaviðræðum þeim sem lýst er í bréfi nefndarinnar og enginn fulltrúi á mínum vegum var aðili að þeim. Ég hafði ekkert innlegg í samningaviðræðurnar og hef ekki séð þá samninga sem samningsaðilar gengu frá sín á milli,“ sagði Ólafur í svari sínu til Rannsóknarnefndarinnar.

Viðbót: Niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar eru gerð skil í sérfærslu hér á vefnum, bæði með frétt og umfjöllun undir liðnum Eftirmál. Henni er, líkt og segir hér að framan, ætlað, auk þess að varpa ljósi á þátt Hauck & Aufhäuser, að skapa grundvöll fyrir nánari afmörkun á ályktun Alþingis frá 7. nóvember 2012, um rannsókn á einkavæðingu bankanna upp úr aldamótunum síðustu.