Undanþága veitt sjö mánuðum áður en sölubann rann út

Hauck & Aufhäuser fékk sérstaka undanþágu viðskiptaráðherra fyrir fyrstu sölu á hlut eignar sinnar í Búnaðarbankanum

Fréttablaðið fjölmiðlar Búnaðarbanki S-hópurinn Samson Landsbanki
Umfjöllun Fréttablaðsins 27. nóvember 2003 um ávöxtun hlutabréfa í Búnaðarbanka Íslands.

Þegar þýski einkabankinn Hauck & Aufhäuser minnkaði hlut sinn í Búnaðarbankanum og hagnaður innleystur af kaupunum í ársbyrjun 2004 þurfti til þess sérstaka heimild viðskiptaráðherra. Hún var veitt 8. mars 2004, tíu dögum eftir að um hana var sótt.

Þýski bankinn, sem skráður var helmingseigandi hlutafélagsins Eglu (sem stofnað var um kaupin á Búnaðarbankanum og þátttakandi í S-hópnum), seldi í kjölfarið Eglu 32,3% prósent af eigin bréfum í félaginu.

Samkvæmt samningi stjórnvalda og S-hópsins um söluna á Búnaðarbanka Íslands var fjárfestum í S-hópnum óheimilt, nema með sérstakri undanþágu, að selja þá hluti sem þeir keyptu af ríkinu í bankanum fyrr en að liðnum 21 mánuði frá undirritun samningsins, eða 16. október 2004. Þegar ráðherra veitti þýska bankanum heimild til að selja hlut eignar sinnar í Búnaðarbankanum voru enn sjö mánuðir eftir af sölubannstímabilinu sem tilgreint var í samningi stjórnvalda og S-hópsins.

Í umsókninni um undanþáguna bendir Kristinn Hallgrímsson, lögmaður hópsins, á að um minniháttar frávik væri að ræða, auk þess sem hlutafélagið Egla réði, eftir samruna Kaupþings og Búnaðarbankans, ekki lengur yfir kjölfestuhlut í bankanum.

Hlutur Hauck og Aufhüser í Eglu minnkaði svo í 23,12% þegar þýski bankinn tók ekki þátt í hlutafjáraukningu Eglu í árslok 2004. Sá hlutur var svo seldur til Kjalars, félags Ólafs Ólafssonar, fyrir 5,5 milljarða króna um miðjan júní 2005. Þá voru liðin tæplega tvö og hálft ár frá undirritun kaupsamnings S-hópsins og íslenskra stjórnvalda.