Voru hluthafar í tvö og hálft ár

Sögðust við undirritun ætla að halda hlut sínum í bankanum í að minnsta kosti tvö ár

einkavæðing Peter Gatti Ólafur Ólafsson Valgerður Bjarnadóttir Geir H. Haarde
Umfjöllun Morgunblaðsins um sölu ríkisins á 45,8% hlut í Búnaðarbanka Íslands.

Peter Gatti, framkvæmdastjóri þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser, kom hingað til lands ásamt Martin Zeill, lögfræðingi bankans, til að ganga frá kaupunum á Búnaðarbankahlutnum og vera við undirritun kaupsamningsins við ríkið í ársbyrjun 2003. Morgunblaðið hafði eftir honum 17. janúar 2003 að bankinn myndi halda hlut sínum í Búnaðarbankanum í að minnsta kosti tvö ár, eins og kveðið væri á um í kaupsamningnum. Að þeim tíma liðnum yrði ávöxtunin metin og fjárfestingin endurskoðuð.

Nýlega fram komin gögn Rannsóknarnefndar Alþingis sýna hins vegar að umfang þátttöku bankans hafði verið fyrirfram ákveðið með samningum sem tryggðu bankanum skaðleysi af viðskiptunum. Kaupþing annaðis fjármögnun kaupanna og þýski bankinn fékk fasta þóknun fyrir aðkomu sína. Kaupþing bar áhættuna af viðskiptunum og mögulegur framtíðarhagnaður skiptist á milli tveggja aflandsfélaga. Fram kemur í skýrslunni að annað þeirra hafi verið í eigu Ólafs Ólafssonar, sem leiddi kaup S-hópsins í Búnaðarbankanum. Líklegt er talið að hitt félagið hafi verið á vegum Kaupþings, þótt ekki hafi tekist að fá staðfestingu á eignarhaldi þess.

Deginum áður, þegar skrifað var undir samningana, var á vef Mbl.is birt samantekt um þýska bankann og hafðar eftir Gatti ástæður þess að bankinn tæki þátt í kaupunum. Í fyrsta lagi hafi Búnaðarbankinn verið vænleg fjárfesting en þýski bankinn hafi einnig talið sig hafa hag af því að miðla af sérþekkingu sinni til Búnaðarbankans.

Í ritgerð Heiðars Lind Hanssonar er einnig vísað til viðtals við Gatti í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem hann sagði kaupin í Búnaðarbankanum ekki vera framtíðarfjárfestingu. „Innan S-hópsins varð samkomulag um að Michael Sautter yrði fulltrúi Hauck & Aufhäuser í stjórn Eglu. Nokkrum vikum síðar var hann loks kjörinn af aðalfundi Búnaðarbankans sem einn af fulltrúum S-hópsins í bankaráð Búnaðarbankans. Með því var skilyrði Fjármálaeftirlitsins um erlendan ráðgjafa í stjórn bankans mætt,“ segir í ritgerðinni.

„Við sameiningu Búnaðarbankans og Kaupþings vorið eftir tók Gatti síðan við keflinu af Sautter þegar fyrsta stjórn sameinaðs banka var kjörinn. Þar sat Gatti í tvö ár eða fram að aðalfundi bankans vorið 2005. Gatti tók einnig við sæti Sautter í stjórn Eglu á aðalfundi félagsins árið 2004.“

Eftir kaup S-hópsins á kjölfestuhlutnum í Búnaðarbankanum voru kannaði fletir á samstarfi bankans og Hauck & Aufhäuser, en fram kemur í ritgerð Heiðars Lind að vegna samrunans við Kaupþing hafi ekkert orðið af frekara samstarfi þegar fram í sótti. Ofan á hafi orðið sú stefna að fylgja þeirri uppbyggingu sem Kaupþing hafði staðið fyrir í viðskiptum sínum erlendis árin á undan.

Fyrsti starfsdagur sameinaðs banka, Kaupþings Búnaðarbanka, var 27. maí 2003, en hluthafafundur Búnaðarbankans hafði samþykkt samrunaáætlun bankanna deginum áður. Ítarlega var fjallað um samrunann í frétt á miðopnu Morgunblaðsins, daginn sem sameinaður banki tók til starfa. Þar kemur fram að í Peter Gatti hafi tekið sæti í stjórn bankans.

Þá er fjallað um samrunann og aðdraganda hans í skráningarlýsingu hlutabréfa bankans sem birt var í Kauphöllinni um haustið (hér í PDF-útgáfu).

H. Aufhäuser bankinn í Löwengrube 20 í Munchen í Þýskalandi um 1905 eða svo. Við dyrnar stendur stofnandi bankans, Heinrich Aufhäuser og synir hans Martin og Siegfried. Bankinn var stofnaður 1897, en myndin er úr kynningarmyndbandi Hauck & Aufhäuser.

Í fyrrnefndri umfjöllun Morgunblaðsins er haft eftir Hjörleifi Jakobssyni, formanni bankaráðs Búnaðarbanka Íslands, á hluthafafundi bankans deginum áður, að samruni bankans við Kaupþing myndi gerbreyta rekstri hans og raunar gerbreyta íslensku fjármálaumhverfi. Straumhvörf hefðu orðið á íslenskum fjármálamarkaði við einkavæðingu ríkisbankanna tveggja um veturinn og að fyrsta verkefni nýs bankaráðs Búnaðarbanka eftir sölu á hlut ríkisins, hafi verið að ákveða að hverjum eftirtalinna fjögurra þátta ætti að stefna.

