Og hvað svo?

Fjallað um fréttir af áframhaldandi rannsókn á einkavæðingu bankanna

Samsett mynd af umfjöllun á vef Ríkisútvarpsins og í tölublaði Stundarinnar.
Umfjöllun RÚV og Stundarinnar um áframhaldandi rannsókn á einkavæðingu bankanna.

Í ljósi þess að tilgangur rannsóknar á einkavæðingu bankanna er sagður að skoða athafnir stjórnsýslunnar í tengslum við einkavæðinguna vekja nokkra furðu fréttir í þá veru að frekari rannsókn kunni að vera tilgangslítil. Þetta má lesa úr bæði umfjöllun Stundarinnar og RÚV.

Með því sem fram er komið í umfjölluninni er ekki hægt að draga aðra ályktun en að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd virðist ekki ætla að skoða frekar hvaða lærdóm hið opinbera getur dregið af fyrri sölum ríkiseigna. Né heldur virðist vilji nefndarinnar standa til þess að skoða hvaða markmið, stefna og viðmið lágu til grundvallar einkavæðingu bankanna á sínum tíma, hverjir hafi borið ábyrgð á stefnumótuninni og að hve miklu leyti stefnunni hafi verið fylgt við framkvæmd einkavæðingarinnar, líkt og raunar er mælst til um í þingsályktun frá árinu 2012.

Af viðtali Stundarinnar við Finn Þór Vilhjálmsson, fyrrverandi starfsmann Rannsóknarnefndar Alþingis, má helst ráða að fyrst fjallað hafi verið um þessi atriði í 6. kafla rannsóknarskýrslunnar um bankahrunið sé til lítils að skoða þau mál nánar og draga af þeim lærdóm.

Varla getur talist tilgangur Rannsóknarnefndarinnar eða Alþingismanna að standa vörð um kerfið og taka á sig hlutverki ákæranda og dómara í þeim tilgangi að færa ábyrgð frá seljanda ríkiseignanna á hverjum tíma yfir á kaupandann. Hér á vefnum hefur enda verið sýnt fram á að við einkavæðingu Búnaðarbankans voru uppfyllt öll skilyrði ríkisins og viðskiptin gerð upp að fullu. Álitamál sem orðuð hafa verið í tengslum við einkavæðingu Landsbankans, svo sem um hvort stjórnvöld hafi borið hag annarra hluthafa bankans fyrir brjósti þegar bankinn var seldur Samson sem átti lægsta boð í bankann, hafa hins vegar ekki verið vel skoðuð.

Hver var tilgangur Rannsóknarnefndar Alþingis um sölu Búnaðarbankans?

Þar sem stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd er enn með skýrslu rannsóknarnefndarinnar um sölu Búnaðarbankans til umfjöllunar er við hæfi að eftirfarandi sé haldið til haga til áminningar um að tilgangur rannsóknarnefnda átti að vera að skoða athafnir stjórnsýslunnar. Í ljósi niðurstöðu rannsóknar á sölu Búnaðarbankans er ekki úr vegi að hvetja stjórnvöld til að draga einhvern lærdóm af einkavæðingu ríkisfyrirtækja svo forðast megi áratuga deilur nú þegar frekari einkavæðing stendur fyrir dyrum.

Eftirfarandi eru nokkrar staðreyndir sem Rannsóknarnefnd um sölu Búnaðarbankans hefði átt að taka tillit til:

