Upphaf og ferill viðræðna um sölu kjölfestuhlutar í bönkunum

Auglýst var eftir fjárfestum eftir að Samson lýsti áhuga á kaupum

Penni merktur Búnaðarbankanum
Penni með merki Búnaðarbankans.

Ekkert kom út úr tilraun stjórnvalda til að vekja áhuga 24 alþjóðlegra banka á kjölfestuhlut í Landsbankanum sumarið 2001 og sölunni var slegið á frest í desember það ár. Eftir áramótin var svo ákveðið að selja fimmtungshlut í bankanum í opnu áskriftarboði, líkt og gert hafði verið árin 1998-1999. Útboðið fór fram 14. júní 2002 og seldist allt hlutaféð. Í áður óbirtri ritgerð Heiðars Lind Hanssonar sagnfræðings „Aðeins meira um söguna af einkavæðingu Búnaðarbankans“ er farið yfir aðdraganda þess að á árinu 2002 lagði einkavæðingarnefnd í að selja kjölfestuhluti í Landsbankanum og Búnaðarbankanum.

27. júní, tæpum tveimur vikum eftir útboðið á 20% hlutnum í Landsbankanum, barst einkavæðingarnefnd bréf frá Björgólfi Guðmundssyni, Björgólfi Thor Björgólfssyni og Magnúsi Þorsteinssyni (Samson hópnum) þar sem þeir lýstu yfir áhuga á að kaupa að minnsta kosti þriðjung hlutafjár í Landsbankanum.

„Aðdragandinn að sendingu bréfsins var þannig að Björgólfur Thor og Magnús höfðu hitt fulltrúa HSBC bankans fyrir tilviljun í kokteilboði í Lundúnum fyrr um veturinn um það leyti sem þeir voru að ganga frá sölu á bjórverksmiðju sinni í Pétursborg í Rússlandi. Fulltrúinn hafi tjáð þeim að HSBC hefði enn þá umboð íslenskra stjórnvalda til að selja bankann, en umboðið var endurnýjað þegar einkavæðingarnefnd framlengdi samning sinn við HSBC bankann 14. febrúar 2002. Þar fékk HSBC heimild til að kynna sölu á Landsbankanum óformlega,“ segir í ritgerð Heiðars Lind. (Sjá minnisblað einkavæðingarnefndar til viðskiptaráðherra frá 30. júní 2002.) Þá hefðu Björgólfur Thor og Magnús skömmu síðar hitt Halldór J. Kristjánsson, bankastjóra Landsbankans og Kjartan Gunnarsson, varaformann bankaráðs, í boði í Heritable bankanum í Lundúnum og fengið að vita hjá þeim að til stæði að fara á næstunni að selja hluti ríkisins í Landsbankanum. „Í framhaldinu settu þeir Björgólfur Thor og Magnús, ásamt Björgólfi Guðmundssyni sig í samband við Ólaf Davíðsson, formann einkavæðingarnefndar, og Davíð Oddsson forsætisráðherra vegna Landsbankans,“ segir í ritgerð Heiðars Lind. Eftir þau samtöl hafi þremenningarnir sent einkavæðingarnefnd bréf sitt.

Í tilkynningu einkavæðingarnefndar 5. júlí 2002 er upplýst um erindi þremenninganna og að ráðherranefnd um einkavæðingu hafi falið einkavæðingarnefnd að taka upp könnunarviðræður við þá um málið. Vegna jafnræðissjónarmiða taldi nefndin hins vegar að gefa yrði fleirum kost á sambærilegum viðræðum, eða líkt og segir í tilkynningunni: „Í beinum viðræðum við fjárfesta um kaup á eignarhlut ríkisins í bönkunum verður að gæta að jafnræði aðila. Slíkar viðræður verða því ekki teknar upp án þess að öðrum fjárfestum verði jafnframt gefinn kostur á þátttöku í þess háttar ferli. Þetta hefur þremenningunum verið kynnt með bréfi framkvæmdanefndar um einkavæðingu í dag. Því hefur verið ákveðið að birta auglýsingu þar sem öðrum sem áhuga kynnu að hafa á kaupum verður gefinn kostur á að gefa slíkt til kynna innan tiltekins tíma.“

Fimm dögum síðar, eða 10. júlí 2002, kallaði einkavæðingarnefnd svo í auglýsingu eftir áhugasömum fjárfestum sem tilbúnir væru til að kaupa að minnsta kosti fjórðungshlut í annað hvort Landsbanka eða Búnaðarbanka. Í auglýsingunni er vísað til nokkurra þátta sem fjárfestarnir þurftu að uppfylla og/eða upplýsa um í tilkynningu sinni um áhuga. Þar segir:

„Í tilkynningunni skal gera grein fyrir fjárhagsstöðu, þekkingu og reynslu á fjármálamarkaði, eignarhlut sem viðkomandi óskar eftir kaupum á, hugmyndum um staðgreiðsluverð og áformum varðandi rekstur þess banka sem áhugi er á. Kaupendur skulu uppfylla skilyrði um hæfi eigenda virkra eignarhluta, sbr. ákvæði 10. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði. Einnig er bent á ákvæði samkeppnislaga nr. 8/1993.“ Þá er tekið fram að í fyrstu verði bara seldur hlutur í öðrum bankanum, fáist fyrir hann viðunandi verð og viðræður leiði til sölu.