„Í fyrsta lagi var að aðhafast ekkert og reka bankann áfram eins og verið hafði. Í öðru lagi var samruni við Íslandsbanka. Í því þriðja var samruni við Landsbanka Íslands og loks var samruni við Kaupþing.“ Samruni við Kaupþing hafi fyrir margar sakir verið talinn skynsamlegastur.

„Meðal annars skapaði slíkur samruni sterkasta stöðu á erlendum markaði, hann væri tiltölulega auðveldur í framkvæmd og Samkeppnisstofnun hefði líklegast ekkert við hann að athuga. [Hjörleifur] sagði að 25. mars hefði Kaupþing óskað eftir viðræðum um samruna og 27. mars hefði bankaráð ákveðið að hefja viðræður við Kaupþing,“ segir í frétt blaðsins.

Eftir samruna Kaupþings og Búnaðarbankans jókst virði bréfa sameinaðs banka. Hauck & Aufhäuser fór fram á að minnka hlutabréfaeign sína í bankanum til að innleysa hagnað af fjárfestingunni og var það gert í nokkrum skrefum. Fyrsta skrefið var að selja Eglu 32,3% af eigin bréfum í félaginu í mars 2004. (Sjá samning frá 25. mars 2004.)

Til sölunnar þurfti samþykki viðskiptaráðherra, samkvæmt ákvæðum kaupsamnings ríkisins og S-hópsins, og var óskað eftir því með bréfi dagsettu 27. febrúar 2004. Í bréfinu er bent á að um minniháttar frávik sé að ræða frá upphaflegum kaupsamningi og um leið vakin athygli á því að eftir samruna Búnaðarbankans og Kaupþings ráði Egla ekki lengur yfir kjölfestuhlut í bankanum. Tímabært kynni því að vera að fella niður takmarkanir og kvaðir sem fylgdu hlut ríkisins við söluna á honum. „Með vísan til þess hversu lítinn hluta í hinum sameinaða banka umbj. mínir eiga, þá virðist eðlilegt að alm. lög um eignarhald í fjármálastofnunum og viðskiptabönkum gildi um þann eignarhlut, en ekki sérstakar tímabundnar takmarkanir í kaupsamningi aðila, enda forsendur fyrir þeim ákvæðum löngu brostnar,“ segir í bréfinu sem Kristinn Hallgrímsson lögmaður skrifar undir.

Heimild ráðherra barst svo með bréfi dagsettu 8. mars 2004, þar sem salan er samþykkt. Sölutakmarkanir kaupsamningsins runnu svo út 16. október sama ár.

Hlutur Hauck og Aufhüser í Eglu minnkaði svo í 23,12% þegar þýski bankinn tók ekki þátt í hlutafjáraukningu Eglu í árslok 2004 til að mæta kostnaði vegna hlutafjáraukningar félagsins í Kaupþingi Búnaðarbanka. (Sjá fundargerð hluthafafundar Eglu frá 29. desember 2004.)

Eignaraðild Hauck & Aufhäuser að Eglu og þar með Búnaðarbankanum/KB banka lauk svo um miðjan júní 2005 með sölu á eftirstandandi hlut (23,12%) fyrir 5,5 milljarða króna til Kjalars, félags Ólafs Ólafssonar. (Sjá kauphallartilkynningu frá 14. júní 2005.) Þá voru liðin tæp tvö og hálft ár frá undirritun kaupsamnings S-hópsins og íslenskra stjórnvalda. Er þess getið í tilkynningu til hlutafélagaskrár ríkisskattstjóra (meðfylgjandi) um breytingar á stjórn Eglu 30. júní 2005 að felld hafi verið á brott úr samþykktum félagsins grein sem lagði hömlur á meðferðhluta vegna kaupanna sem gerð voru á virkum eignarhlut í Búnaðarbankanum.

Ákvæði áðurnefndra samninga, sem upplýst var um í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, leiddu hins vegar til þess að fjárhagslegur ávinningur af hlutunum í Eglu sem Hauck & Aufhäuser seldi rann til aflandsfélagsins Welling & Partners.

Í fréttatilkynningu Rannsóknarnefndarinnar segir að Welling & Partners hafi fengið í sinn hlut rúmlega 100 milljónir Bandaríkjadala sem voru lagðar inn á reikning félagsins hjá Hauck & Aufhäuser.

„Snemma árs 2006, eða um þremur árum eftir viðskiptin með eignarhlut ríkisins í Búnaðarbankanum, voru 57,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Marine Choice Limited sem stofnað var af lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama en skráð á Tortóla. Raunverulegur eigandi Marine Choice Limited var Ólafur Ólafsson. Um svipað leyti voru 46,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Dekhill Advisors Limited sem einnig var skráð á Tortóla.“ Tekið er fram að ekki liggi fyrir óyggjandi upplýsingar um raunverulega eigendur Dekhill eða hverjir nutu hagsbóta af þeim fjármunum sem greiddir voru til félagsins.