  • Fullyrðingar um að aðkoma Hauck & Aufhäuser að Búnaðarbankanum hafi verið til málamynda hafa ítrekað verið hraktar. Álit Stefáns Svavarssonar, löggilds endurskoðanda og dósents við Háskólann í Reykjavík, var að fjárfesting þýska bankans hafi „rúmast vel“ innan efnahagsreiknings bankans í ársreikningnum 2003 og að sala bankans á hlutabréfunum í Eglu hafi einnig rúmast vel innan tekjuliða ársreiknings bankans söluárið 2004. Ríkisendurskoðun aflaði sér enn fremur staðfestingu bankans á að hann hafi átt hlutabréfin í Eglu og fékk einnig staðfestingu KPMG í Þýskalandi, endurskoðanda bankans, um að hlutabréfin umræddi hafi verið færð til bókar eins og kveðið var á um í þýskum lögum. Fjármálaeftirlitið hafði einnig komist að sömu niðurstöðu. Lesendur skýrslu rannsóknarnefndarinnar þurfa að spyrja sig hvort allir þessir sjálfsstæðu aðilar hafi einfaldlega rangt fyrir sér og að eins manns rannsóknarnefnd á Íslandi hafi rétt fyrir sér í þessum efnum.
  • Sala Búnaðarbankans hefur núna verið margrannsökuð í á annan áratug þrátt fyrir að greitt hafi verið að fullu fyrir bankann og staðið við alla samninga – þetta er reyndar hvergi vefengt. Lesendur skýrslu rannsóknarnefndarinnar gætu spurt sig af hverju þessi mikli áhugi sé á sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum, sérstaklega í ljósi þess að sala Búnaðarbankans var einungis um 8,6% af sölutekjum stjórnvalda af einkavæðingarferlinu á þessum tíma þar sem 35 ríkisfyrirtæki voru seld.
  • Erlend þátttaka í kaupendahópi Búnaðarbankans skipti engu höfuðmáli, enda var S-hópurinn metinn hæfari burtséð frá erlendri þátttöku. Að gera það aukaatriði að erlendur banki hafi tekið þátt í kaupunum, sem var ekki skilyrði, að aðalatriði er gert í þeim tilgangi færa ábyrgð af sölunni frá stjórnvöldum til kaupenda. Stjórnvöld voru enda ekki áhugasamari en svo um erlendu þátttökuna að þau létu sig engu litlu varða allt fram undir undirritun um kaup hvaða banki hafi verið fenginn til samstarfs.
  • Hluturinn í Búnaðarbankanum var seldur til hæstbjóðanda ólíkt því sem átti sér stað við söluna á Landsbankanum til Samson. Að auki var kaupverðið greitt að fullu, ólíkt því sem átti sér stað þegar hlutur í Landsbankanum var seldur til Samson sem var lægstbjóðandi. Færa má rök fyrir því að Ríkissjóður hafi verið snuðaður við söluna á Landsbankanum þegar boði lægstbjóðanda var tekið.
  • Fréttatilkynning um sölu íslenska ríkisins á hlut í Búnaðarbankanum þann 16. janúar 2003 þar sem nefnt var að mikil tíðindi væru að traustur erlendur banki tæki þátt í fjárfestingunni var samin af einkavæðingarnefnd, enda kom fram í kaupsamningi í grein 15.1 að „aðilar skuldbinda sig til að samræma allar tilkynningar til fjölmiðla og annarra aðila í tengslum við samninginn.“ Það voru hagsmunir seljanda, ekki kaupanda, að hampa gæðum ríkiseignarinnar með þessum hætti.
  • Rannsóknarnefndin fór rangt með þegar því var haldið fram að Ólafur Ólafsson hafi neitað að mæta fyrir nefndina þegar óskað var eftir. Hið rétta er að Ólafur óskaði sjálfur eftir því að gefa skýrslu fyrir dómi við rannsóknina eins og gögn sýna fram á. Framkvæmdavaldið mætti að spyrja sig hvort hagræðing sannleikans til að koma höggi á borgara á þennan hátt samræmist hugmyndum réttláta málsmeðferð.
  • Jón Þór Ólafsson sem á sæti í undirnefnd á vegum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ásamt Kolbeini Óttarssyni Proppé og Helgu Völu Helgadóttur var einn þeirra nefndarmanna sem lagði áherslu hvernig draga mætti lærdóm af sölunni. Hann spurði Ólaf Ólafsson að því hvort hann myndi veita liðsinni sitt ef til þess kæmi að frekari rannsóknir á einkavæðingarferli ríkisbankanna yrði gerð og Ólafur svaraði því að játandi. Ólafur hvatti hins vegar til þess að menn drægu lærdóm af einkavæðingarferlinu í heild sinni, nokkuð sem hlýtur að vera nefndarmönnum hugleikið nú þegar stendur fyrir dyrum að selja hluti ríkisins fjármálageiranum.