
Einn mikilvægasti þáttur einkavæðingarferlis ríkisfyrirtækja er að meta verðmæti þeirra fyrirtækja sem einkavæða skal og í framhaldinu að tryggja það að rétt verð fáist fyrir fyrirtækið þegar gengið er til samninga um einkavæðingu.
Það geta legið margvíslegar ástæður fyrir því að einkavæða ríkisfyrirtæki. Í flestum tilvikum liggja þó tvenns konar rök að baki; annars vegar að minnka umsvif hins opinbera í ákveðnum rekstri eða geira og hins vegar að losa um fjármuni hins opinbera. Í allflestum tilvikum fer þetta tvennt saman.
Öll ofangreind atriði áttu við þegar ríkið seldi 45,8% hlut í Búnaðarbankanum í byrjun árs 2003. Þáverandi ríkisstjórn hafði sett sér það markmið að selja ríkisbankana tvo, Landsbankann og Búnaðarbankann, bæði til þess að minnka umsvif ríkisins á fjármálamarkaði og til þess að afla ríkinu fjármagns – sem m.a. var nýtt til að greiða niður skuldir ríkisins.
Árið 2001 voru samþykkt lög á Alþingi þar sem heimilt var að selja hlutafé ríkissjóðs í bönkunum tveimur. Það var síðan hlutverk ríkisstjórnarinnar að útfæra það hvernig sölurnar yrðu framkvæmdar og það tókst misvel til. Í tilfelli Landsbankans handstýrðu stjórnmálamenn því hverjir fengu að kaupa bankann. Við söluna á Búnaðarbankanum var aftur á móti vandað til verka þar sem sá hópur fjárfesta, hinn svokallaði S-hópur, sem átti hæsta boðið í bankann og metinn var hæfastur keypti bankann að lokum.
Fjallað er um verðmæti bankanna í MS ritgerð Kristínar Erlu Jónsdóttur við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands; Einkavæðing Landsbankans og Búnaðarbankans: Voru bankarnir einkavæddir á réttmætan hátt, vorið 2013.
Í ritgerð sinni leggur Kristín Erla fram réttmæta gagnrýni á einkavæðingarferli bankanna og rifjar upp að engar efnisreglur hafi legið fyrir um það hvernig standa ætti að sölunni. Undir það er hægt að taka.
Þó er einnig að finna í ritgerðinni virðismat á bönkunum tveimur sem að mörgu leyti er áhugavert. Með ítarlegum útreikningum er sýnt fram á það að söluverð Búnaðarbankans hafi gefið réttmæta mynd af virði bankans og gott betur. Þannig hafi virði eigin fjár verið um 24.200 m.kr. sem gefur verð á hlut upp á 4,47.
„Raunverulegt söluverð á bréfum í Búnaðarbankanum var 4,81 sem gefur til kynna að virði bankans hafi verið ofmetið við sölu hans. Þegar gert hefur verið álagspróf með breyttum forsendum á ávöxtunarkröfu eigin fjár og langtímavexti fæst verðbil frá 3,55 – 5,59. Raunverulegt söluvirði fellur því innan marka álagsprófsins,“ segir í fyrrnefndri ritgerð.
Þá segir einnig:
„Niðurstöður virðismatsins og úr kennitölusamanburði eru þær að í flestum tilvikum er söluvirði bankanna innan verðmarka. Því má túlka niðurstöður þannig að miðað við gefnar forsendur voru bankarnir einkavæddir á réttmætu verði í árslok 2002.“
Allt stóðst þetta og eins og áður hefur verið bent á fékk ríkið greitt fullt verð fyrir sinn hlut í bankanum. Markmið einkavæðingarinnar náðust og staðið var við alla samninga í því ferli. Það er það sem skiptir mestu máli þegar horft er til baka.