Banki með 220 ára sögu — myndband

Fjármálastofnanirnar sem runnu saman í Hauck & Aufhäuser eiga sér merka sögu og höfðu staðið af sér margvísleg harðindi — gengið frá sölu til Fosun í ár

Skjáskot úr myndbandi sem birt er á Youtube-vef þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser. Í myndbandinu er hlaupið á sögu bankans.
Skjáskot úr myndbandi sem birt er á Youtube-vef þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser. Í myndbandinu er hlaupið á sögu bankans.

Þýski einkabankinn Hauck & Aufhäuser (borið fram „hákk únt áfhæser“) og forverar hans hafa staðið af sér stríð, byltingar, heimskreppur og heimsstyrjaldir. Hann varð til árið 1998 við samruna tveggja banka. Annar á rætur sínar í Frankfurt og hinn í Munchen. Hlaupið er á sögu bankans með myndrænum hætti í myndbandi sem finna má á Youtube- síðu bankans og getur á að líta hér fyrir neðan.

Þá er að finna hér á vefnum dálítið ágrip af sögu bankans fyrir þá sem vel eru að sér í þýsku.

Hauck & Aufhäuser er alþjóðlegur banki með útibú í Frankfurt am Main, Munchen, Hamborg og Düsseldorf í Þýskalandi, í Cologne í Frakklandi og svo í Lúxemborg.

Kínverski fjárfestingarsjóðurinn Fosun festi haustið 2015 kaup á meirihluta í bankanum, eða 99,91% hlut. Viðskiptin fengu samþykki samkeppnisyfirvalda og fjármálaeftirlits í Þýskalandi í ágúst síðastliðnum, líkt og fram kemur í frétt Financial Times og voru svo frágengin að fullu í september. Kínverski sjóðurinn greiðir fyrir bankann 210 milljónir evra, eða sem svarar til 25 milljarða íslenskra króna.

Hauck & Aufhäuser  heldur áfram óbreyttri starfsemi en kannar, að því er fram hefur komið í umfjöllun erlendra miðla, viðskiptatækifæri í Kína.