Rannsóknarnefnd Alþingis skilar skýrslu

blaðamannafundur Finnur Vilhjálmsson Kjartan Bjarni Björgvinsson skýrsla RNA
Kjartan Bjarni Björgvinsson og Finnur Vilhjálmsson kynntu skýrslu sína um þátttöku Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbankans 2003 á blaðamannafundi í Iðnó í Reykjavík 29. mars 2017.

Niðurstaða Rannsóknarnefndar Alþingis, sem skipuð var samkvæmt ályktun Alþingis 2. júní 2016, er að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser aldrei í reynd verið fjárfestir í Búnaðarbankanum þegar 45,8% hlutur ríkisins í honum var seldur í janúar 2003, ólíkt því sem haldið hafi verið fram allt frá upphafi. „Það er afdráttarlaus niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis að stjórnvöld hafi skipulega verið blekkt í aðdraganda og kjölfar sölunnar,“ segir í fréttatilkynningu nefndarinnar.

Í skýrslu nefndarinnar er rakið hvernig þýska bankanum hafi verið tryggt skaðleysi af viðskiptunum með „baksamningum“ sem fram til þessa höfðu farið leynt. „Í raun var eigandi hlutarins aflandsfélagið Welling & Partners, skráð á Tortóla á Bresku Jómfrúaeyjum. Með fjölda leynilegra samninga og millifærslum á fjármunum, m.a. frá Kaupþingi hf. inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser var þýska bankanum tryggt skaðleysi af viðskiptunum með hluti í Búnaðarbankanum,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Fyrir þátttöku sína hafi þýski bankinn fengið þóknun upp á eina milljón evra, en hagnaður, sem og áhætta vegna viðskiptanna, hafi legið hjá aflandsfélaginu og Kaupþingi sem fjármagnaði viðskiptin.

Viðskipti á grundvelli samninganna hafi svo gert að verkum að Welling & Partners hafi fengið í sinn hlut rúmlega 100 milljónir Bandaríkjadala, sem lagðar hafi verið inn á reikning félagsins hjá Hauck & Aufhäuser.

„Snemma árs 2006, eða um þremur árum eftir viðskiptin með eignarhlut ríkisins í Búnaðarbankanum, voru 57,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Marine Choice Limited sem stofnað var af lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama en skráð á Tortóla. Raunverulegur eigandi Marine Choice Limited var Ólafur Ólafsson,“ segir í tilkynningunni.

Um svipað leyti hafi 46,5 milljónir Bandaríkjadala verið greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Dekhill Advisors Limited sem einnig hafi verið skráð á Tortóla. „Ekki liggja fyrir óyggjandi upplýsingar um raunverulega eigendur Dekhill eða hverjir nutu hagsbóta af þeim fjármunum sem greiddir voru til félagsins,“ segir í tilkynningu rannsóknarnefndarinnar, en á kynningarfundi vegna útgáfu skýrslunnar í Iðnó, 29. mars 2017, töldu skýrsluhöfundar, Finnur Vilhjálmsson og Kjartan Bjarni Björgvinsson, líklegt að eignarhald þess félags hafi verið á höndum Kaupþings.

Ólafur Ólafsson, sem leiddi kaup S-hópsins á Búnaðarbankahlutunum, sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar kynningarfundar nefndarinnar þar sem hann áréttaði að S-hópurinn hafi verið með hæsta boð í hlutinn sem seldur var í Búnaðarbankanum í ársbyrjun 2003. „Bjóðendur voru metnir af HSBC bankanum, sem var ríkinu til ráðgjafar, og kom S-hópurinn best út úr því mati. Hann fékk flest stig og tekið var fram að það væri óháð hugsanlegri erlendri þátttöku í kaupunum,“ segir hann í yfirlýsingunni.

Í niðurstöðu HSBC segir meðal annars: „In making the assessment, the uncertainty surrounding the involvement of the international financial institution(s) has been taken into account and it has been concluded that the S-Group submission is marginally more attractive, even in the event that an equity investment by an international financial institution would not be part of the final deal.“

Ólafur bendir jafnframt á bókuð ummæli Ólafs Davíðssonar, formanns einkavæðingarnefndar, á fundi nefndarinnar 28. ágúst 2002, að ekki væri áskilið að erlendir aðilar kæmu að viðskiptunum. „Það er óábyrgt af Kjartani Bjarna Björgvinssyni, stjórnanda rannsóknarinnar, að segja að erlend aðkoma hafi verið grundvallarforsenda þegar það liggur alveg ljóst fyrir að hún var ekki skilyrði,“ segir Ólafur í yfirlýsingunni.

Í framhaldi hafi verið gerður kaupsamningur og kaupverð samkvæmt honum hafi verið að fullu greitt til íslenska ríkisins og staðið við öll þau skilyrði, sem sett voru í samningnum. „Ríkið bar ekki skertan hlut frá borði, eins og einhver kynni að álykta af umræðu um skýrsluna fyrr í dag.“ Ólafur bendir á að Kjartan Bjarni Björgvinsson hafi, aðspurður á blaðamannafundi í Iðnó, staðfest að nefndin ályktaði ekki sem svo að ríkið hefði skaðast í viðskiptunum.

„Það sem á fundi rannsóknarnefndar voru nefndir baksamningar voru samningar milli einkaaðila og höfðu engin áhrif á niðurstöðu í sölu ríkisins á hlut sínum í Búnaðarbankanum. Hvorki ríkissjóður né almenningur voru verr settir vegna þessara samninga, sem rannsóknarnefndin kýs að kalla blekkingu. Samningarnir, eins og þeim er lýst í skýrslunni, snúa að fjármögnun á hlut Hauck & Aufhäuser í þessum viðskiptum, áhættu og hvernig hagnaði, ef af yrði en ekkert lá fyrir um, væri skipt. Hagnaðurinn kom til vegna hækkunar á hlutabréfaverði á tveggja ára tímabili en ekki vegna meintra blekkinga,“ segir Ólafur í yfirlýsingu sinni.