Erlendir bankar vildu ekki kaupa árið 2001

Haft var samband við 24 erlenda banka

Höfuðstöðvar HSBC í Lundúnum London
Höfuðstöðvar breska fjárfestingarbankans HSBC í Lundúnum. Mynd/HSBC

Áætlanir stjórnvalda um að selja erlendum banka kjölfestuhlut í Landsbanka Íslands á árinu 2001 gengu ekki eftir. Tilraun til þess var gerð eftir að samkeppnisráð kom í veg fyrir sameiningu Landsbankans og Búnaðarbankans undir árslok 2000. Mat ráðsins var að sú sameiningin myndi leiða til of mikillar samþjöppunar á fjármálamarkaði.

Sumarið eftir ákváðu stjórnvöld að freista þess að selja erlendum banka kjölfestuhlut í Landsbankanum. Stjórnvöldum til ráðgjafar var breski fjárfestingarbankinn HSBC.

Haft var samband við 24 erlenda banka víðsvegar að um heiminn, meðal annars frá Bandaríkjunum, Norðurlöndum og meginlandi Evrópu. Áhugi reyndist takmarkaður og tóku bara tveir bankar boði um viðræður, Den Norske Bank í Noregi og Philadelphia International Investment Corporation, dótturfélag bandaríska bankans Wachovia.

Viðræður skiluðu litlu og söluferlinu var slegið á frest þar til síðar í desember 2001. „HSBC bankinn í London hefur ásamt stjórnendum Landsbankans kynnt Landsbanka Íslands hf. fyrir mögulegum kjölfestufjárfestum á undanförnum vikum. Stefnt hafði verið að því að salan færi fram fyrir lok ársins en vegna erfiðra markaðsskilyrða er ljóst að það mun ekki ganga eftir. Vegna þessa hefur verið ákveðið að fresta frekari sölukynningu þar til síðar,“ segir í tilkynningu einkavæðingarnefndar 21. desember 2001.

Óvissa var á erlendum fjármálamörkuðum vegna hryðjuverkaárásanna á tvíburaturnana í New York í Bandaríkjunum þá um haustið og erfiðum markaðsskilyrðum kennt um hvernig fór. Þá hefur Heiðar Lind Hansson, í ritgerð um einkavæðingu Búnaðarbankans, eftir Ólafi Davíðssyni, formanni einkavæðingarnefndar, að einnig hafi haft áhrif að erlendir fjárfestir litu á kaup á Landsbankanum sem lítið verkefni sem gæti möguleg kallað á mikla vinnu sem ekki svaraði kostnaði.