Société Générale taldi þátttöku geta skaðað ímynd bankans

Franski bankinn Société Générale var brenndur af pólitískri umræðu í Frakklandi

Economist Société Générale HSBC einkavæðing
Umfjöllun í The Economist um fjármálageirann í Frakklandi. Mynd/Skjáskot

Franski stórbankinn Société Générale taldi, síðla árs 2002, að skaða myndi ímynd bankans að taka þátt í kaupum á íslenskum smábanka með tengingar við landbúnað, líkt og Búnaðarbanki Íslands var. Að þessari niðurstöðu komst bankinn í kjölfar þess að hafa orðið undir í samkeppni um kaup á stærri banka með svipaðar tengingar í Frakklandi. Þá höfðu fulltrúar bankans áhyggjur af pólitískum deilum tengdum einkavæðingu bankanna á Íslandi.

Franski bankinn tilkynnti um ákvörðun sína 11. desember 2002 og var fjárfestum S-hópsins nokkurt áfall, að því er fram kemur í áður óbirtri ritgerð Heiðars Lind Hanssonar sagnfræðings.

„Við vorum með böggum hildar á þessum tímapunkti,“ hefur hann í ritgerðinni eftir Guðmundi Hjaltasyni, sem var framkvæmdastjóri Eglu hf., eins félaganna í S-hópnum. Société Générale skuldbatt sig hins vegar til þess að hafa milligöngu um að útvega annan erlendan fjárfesti í staðinn og það varð á endanum þýski einkabankinn Hauck & Aufhäuser.

Bankinn sem Société Générale hafði reynt að kaupa var franski stórbankinn Crédit Lyonnais. Sá var á endanum seldur til Crédit Agricole.

Í ritgerð Heiðars er haft eftir Guðmundi Hjaltasyni, framkvæmdastjóra Eglu hf. (eins hluthafa S-hópsins), sem var í hvað mestum samskiptum við fulltrúa Société Générale, þá dr. Michael Sautter og Ralph Darpé, að það hafi verið mat stjórnenda Société Générale að það myndi skaða ímynd bankans að ganga á þessum tímapunkti frá kaupum á íslenskum smábanka með svipaða tengingu við landbúnað og Crédit Agricole.

„Önnur ástæða sem vó þungt hjá Société Générale í ákvörðun sinni var stjórnmálalegs eðlis og réði þar mestu að umræða um bankasöluna var orðin einum of pólitísk hér á landi. Ekki vildi bankinn bendla sig við slíka umræðu,“ segir í ritgerðinni og haft eftir Guðmundi Hjaltasyni að þar hafi bankinn verið markaður af viðlíka umræðu í Frakklandi nokkrum árum áður.