Hauck & Aufhäuser og Kaupþing völdu að eiga viðskipti sín á milli

Samningar Hauck & Aufhäuser og Kaupþings voru á ábyrgð þeirra sem þá stjórnuðu bönkunum.

Bindisnæla með merki Búnaðarbanka Íslands
Bindisnæla með merki Búnaðarbanka Íslands.

Ólafur Ólafsson hefur ítrekað, bæði í ræðu og riti, hrakið fullyrðingar þess efnis að kaup þýska bankans Hauck & Aufhäuser á stórum hlut í Búnaðarbankanum í byrjun árs 2003 hafi verið til málamynda (til dæmis hér). Eins og áður hefur komið fram átti S-hópurinn svokallaði hæsta tilboð í hlut ríkisins í bankanum, hann var metinn hæfastur af ráðgjöfum ríkisins og uppfyllti allar þær kröfur sem settar voru við söluna.

Niðurstaðan er því í stuttu máli sú að það hafi ekkert óeðlilegt átt sér stað við kaup S-hópsins á 45,8% hlut í bankanum. Hauck & Aufhäuser var hluti af S-hópnum þar sem þýski bankinn átti stóran hlut í Eglu ehf. Áður hefur verið fjallað um raunverulega aðkomu bankans að þeim viðskiptum hér.

Þegar bankar, hvers lenskir sem þeir eru, fara út í slíkar fjárfestingar nota þeir til þess ýmsar fjármögnunarleiðir. Það er rétt að rugla því ekki saman við fjárfestinguna sjálfa, líkt og gert hefur verið í tilfelli Hauck & Aufhäuser. Bankinn gerði samninga við Kaupþing um fjármögnun, takmörkun á áhættu, o.s.frv. Þeir samningar voru ríkinu óviðkomandi og vörðuðu ekki hagsmuni þess, enda fékk ríkið greitt fyrir sinn hlut og staðið var við öll skilyrði kaupsamningsins.

Það var gagnkvæmur vilji hjá Hauck & Aufhauser og Kaupþingi að eiga viðskipti sín í milli. Öll samskipti milli þeirra voru bein og milliliðalaus og þeir gengu sjálfir frá samningum sín á milli.

„Samningar sem þeir gerðu voru alfarið á þeirra ábyrgð og ég hafði hvorki lesið þá né séð, fyrr en núna…“ sagði Ólafur Ólafsson í ávarpi sínu sem birt var hér á þessum vef um miðjan maí síðastliðinn.

„Hafi eitthvað verið í þessum samningum, sem ég fæ reyndar ekki séð, sem þeir áttu að upplýsa um, þá var það alfarið á þeirra ábyrgð.“

Samningar á milli Hauck & Aufhäuser og Kaupþings voru aftur á móti bundnir bankaleynd. Eðli málsins samkvæmt var viðeigandi aðilum því ekki heimilt að upplýsa um tilvist eða efni þeirra. Bæði Kaupþing og Hauck & Aufhäuser létu vinna lögfræðiálit á samningunum en höfundar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um söluna á Búnaðarbankanum kusu einhverra hluta vegna að birta þau álit ekki.

„[…] hafi verið skylt að upplýsa um þessa samninga var það ekki á mína ábyrgð að gera það, heldur þessara samningsaðila. Þeir nutu lögfræðiráðgjafar, eins og rakið er í smáatriðum í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Ennfremur, hafi ríkið talið sig hafa hagsmuni af því að takmarka rétt kaupenda til samningsgerðar gagnvart öðrum aðilum, þá hefði það verið gert með beinum skilyrðum í söluferlinu og í kaupsamningnum sjálfum,“ sagði Ólafur jafnframt í fyrrnefndu ávarpi. Þá er rétt að geta þess að engin slík skilyrði voru sett í söluferlinu sjálfu né í kaupsamningnum.