Allt að helmingur hafði þegar verið seldur

Boðin höfðu verið út 15 prósent í tvígang

Bindisnæla með merki Búnaðarbanka Íslands
Bindisnæla með merki Búnaðarbanka Íslands.

Áður en kom að sölu á kjölfestuhlut ríkisins í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands árið 2002 var eign ríkisins í bönkunum komin niður í um helming í tilviki Landsbankans og ríflega tvo þriðju í tilviki Búnaðarbankans. Á árunum 1998 til 2002 höfðu hlutir verið seldir í hlutafjárútboðum og hlutafé gefið út í tengslum við sameiningar og kaup bankanna á fjármálafyrirtækjum. Sala bankanna var hluti af markmiðum sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafði sett sér.

Í stjórnarsáttmála flokkanna vorið 1995 var kveðið á um að á kjörtímabilinu ætti að leggja fram áætlun um einkavæðingu ríkisstofnana, en bönkunum var svo breytt í hlutafélög með lagabreytingu árið 1997. Í stjórnarsáttmála sömu flokka eftir kosningarnar 1999 var svo áréttuð stefnan um að halda áfram einkavæðingu ríkisfyrirtækja, einkum þeirra sem væru í samkeppni við fyrirtæki í eigu einkaaðila. „Hlutabréf í ríkisbönkunum verði seld með það að markmiði að ná fram hagræðingu á fjármagnsmarkaði en tryggja um leið  virka samkeppni á markaðnum til að ná fram ódýrari þjónustu. Við söluna verði þess gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum,“ segir í stjórnarsáttmálanum.

Árin 1998 og 1999 var svo seldur í opnum útboðum 15% hlutur í hvorum banka í hvort sinn. Hlutur ríkisins átti þó eftir að færast niður fyrir 70% í báðum bönkum áður en kom að sölu kjölfestuhlutarins vegna hlutafjáraukningar í bönkunum báðum. Annars vegar var hlutafjáraukning í Landsbankanum vegna kaupa bankans á Heritable Bank í Bretlandi og hins vegar var hlutafé Búnaðarbankans aukið vegna stofnunar dótturfélags bankans í Lúxemborg, auk þess sem eignarleigufélagið Lýsing og fjárfestingafélagið Gilding höfðu sameinast bankanum. Hlutur ríkisins í Landsbankanum fór því í 68% og í um 55% í Búnaðarbankanum.

Þá var ákveðið, eftir að ekki tókst að vekja á árinu 2001 áhuga erlendra banka á því að eignast kjölfestuhlut í Landsbankanum að bjóða út 20 prósenta hlut til viðbótar í Landsbankanum. Um hálfum mánuði eftir það útboð lýsti Samson-hópurinn áhuga á því að kaupa kjölfestuhlut í bankanum.

Þegar stjórnvöld auglýstu svo sumarið 2002 eftir fjárfestum sem áhuga hefðu á að kaupa kjölfestuhlut í bönkunum báðum var talað um að seldur yrði fjórðungshlutur hið minnsta í hvorum banka. Að endingu var svo seldur 45,8% hlutur í hvorum banka fyrir sig, annars vegar til fjárfestana í Samson-hópnum, sem keyptu í Landsbankanum og hins vegar til S-hópsins, sem keypti hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

Eftirstandandi 2,56% hlutur ríkisins í Landsbankanum var svo seldur í gegn um Kauphöll Íslands í febrúarlok 2003 og í mars seldi ríkið svo 9,11% hlutinn sem eftir stóð í Búnaðarbankanum.