Í 10. grein laga um viðskiptabanka og sparisjóði (lögum sem síðar urðu að lögum um fjármálafyrirtæki) eru svo ákvæði um að þeir sem ætli að eignast stóran eignarhlut í viðskiptabanka þurfi að beina skriflegri umsókn þar að lútandi til fjármálaeftirlitsins. Eftirfarandi upplýsingar eigi að fylgja umsókninni:

 1. Nafn og heimili umsækjanda.
 2. Nafn þess viðskiptabanka sem umsækjandi hyggst fjárfesta í.
 3. Stærð þess hlutar eða atkvæðisréttar sem umsækjandi hyggst fjárfesta í.
 4. Áform um breytingar á verkefnum viðskiptabanka.
 5. Fjármögnun fjárfestingarinnar.
 6. Fjárhagsstöðu umsækjanda.
 7. Fyrirhuguð viðskiptatengsl umsækjanda við viðskiptabankann.
 8. Reynslu umsækjanda af fjármálastarfsemi.
 9. Eignarhald, stjórnarsetu eða aðra þátttöku umsækjanda í starfsemi lögaðila.
 10. Refsingar sem umsækjandi hefur verið dæmdur til að sæta og hvort hann sæti opinberri rannsókn.
 11. Náin tengsl umsækjanda við aðra lögaðila, sbr. 3. mgr. 4. gr.
 12. Aðrar upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið fer fram á að umsækjandi veiti og máli skipta við mat á hæfi eigenda virkra eignarhluta.

Fjármálaeftirlitið leggi mat á hæfi umsækjenda „með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs viðskiptabanka“ og skuli gæta meðalhófs við matið. Það fari fram með hliðsjón af eftirfarandi:

 1. Fjárhagsstöðu umsækjanda og aðila sem hann er í nánum tengslum við.
 2. Þekkingu og reynslu umsækjanda.
 3. Hvort eignarhald umsækjanda skapar hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði.
 4. Stærð þess hlutar eða atkvæðisréttar sem umsækjandi hyggst fjárfesta í.
 5. Hvort ætla megi að eignarhald umsækjanda muni torvelda eftirlit með hlutaðeigandi viðskiptabanka. Við mat á því skal m.a. horft til fyrri samskipta umsækjanda við Fjármálaeftirlitið eða önnur stjórnvöld, til þess hvort náin tengsl umsækjanda við einstaklinga eða lögaðila geta að mati Fjármálaeftirlitsins hindrað það í eðlilegum eftirlitsaðgerðum og hvort lög og reglur, sem gilda um umsækjanda, hindra eðlilegt eftirlit.
 6. Hvort umsækjandi hefur gefið Fjármálaeftirlitinu umbeðnar upplýsingar ásamt fylgigögnum og þær upplýsingar hafa reynst réttar.
 7. Refsingum sem umsækjandi hefur verið dæmdur til að sæta og hvort hann sæti opinberri rannsókn.

Ráðgjafi ríkisins við söluna var breski fjárfestingarbankinn HSBC.

Fimm hópar fjárfesta lýstu yfir áhuga á viðræðum um kaup á kjölfestuhlut í bönkunum. Þetta voru: Samson, Björgólfur Thor Björgólfsson, Magnús Þorsteinsson og Björgólfur Guðmundsson; Þórður Magnússon, fyrir hönd hóps fjárfesta; S-hópurinn, Eignarhaldsfélagið Andvaka, Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar, Fiskiðjan Skagfirðingur hf., Kaupfélag Skagfirðinga svf., Ker hf., Samskip hf. og Samvinnulífeyrissjóðurinn; Íslandsbanki hf.; og svo Kaldbakur hf.

Í kjölfarið var gengið til viðræðna við þrjá hópa fjárfesta, Samson, S-hópinn og Kaldbak.

Niðurstaðan var svo að selja Samson kjölfestuhlut í Landsbanka Íslands, en halda áfram viðræðum við S-hópinn og Kaldbak um sölu á kjölfestuhlut í Búnaðarbankanum til annars hvors þeirra.