Ekkert kom út úr fyrri rannsóknum

Aðkoma þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser hefur verið margrannsökuð

Peter Gatti Búnaðarbankinn H&A
Forsíða Markaðarins þar sem rætt var við Peter Gatti framkvæmdastjóra Hauck & Aufhäuser.

Eftir að Hauck & Aufhäuser hvarf að fullu úr eigendahópi Eglu og þar með Kaupþings Búnaðarbanka sumarið 2005 kom fram gagnrýni sem gat af sér frekari rannsókn. Vilhjálmur Bjarnason, þá aðjúnkt við Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta, sagði við fjölmiðla að eignar þýska bankans í Búnaðarbankanum hefði átt að vera getið í ársskýrslum bankans. Bankinn hafi aldrei tekið þátt í kaupunum.

Samdægurs sendi Hauck & Aufhäuser frá sér yfirlýsingu þar sem þessum staðhæfingum var vísað á bug. Þar kemur fram að eignarhlutur bankans í Eglu/Búnaðarbankanum hafi verið færður í bækur bankans.

Hálfu ári síðar kom Vilhjálmur fram í sjónvarpsþættinum Silfri Egils með frekari gögn, þrjár síður úr skráningarlýsingu Eglu vegna skuldabréfaútgáfu fyrir árið 2005, ársreikning Hauck & Aufhäuser fyrir árið 2003 og yfirlýsingu bankans. Þessum gögnum ásamt glærum sem hann studdist við í þættinum kom hann á framfæri við Ríkisendurskoðun, sem í kjölfarið vann samantekt sem send var til formanns fjárlaganefndar Alþingis.

Niðurstaða Ríkisendurskoðunar var að ekkert gæfi tilefni til að að gagnrýni Vilhjálms ætti við rök að styðjast. Á meðal gagna sem Ríkisendurskoðun aflaði eru staðfesting frá Hauck & Aufhäuser á því að bankinn hafi átt hlut í Eglu og staðfesting frá KPMG endurskoðunarfyrirtæki bankans í þýskalandi um að bankinn hafi fært eign sína í Eglu í bækur sínar.

Að mati Ríkisendurskoðunar var þýski bankinn eigandi bréfa sinna í Eglu, líkt og raunar hafði verið komist að í athugun Fjármálaeftirlitsins tveimur áður áður. (Sjá álit Stefáns Svavarssonar endurskoðanda til Ríkisendurskoðunar, samantekt Ríkisendurskoðunar til fjárlaganefndar og skrár með fylgiskjölum, skipt í tvennt, hér og hér.) Þá er í samantekt Ríkisendurskoðunar jafnframt vísað til minnisblaðs stofnunarinnar til fjárlaganefndar frá því í júní 2005, sem sett var saman í kjölfar fundar Ríkisendurskoðunar með nefndinni.

Þá vísaði Peter Gatti, framkvæmdastjóri hjá Hauck & Aufhäuser, því á bug, í viðtali við Markaðinn, viðskiptarit Fréttablaðsins 22. febrúar 2006, að bankinn hafi ekki verið raunverulegur kaupandi við einkavæðingu Búnaðarbankans.

Ekki segir svo frekar af rannsóknum á einkavæðingu Búnaðarbankans eða aðkomu Hauck & Aufhäuser fyrr en kemur að skipan Rannsóknarnefndar Alþingis 2016 vegna nýrra upplýsinga um fjármögnun þýska einkabankans á kaupunum á hlut sínum. Þeirri rannsókn lauk með útgáfu skýrslu 29. mars 2017 þar sem kom í ljós að samningar, sem farið höfðu leynt, voru um aðkomu Hauck & Aufhäuser og fjármögnunina á þeim hluta kaupanna í Búnaðarbankanum sem fram fóru í nafni þýska bankans.

Tafla úr MS ritgerð Kristínar Erlu Jónsdóttur.

Þá hefur nokkuð verið fjallað um hvernig til tókst við einkavæðingu ríkisins á bönkunum og þar fjallað um það verð sem fékkst fyrir hlut ríkisins við söluna á kjölfestuhlutnum í þeim.

Í ársskýrslu Bankasýslu ríkisins 2012 er til að mynda kafli um söluna þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að með tilliti til eigin fjár hafi endanlegt kaupverð verið í samræmi við verð banka bæði á Norðurlöndum og í Evrópu.

En í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í árslok 2003 er látið að því liggja að verðið hafi verið í lægra lagi við söluna á Búnaðarbankanum. „Almenn viðhorf eru þau að sala á ráðandi hlut í fyrirtæki sé á hærra gengi en á markaði. Kaupendur greiddu óverulega hærra verð en gengið var á markaðnum. Gengið á markaðnum var um 4,7 í nóvember 2002 þegar samið var um gengið 4,8,“ segir þar á síðu 73.

Um söluverð Landsbankans og Búnaðarbankans við einkavæðingu þeirra er einnig fjallað í meistararitgerð Kristínar Erlu Jónsdóttur frá því í júní 2013 en þar er niðurstaða virðismats og úr kennitölusamanburðar að söluvirði bankananna hafi verið innan verðmarka. „Því má túlka niðurstöður þannig að miðað við gefnar forsendur voru bankarnir einkavæddir á réttmætu verði í árslok 2002,“ segir þar. „Hins vegar þegar litið er til aðstæðna á fjármálamörkuðum á þessu tímabili má velta því fyrir sér hvort salan hafi farið fram á réttum tíma og hvort rétt hafi verið staðið að henni varðandi val á kaupendum.“