Óttuðust að leki truflaði söluna

Stjórnvöld voru ekki upplýst um nafn Hauck & Aufhäuser fyrr en daginn fyrir undirritun kaupsamnings

Pennastatív með merki Búnaðarbanka Íslands. Skrifað var undir samning um kaup S-hópsins á bankanum í ársbyrjun 2003
Pennastatív með merki Búnaðarbanka Íslands. Skrifað var undir samning um kaup S-hópsins á bankanum í ársbyrjun 2003.

Óttinn við upplýsingaleka úr Stjórnarráðinu er sögð ein ástæðna þess að nafni þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser var leynt í aðdraganda undirritunar kaupsamnings S-hópsins og stjórnvalda í ársbyrjun 2003.

Upphaflega stóð til að franski stórbankinn Société Générale tæki þátt í kaupum á kjölfestuhlutnum í Búnaðarbankanum með íslensku fjárfestunum í S-hópnum en frá því féll bankinn á lokametrum sölunnar. Franski bankinn tilkynnti um ákvörðun sína 11. desember og var hún svo kynnt einkavæðingarnefnd tveimur dögum síðar. Fram kemur í fundargerð nefndarinnar frá 13. desember 2002 að S-hópurinn hafi farið fram á beiðni um frest á undirritun kaupsamnings til 13. janúar og að ekki yrði hægt að tilkynna um erlendan aðila fyrr en við undirskrift.

Málamiðlun var svo gerð með því að nafn fjármálastofnunarinnar sem kæmi í stað Société Générale yrði kynnt fulltrúum breska fjárfestingarbankans HSBC sem var íslenskum stjórnvöldum til ráðgjafar við söluna á kjölfestuhlutnum í bæði Landsbankanum og Búnaðarbankanum.

S-hópurinn var upplýstur um aðkomu Hauck & Aufhäuser skömmu eftir áramótin 2002/2003, en fyrir áramótin hafði HSBC verið upplýst um að fjórir bankar, Hauck & Aufhäuser þar á meðal, kæmu til greina sem staðgenglar Société Générale.

S-hópurinn ákvað hins vegar að bíða með að tilkynna einkavæðingarnefnd hver bankinn væri fyrr en þátttaka hans hefði verið endanlega staðfest. Í áður óbirtri ritgerð Heiðars Lind Hanssonar sagnfræðings hefur hann eftir Ólafi Ólafssyni, sem fór fyrir S-hópnum, að reynslan hafi sýnt að flestar upplýsingar sem kæmu til stjórnarráðsins lækju út með einhverjum hætti. „Óttuðust fulltrúar S-hópsins að slíkur upplýsingaleki myndi bægja erlendum fjárfestum frá og setja verkefnið í enn frekara uppnám,“ er haft eftir Ólafi í ritgerðinni.

Edward Williams, ráðgjafi hjá HSBC, upplýsti einkavæðingarnefnd svo um það á fundi hennar 9. janúar 2003, að bankinn sem kæmi í staðinn fyrir franska bankann (án þess að nafn Hauck & Aufhäuser kæmi fram) væri að hans mati góður fjárfestir og vel ásættanlegur fyrir íslensk stjórnvöld. „Óveruleg tengsl væru á milli bankans og annarra aðila í hluthafahópnum. Einhver samlegðaráhrif væru á milli bankans og Búnaðarbankans,“ segir í fundargerðinni.

Stjórnvöld voru svo upplýst um nafn þýska einkabankans daginn fyrir undirritun kaupsamningsins milli íslenska ríkisins og S-hópsins (Eglu hf., Samvinnulífeyrissjóðsins, Vátryggingafélags Íslands hf. og Eignarhaldsfélagsins Samvinnutryggingar) 16. janúar 2003.