Kaupendur vildu erlenda aðkomu

Eftiráskýringum í túlkun fundargerða 15 árum síðar svarað

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis. Skýrlsan var kynnt í vor en Alþingi ályktaði um gerð hennar 2. júní 2016
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis. Skýrslan var kynnt í vor en Alþingi ályktaði um gerð hennar 2. júní 2016.

Því hefur verið haldið fram að aðkoma erlends banka hafi verið úrslitaatriði þegar kom að samningum við S-hópinn vegna sölu ríkisins á 45,8% hlut í Búnaðarbankanum 2004. Ólafur Ólafsson, sem leiddi kaup S-hópsins, hefur með vísan til gagna hafnað þeirri túlkun. Hann hefur spurt af hverju framkvæmdanefnd um einkavæðingu (einkavæðingarnefnd) ætti að hafa sett slíkt skilyrði, þegar engin slík krafa hafi verið gerð við söluna á Landsbankanum örfáum mánuðum fyrr. Veltir hann því upp hvort það þættu eðlileg vinnubrögð af hálfu einkavæðingarnefndar að selja þeim sem lægst bauð Landsbankann, en gera svo ríkari kröfur til hinna sem buðu í næsta banka sem ríkið var með í söluferli.

Ólafur hefur bent á að skýrt komi fram í fundargerðum einkavæðingarnefndar að það hafi ekki verið grundvallarsforsenda fyrir sölu bankans að erlendur aðili kæmi að kaupunum. Allt tal um mikilvægi þess að erlendir aðilar kæmu að kaupunum hafi verið eftiráskýring stjórnmálamanna sem vildu stæra sig af sölunni og telja sér til tekna að aðkoma erlends banka endurspeglaði traust alþjóðasamfélagsins á íslensku efnahagslífi. Fréttatilkynningin sem send var út við undirskrift hafi líka verið skrifuð af stjórnvöldum, samkvæmt samningsákvæði 15.2 í kaupsamningi og merkt sem sameiginleg fréttatilkynning.

Það hafi hins vegar verið eigið markmið S-hópsins að fá erlenda fjárfesta að borðinu til þess að tryggja erlenda sérþekkingu. Þetta komi fram í fundargerðum og opinberum gögnum alveg frá fyrsta degi til þess síðasta. Í fyrsta bréfi S-hópsins til einkavæðingarnefndar vegna Búnaðarbankans þann 31. október 2002 segi orðrétt á ensku „SG or International Investor 25-30%“ og í kjölfarið komi skýring á þessum lið „…the Investor Group works together with Société Générale (SG) to identify one or more additional international investors and/or advisors who will support the Bank‘s strategic development.

Allt frá upphafi og fram að undirritun hafi af hálfu S-hópsins komið skýrt fram að hópurinn starfaði með franska bankanum Société Générale til að finna fjárfesti, EÐA ráðgjafa, til að styðja við þróun bankans. Það hafi verið gert vegna eigin markmiða kaupenda, sem einir marki stefnuna fyrir bankann. Upprunaleg gögn um ferlið er að finna hér á vefnum.