Tvíþætt ástæða til að funda með þingnefnd

Ekki var annað að sjá og heyra en að nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis kynnu að meta fundinn með Ólafi Ólafssyni

Alþingi þingnefndarfundur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingmenn
Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis með Ólafi Ólafssyni. Jón Steindór Valdimarsson með orðið. (Skjáskot/myndbandsupptaka Mbl.is)

Sem kunnugt er átti Ólafur Ólafsson fund með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis þann 17. maí sl. Ólafur óskaði sjálfur eftir því að koma fram fyrir nefndina í kjölfar þess að rannsóknarnefnd Alþingis, sem skipuð var einum manni, skilaði skýrslu um rannsókn sína á sölu ríkisins á hlut sinum í Búnaðarbankanum í byrjun árs 2003.

Bæði fyrir og eftir fundinn voru margir sem veltu upp spurningum um tilgang og tilefni fundarins, svo sem álitsgjafar í fjölmiðlum, einstaka þingmenn og fleiri. Ástæður þess að Ólafur óskaði eftir því að koma fyrir nefndina voru tvíþættar.

  1. Annars vegar taldi hann að rannsóknarnefndin hefði ekki uppfyllt sjálfsagðar reglur um réttláta málsmeðferð, þar sem honum var ekki gefið færi á því að meta gögn og svara spurningum nefndarinnar. Eins og áður hefur verið fjallað um óskaði Ólafur sjálfur eftir því að gefa skýrslu fyrir héraðsdómi þar sem hann dró hlutleysi nefndarinnar stórlega í efa. Í skýrslutökunni voru borin undir hann 15 ára gömul gögn sem hann fékk ekki að taka efnislega afstöðu til. Ef nefndin hefði viðhaft eðlileg vinnubrögð hefði Ólafur fengið aðgang að þeim gögnum sem fyrir lágu og í framhaldinu verið í aðstöðu til að taka afstöðu til þeirra og veitt þannig fullnægjandi svör. Það breytir engu um framlagningu gagnanna, þau eru til staðar og fara ekkert þó svo að þeir sem til rannsóknar eru, í þessu tilfelli Ólafur, taki afstöðu til þeirra.
  2. Hins vegar taldi Ólafur rétt að koma fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í ljósi þess að sama nefnd skipaði rannsóknarnefndina og tók við skýrslu hennar eftir að hinni svokölluðu rannsókn var lokið. Rannsóknarnefndir eru um margt ólíkar dómstólum og starfa utan hins hefðbundna réttarríkis. Þegar mál eru tekin til rannsóknar hjá lögreglu eða saksóknaraembættum fá sakborningar aðgang að gögnum málsins og hafa þannig tækifæri til að taka afstöðu til þeirra (á þessu hefur þó verið mikil brotalöm við rannsóknir hinna svokölluðu hrunmála). Það er síðan dómstóla að úrskurða um niðurstöðu mála. Með tilkomu rannsóknarnefndar á borð við þeirrar sem hér um ræðir er rannsóknarnefndin bæði í hlutverki ákærenda og dómara, ef þannig má að orði komast. Án þess að hafa dómsvald getur nefndin tekið sér það hlutverk að taka einstaka persónur af lífi í opinberri umræðu. Þar nægir ein skýrsla og blaðamannafundur. Það er ekkert svigrúm gefið til að mótmæla eða hafa uppi röksemdir gegn niðurstöðu nefndarinnar.

Sem fyrr segir meðtók stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis skýrslu rannsóknarnefndar og mun taka hana til efnislegrar meðferðar. Því taldi Ólafur bæði rétt og mikilvægt að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við nefndina milliliðalaust. Rétt er þó að nefna að í skýrslunni er lítið sem ekkert fjallað um það hvaða lærdóm hið opinbera getur dregið af fyrri sölum ríkiseigna, þannig að það er erfitt að meta að svo stöddu hvert hlutverk nefndarinnar á að vera þegar hún tekur skýrsluna til efnislegrar meðferðar.

Það var nefndarinnar að ákveða að hafa fundinn opinn fjölmiðlum, en Ólafi þó að meinlausu. Það var ekki annað að sjá og heyra en að nefndarmenn kynnu að meta fundinn ef marka má orð þeirra í lok fundarins.

„Ég þakka þér fyrir að koma í þeim tilgangi þannig að við getum lært af þessu,“ sagði einn nefndarmanna og annar sagði „… gaman að þú komst og veittir þessar upplýsingar.“

Jón Steindór Valdimarsson, starfandi formaður nefndarinnar í málinu sagði í lok fundarins að fundurinn hefði verði góður og „upplýsandi að mörgu leyti“.