Um óskeikult minni og samhengi hluta

Fimmtán árum síðar eru gögn túlkuð í nýju samhengi

Alþingishúsið, séð úr bakgarði Althingi Ísland Iceland Reykjavík Mynd/skjáskot
Alþingishúsið, séð úr bakgarði. (Mynd/skjáskot af vef Alþingis)

Minni manna er mismikið og það má gefa sér að þegar einstaklingur er spurður um atburði sem áttu sér stað fyrir hálfum öðrum áratug þá hefur hann tvo möguleika. Að svara eftir bestu getu sem þá byggist á minni eða sleppa því að svara og bera fyrir minnisleysi. Þetta er hluti af mannlegu eðli og á við um flesta einstaklinga. Eftir tilvikum eru til minnisblöð eða önnur gögn sem geta bætt minni manna. Ef tekið er dæmi um minnisblað þá gefur augaleið að það verður best túlkað af þeim sem það ritaði en ekki öðrum.

Allt þetta skiptir máli þegar fjallað er um söluna á Búnaðarbankanum. Gengið var frá sölunni í janúar 2003 en aðdragandinn að sölunni átti sér að mestu stað árið 2002, eða fyrir 15 árum síðan. Þeir sem komu að sölunni, hvort sem er kaupendur eða seljendur, hafa eftir tilvikum þann kost að rifja upp atburði. Þær minningar byggja þá annað hvort á minni, sem er skeikult, eða gögnum sem tekin voru saman af viðkomandi ef þau eru til.

Eins og áður hefur komið óskaði Ólafur Ólafsson eftir því að fá að gefa skýrslu hjá dómara þegar rannsóknarnefnd Alþingis vildi bera undir hann spurningar um þetta 15 ára gamla mál. Við skýrslutöku svaraði Ólafur spurningum nefndarinnar eftir bestu getu. Í þeim tilvikum þar sem hann taldi sig þurfa að kanna einstaka mál betur eða þeim tilvikum þar sem hann vildi ekki eingöngu treysta á minni sitt kaus hann að svara ekki, enda gefur augaleið að það er til lítils að tjá sig um einstaka atburði við slíkar aðstæður nema minni manna reynist með öllu óskeikult.

Á fundi með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis um miðjan maí á þessu ári var Ólafur spurður út í tölvupóst sem honum hafði borist frá starfsmanni einkavæðingarnefndar nokkrum dögum áður, hvar viðkomandi staðfesti að aðkoma erlendrar fjármálastofnunar hafi ekki verið ein af forsendum við val á samningsaðilum við sölu á hlut ríkisins í bankanum. Ólafur var m.a. spurður að því hvort að það væri ekki „nokkuð vafasamt að treysta á minni þessa ágæta manns í þessu efni?“

Rétt er að rifja upp það sem að framan greinir, að í flestum tilvikum svara menn ekki svona erindum (hvort sem er í tölvupósti eða í töluðu máli) nema þeir treysti því að minnið reynist þeim rétt. Þannig var það í þessu tilviki.

Þetta leiðir jafnframt hugann að því hvernig þau gögn sem nýtt eru í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þeir sem tóku þátt í atburðarrásinni hafa undir öllum kringumstæðum betri stöðu til að meta gögnin og þá sérstaklega í ljósi aðstæðna á þeim tíma. Allir þeir sem komu að atburðarrásinni eru sammála um að aðkoma erlends banka hafi ekki verið forsenda fyrir vali á samningsaðilum í söluferli Búnaðarbankans.

Rannsóknarnefnd Alþingis kýs aftur á móti að túlka gögnin í nýju samhengi 15 árum síðar. Sú túlkun byggir að mestu leyti á því andrúmslofti sem nú ríkir, þar sem auðvelt er að gera hluti tortryggilega og ekki þarf sterka sönnunarbyrgði til að fella þunga dóma utan réttarsala. Hægt er að „sakfella“ einstaklinga með útgáfu á skýrslu, á blaðamannafundi og í drottningarviðtölum við fjölmiðla. Rétt er að rifja upp að eini nefndarmaður rannsóknarnefndarinnar er héraðsdómari.